03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

151. mál, afplánunarmál

Salome Þorkelsdóttir:

Hæstv. forseti. Það skal vera örstutt athugasemd frá minni hendi hér. Ég vildi aðeins þakka hv. 11. þm. Reykv. fyrir að bera fram þessar fsp. og vekja athygli á ástandi þessara mála. Á síðasta fundi í Sþ. var einnig fjallað um mál sama eðlis vegna fsp. minna um þau, m.a. varðandi samfélagsþjónustu sem er einmitt einn þáttur í því að endurhæfa fanga.

En mig langaði að vekja athygli hv. 11. þm. Reykv. á því að á síðasta þingi, í lok þings, var lagt fram frv. um fangelsi og fangavist sem fékk ekki afgreiðslu vegna þess hve stutt var eftir til þingloka, en þar kemur fram að þá hafði starfað stjórnskipuð nefnd einmitt til að kanna þessi mál. Ég vildi aðeins vekja athygli hv. þm. á því að hann gæti kynnt sér þetta frv. og komist að raun um að stjórnvöld og Alþingi hafa látið sig þessi mál varða og gert sér grein fyrir því að þar þurfi að finna lausn á.