03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (1028)

143. mál, skyldusparnaður ungs fólks

Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson):

Hæstv. forseti. Ég vil vitna, með leyfi forseta, til 71. gr. VII. kafla laga nr. 51/1980, um skyldusparnað ungs fólks til íbúðabygginga, þar sem segir:

„Öllum einstaklingum á aldrinum 16–25 ára, sem ekki hafa formlega undanþágu skv. 73. gr., skal skylt að leggja til hliðar 15% af launum sínum, sem greidd eru í peningum, eða sambærilegum atvinnutekjum, í því skyni að mynda sér sjóð til íbúðabygginga, en að bústofninn verði í sveit. . . . Fé það, sem á þennan hátt safnast, skal ávaxtað í innlánsdeild Byggingarsjóðs ríkisins.

Fé það, sem lagt er til hliðar á þennan hátt, er undanþegið tekjuskatti og útsvari. Sem eign er það, að vöxtum meðtöldum, skattfrjálst en framtalsskylt.“

Skyldusparnaður ungs fólks í dag er verðtryggður með lánskjaravísitölu, en ávaxtaður með 3,5% vöxtum hjá Byggingarsjóði ríkisins. Það eru sömu vextir og af lánum sem Byggingarsjóður ríkisins veitir til þeirra sem eru að kaupa eða byggja íbúðarhúsnæði. Á sama tíma býður ríkissjóður 8,5% raunvexti á ríkisskuldabréf.

Hingað til hafa lágir vextir á skyldusparnaði ungs fólks verið réttlættir með því að ungt fólk njóti ákveðins skattfrelsis. Þegar staðgreiðslukerfi skatta verður tekið upp nú um áramót er ekki gert ráð fyrir því að ungt fólk njóti áfram þessara skattfríðinda.

Ég spyr því hæstv. félmrh. hvort hún hyggist beita sér fyrir hækkun vaxta á skyldusparnaði ungs fólks til íbúðabygginga þegar staðgreiðslukerfi skatta kemur til framkvæmda um næstu áramót.