03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

151. mál, afplánunarmál

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Hv. þm., 11. þm. Reykv. og 5. þm. Vesturl., spyrja öðru sinni um fangelsismál. Þeir hafa í fyrsta lagi spurt hvort áform séu uppi um að koma á deildaskiptingu á vinnuhælinu að Litla-Hrauni. Ég tel að með þessari fsp. sé hreyft þörfu máli, þörfum umbótum í rekstri fangelsisins. Ég vil svara henni játandi. Mér er líka kunnugt um það að forstöðumaður vinnuhælisins að Litla-Hrauni er áhugasamur um slíka breytingu. Það sama á við um trúnaðarmann fanganna, en við þessa menn hef ég rætt þetta mál að undanförnu. Ég vil beita mér fyrir því að slíkri deildaskiptingu verði komið á, en til þess þarf reyndar að gera nokkrar breytingar á húsnæðinu, og til þess er ekki fjárveiting að svo stöddu.

Þau atriði sem fyrirspyrjendur nefna í spurningunni koma öll til álita sem viðmiðun við slíka deildaskiptingu, en einnig þarf, að mínum dómi, að taka tillit til þess hvort fangar eru háðir vímuefnum eða eru að reyna að brjótast úr viðjum vímuefna. Til þessa tel ég að eigi að líta þegar skipt er í deildir í fangelsinu því auðvitað hafa menn sem lenda í þeirri ógæfu að þurfa að sitja í fangelsi eingöngu verið dæmdir til frelsissviptingar en ekki til þess að taka áhættu af því að lenda í eitri og vímuefnum. Á þessu ber auðvitað almannavaldið ábyrgð og á að haga rekstrinum þannig að úr þessari hættu sé dregið.

Í öðru lagi er spurt hvort gerðar hafi verið á undanförnum árum ráðstafanir til að auka vinnuframlag fanganna og hvort í undirbúningi sé átak í þá veru að lengja þeirra vinnudag. Um þetta er það að segja að á síðustu árum hefur það helst verið gert í þessu máli að til fangelsisins að Kvíabryggju var keypt vél til þess að kljúfa þorskhausa í svokölluð fés, og hafa við þetta skapast aukin verkefni á þeim stað sem er mjög mikils um vert og reyndar má segja að vinnuhælið að Kvíabryggju sé á margan hátt til eftirbreytni. Þar má heita að sé nú eðlilegur vinnudagur.

Eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda skortir tilfinnanlega vinnuaðstöðu fyrir fangana að Litla-Hrauni. Þar hefur meginverkefnið verið að steypa steina til hellulagna og gangstéttagerðar. Það má segja að þessi starfsemi gangi vel en hún býr við ófullnægjandi húsnæði. Það er yfirleitt erfitt að finna verkefni sem henta föngum í refsivist. Fyrirspyrjandi nefndi reyndar líka aðstöðuleysið, sem algjört er, við Skólavörðustíg. Úr því verður ekki bætt með einföldum hætti. Ég held þó að aðalforsendan fyrir því að unnt sé að auka atvinnustarfsemina að Litla-Hrauni sé að bæta húsakostinn, byggja þar vinnuskála.

Í þriðja lagi var svo spurt hvort fyrirhugaðar séu úrbætur í afplánunarmálum kvenfanga. Ég hef þegar svarað þessu að nokkru leyti. Ég hef ákveðið að koma upp sérstöku fangelsi í Kópavogi, að Kópavogsbraut 17, þar sem núna er upptökuheimili ríkisins fyrir unglinga. Um þetta hefur tekist samkomulag við menntmrh. og verður það hús afhent til þessarar starfsemi og mun taka til starfa á næsta ári. Ég tel þetta mikilvægan áfanga í okkar fangelsismálum því eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda hefur aðstaðan fyrir kvenfanga verið öldungis óviðunandi. Í þessu máli hefur nú náðst sá áfangi að í fjárlagafrv. undir lið 06.245, eins og ég nefndi áðan, er gerð tillaga um að veita 15,8 millj. kr. til að reka nýtt fangelsi á þessum stað.

Loks er spurt hvort gerðar séu reglubundnar athuganir á fíkniefnanotkun í fangelsum hér á landi. Svarið er að slíkar athuganir eru gerðar öðru hverju og niðurstaða þeirra er sú að það sé ekki mikið um fíkniefnanotkun í íslenskum fangelsum þótt slíkt hafi komið fyrir, bæði þegar litið er á málið almennt og eins eftir því sem heilbrigðisyfirvöld segja mér með samanburði við fangelsi í öðrum löndum. Auðvitað kemur þetta fyrir og það er vitað mál að margir sem rata í þessa ógæfu hafa ratað í hana meðfram vegna neyslu á slíkum efnum. Fangaverðirnir reyna jafnan að koma í veg fyrir þetta en það er aldrei hægt að girða alveg fyrir að það geti gerst.

Í þessu sambandi er rétt að minnast á þörfina fyrir aðstoð við fanga til þess að losna undan fíkni í áfengi og önnur hættuleg nautnaefni. Í þessu máli höfum við notið aðstoðar AA-samtakanna og SÁÁ sem halda reglulega fundi með föngum á Litla-Hrauni og víðar. E.t.v. mætti auka þetta starf og finna því betri farveg. Deildaskiptingin, sem er aðalfyrirspurnarefnið, er einmitt að margra áliti líklegt til þess að bæta árangur slíkra fyrirbyggjandi ráðstafana.

Ég vil að lokum segja, herra forseti, að þessar tvær fsp. hafa gefið kærkomið tækifæri til að leggja áherslu á það hversu mikilvægt það er í okkar þjóðfélagi að fangelsin verði betrunarhús en ekki eingöngu geymslustaðir fyrir ógæfusamt fólk.