03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

150. mál, fangelsismál

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir fsp. sem ég hef ásamt Inga Birni Albertssyni sett fram á þskj. 162. Fsp. þessari er beint til dómsmrh. og hún fjallar um fangelsismál. Fsp. er þannig:

„Er í undirbúningi bygging nýs fangelsis eða vinnuhælis? Ef svo er, hvar verður það reist og hversu stórt verður það? Hvað kemur það til með að rúma marga fanga og hvenær er áætlað að það verði tekið í notkun? Hver er áætlaður kostnaður við byggingu slíks fangelsis eða vinnuhælis?"

Ástæða fsp. þessarar er sú mikla nauðsyn sem við fyrirspyrjendur teljum vera á úrbótum í fangelsismálum okkar Íslendinga.

Eins og fangelsismálum er háttað í dag eru þrír staðir notaðir til að vista þá sem dæmdir hafa verið til refsivistar. Eru það vinnuhælin tvö að Litla-Hrauni í Árnessýslu og á Kvíabryggju á Snæfellsnesi, svo og Hegningarhúsið að Skólavörðustíg 9 í Reykjavík. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þessa staði. Þeir eiga það allir sameiginlegt að vera óhæfir sem bústaðir fyrir venjulegt fólk. Þá eiga þeir það sameiginlegt að hafa verið byggðir í öðrum tilgangi en að vista refsifanga og að vera mjög komnir til ára sinna.

Ef reyna á að bæta þá menn sem eru svo ógæfusamir að lenda í fangelsum þarf að vera fyrir hendi í fangelsum lágmarksaðstaða til að sinna þeim mönnum sem þar eru geymdir. Sú aðstaða sem er í fangelsum nú fullnægir ekki þessum lágmarkskröfum. Þá eru fangelsin hér á landi mjög þröngt setin og langur biðlisti eftir því að komast í afplánun. Það eitt ætti að vera stjórnvöldum áhyggjuefni að menn þurfi að bíða von úr viti eftir að pláss losni í fangelsum svo að þeir geti tekið út sína refsingu.

Í dag er málum þannig fyrir komið að þremur til fimm mánuðum eftir að dómur hefur verið kveðinn upp, og stundum síðar, er hinn seki boðaður að Skólavörðustíg 9 til að taka út refsinguna. Þaðan er hann oftast sendur mjög fljótlega annaðhvort á Litla-Hraun eða Kvíabryggju til frekari afplánunar eftir því sem pláss losna. Menn eru þannig í þrjá til fjóra mánuði og allt upp í ár á Skólavörðustíg 9. Á Skólavörðustígnum er engin vinnuaðstaða og engin tómstundaaðstaða, en fangar fá að horfa á sjónvarp á göngunum. Klefarnir þar eru mjög þröngir og í hverjum klefa eru alltaf þrír menn. Á Litla-Hrauni og Kvíabryggju er aðstaðan örlítið skárri en þar eru líka önnur vandamál sem ég tímans vegna verð að ræða undir þeirri fsp. sem ég legg fram á þskj. 163.

Í núgildandi lögum um fangelsi og vinnuhæli, nr. 38/1973, er lögákveðið að hér á landi skuli vera starfrækt ríkisfangelsi og unglingavinnuhæli ásamt þeim fangelsum sem fyrr voru nefnd. Sú stefna sem núgildandi lög mörkuðu komust aldrei til framkvæmda sökum þess að ráðamenn misstu trúna á þeim lögum sem þeir lögðu fram og samþykktu. Við fyrirspyrjendur getum tekið undir það að hin svokallaða meðferðarstefna sem lögin voru byggð á eigi ekki rétt á sér. Hins vegar er sú stefna betri en engin stefna því að stefnuleysi það sem verið hefur í fangelsismálum síðustu áratugi og felst í því að gera ekki neitt leysir ekki þann vanda sem við er að glíma.

Fsp. þessi er sett fram nú vegna fyrirhugaðs frv. sem hæstv. dómsmrh. hefur lofað svo að það fari ekki fyrir því eins og núgildandi lögum að stjórnvöld missi trúna á frv. þegar það er orðið að lögum.