03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

150. mál, fangelsismál

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Hv. 11. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Vesturl. beina til mín fsp. um byggingu nýs fangelsis. Ég vil þakka fyrirspyrjendum fyrir að vekja athygli á þörfinni fyrir úrbætur í fangelsismálum.

Hvað spurninguna varðar er því til að svara að nú er ekki í undirbúningi bygging á nýju fangelsi umfram það sem lengi hefur til staðið og birtist í grunni undir nýtt fangelsi uppi við Tunguháls hér í bæ. Það er vissulega rétt að mörg brýn verkefni eru fram undan í fangelsismálum, en hins vegar hefur gengið erfiðlega að fá fé til slíkra framkvæmda.

Ég hef á mínum stutta ferli sem dómsmrh. litið á það sem algjört forgangsverkefni að koma upp sérstöku fangelsi fyrir kvenfanga og það mun taka til starfa á næsta ári. Gerð er tillaga um fjárveitingu til þess í fjárlagafrv. undir liðnum 06.245. En á sviði afplánunar kvenfanga er ákaflega brýn þörf fyrir úrbætur.

Næsta verkefni í fangelsismálum væri síðan að mínum dómi endurbætur að Litla-Hrauni, bæði vegna deildaskiptingar, bættrar vinnuaðstöðu fyrir fangana og bættrar starfsaðstöðu fyrir starfsmennina. Þar næst mun koma röðin að öðrum verkefnum sem ég hef enn ekki mótað til fulls í hvaða röð ættu að koma.

Ég hef hug á því að ríkið kaupi jörðina að Kvíabryggju sem heimilað hefur verið um nokkurt skeið í 6. gr. fjárlaga og mun síðan taka endurbætur fangelsisins þar til athugunar, en þar er nú rúm fyrir 11 fanga.

Þá skortir mjög hér í Reykjavík nýtt gæsluvarðhaldsfangelsi sem tekið gæti við af fangelsinu við Síðumúla. Hið 113 ára gamla hegningarhús við Skólavörðustíg er auðvitað úrelt orðið með öllu og er þar brýnt að gerðar verði úrbætur.

Í fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir þinginu, er gerð tillaga um sérstaka fjárveitingu til þess að gera úttekt á viðhaldsþörfum hússins og hvort yfirleitt er hægt að breyta því í það horf sem nútímaaðstæður krefjast. Ég tel að tímabært sé að byggja nýtt fangelsi með rými fyrir u.þ.b. 40 fanga, en slík bygging er varla komin á umræðustig enn. Ég hef ekki myndað mér skoðun á því enn eða tekið um það ákvörðun hvað eigi að gera við grunninn að Tunguhálsi. Ég er ekki viss um að rétt sé að halda áfram áformum um byggingu tiltölulega stórs fangelsis. Það kann að vera að þau byggingaráform hafi úrelst meðan menn hafa verið að bíða eftir peningum í þetta verkefni.

Það má vel vera að hv. fyrirspyrjendum þyki þetta ófullkomið svar við þeirra fsp., en ég vonast til að geta í vetur lagt fram ákveðnari hugmyndir og tillögur um uppbyggingu fangelsanna um leið og rætt verður frv. til laga um fangelsi og fangavist sem verður lagt fram í þinginu alveg á næstunni. Í því frv. eru ýmis nýmæli. Mér finnst það öldungis ótímabært og lýsa nokkurri svartsýni hjá hinum unga 11. þm. Reykv. að óttast að menn missi trúna á frv. áður en það er fram komið.