15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

Síðustu efnahagsákvarðanir ríkisstjórnarinnar

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Virðulegi forseti. Það eru örfáar athugasemdir. Mér skilst á upphafsmanni þessarar umræðu að hann hafi ekki talið mín svör nægilega skýr, kannski engin, við þeirri lykilspurningu málshefjanda hver væri staða fjárlagafrv. í tilefni af yfirlýsingum hæstv. landbrh. (ÓRG: Og formanns þingflokks Framsfl.) Ástæðan er nú einfaldlega sú að ég taldi að afdráttarlaus yfirlýsing formanns Framsfl., sem almennt mun vera viðurkenndur húsbóndi á sínu heimili, nægði bæði þessum hv. þm. og öðrum þar sem hann lýsti því afdráttarlaust yfir, og hefði svo sem ekki þurft að gera það, að að sjálfsögðu styddi Framsfl. þetta frv. til fjárlaga. Og af því að spurt er sérstaklega um hvers eðlis fyrirvari hæstv. landbrh. er er rétt að það komi hér fram. Fyrirvarinn svo sem hann er bókaður í ríkisstjórn er á þá leið að hann varðar það, hvernig, ekki hvort heldur hvernig, koma megi fram þeirri stefnu fjárlagafrv. sem birtist í lækkun útgjalda til landbúnaðarmála. Sem fylgibréf þar með eru gerðar tillögur um að stjórnarflokkarnir skipi nefnd þriggja manna sem taki til athugunar þrennt:

1. Hvernig koma megi við aukinni hagræðingu innan landbúnaðarins.

2. Hvort flytja megi milli einstakra liða þá lækkun heildarútgjalda sem frv. gerir ráð fyrir.

3. Ef það takist ekki, þá velti nefndin fyrir sér tillögum um aukna tekjuöflun.

Þetta er fyrirvarinn. Þá liggur fyrir: Í fyrsta lagi: Að sjálfsögðu stendur Framsfl., sbr. yfirlýsingu hæstv. forsrh. og formanns flokksins, að fjárlögum. Og í annan stað: Þessi fyrirvari er um það hvernig fram megi koma stefnu fjárlagafrv. (ÓRG: Þorsteinn Pálsson er forsrh. Þú ert orðinn eins og sjónvarpið. Þú veist ekki hver er forsrh.) Utanrrh. að sjálfsögðu. Það er nú svo. Tungunni er nokkuð tamt að ávarpa hæstv. utanrrh. sem forsrh. því það gerði maður ótæpilega sem stjórnarandstæðingur úr þessum stól fyrir nokkru. (Gripið fram í.) Það voru orð málshefjanda, ekki mín.

Þetta held ég að hafi verið megininntakið í því sem hv. málshefjandi þurfti að fá svör við. Að öðru leyti var hann svo elskulegur að svara þeim spurningum sem ég beindi til hans og var reyndar reiðubúinn að lýsa stefnu Alþb. bæði fyrir og eftir landsfund. Við skulum vona að hann verði tilkvaddur til þess eftir landsfund. En af þeim orðum hans mátti ekki heyra að það væri um harðvítugan ágreining að ræða. Að sjálfsögðu hafði hv. þm. lært sitthvað af beiskri reynslu í vondum ríkisstjórnum á fyrri tíð. Að sjálfsögðu er hann ekki meðmæltur gengislækkunum. Að sjálfsögðu er hann fylgjandi jöfnuði í ríkisfjármálum. Að sjálfsögðu er hann á móti millifærslum til t.d. atvinnuvega af skattpeningum almennings og vill draga úr þeim. Að sjálfsögðu vill hann endurbæta skattakerfið, einfalda það, gera það skilvirkara, uppræta skattsvik. Að sjálfsögðu er hann fylgjandi breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga o.s.frv. Það virðist þá ekki vera mikið eftir til að deila um við hv. málshefjanda. (ÓRG: Um aðferðirnar.) Aðferðirnar, segir hv. þm. Það er nú það.

Það er ósköp eðlilegt ef menn spyrja t.d. í sambandi við skattakerfið: Hefur verið gætt einhvers jafnvægis í því hverjir bera þau gjöld sem við neitum ekki og staðreynd er að verið er að leggja á með aukinni tekjuöflun? Ég tók t.d. eftir því í málflutningi málsvara Kvennalistans að þær skáru sig nokkuð úr að nokkru leyti eða málsvarinn. Hún lýsti því að hún hefði heldur kosið aðrar leiðir. M.ö.o.: Kvennalistinn lýsti stuðningi sínum við stóreignaskatt fremur en þær leiðir sem hér eru farnar. Oft er það orðað svo að menn hefðu gjarnan viljað sjá að fyrirtækin legðu aukið fram til hinnar sameiginlegu gjaldtöku þjóðarbúsins og er út af fyrir sig ástæða til að líta svolítið á það. Ég viðurkenni að ég átti ekki von á því að sú ákvörðun ríkisstjórnar að fara þá leið annars vegar að lækka útgjöld og hins vegar að afla nýrra tekna til þess að ná jöfnuði í ríkisfjármálum á næsta ári vekti neinn allsherjar fögnuð. Einhvers staðar kemur það niður. Spurningin er: Hvar kemur það niður? Merkilegt má það heita að á mínu borði þar sem koma mörg skjöl á degi hverjum er fyrirferðarmesti pósturinn frá talsmönnum atvinnuveganna sem mótmæla því harðlega að það sé gengið allt of langt í því að leggja aukin gjöld á fyrirtækin. Dæmi um það má nefna áform um breytingar a tekjuskattsálagningu fyrirtækja sem áformað er að skili tekjum upp á 150 millj. kr. Dæmi um það má nefna það fyrsta skref í átt til samræmingar að því er varðar launaskatt, sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson andmælti hvað harðast hér áðan, sem áformað er að skili ríkissjóði 400 millj. kr. Dæmi um það er svokallað verktakagjald, þ.e. gjaldtaka af þeim verktökum sem vinna í þjónustu varnarliðsins, áætlað upp á 50 millj. kr. Það eru samtals 600 millj. á þessum póstum.

Einnig má nefna gjaldtöku vegna erlendra lána og hækkun á ríkisábyrgðagjaldi sem áætla má á 350 millj. kr. Sérstök tekjuöflun önnur sem varðar fyrirtækin. Að sjálfsögðu er ÁTVR ríkisfyrirtæki og það er auðvitað beinn neysluskattur þótt innheimt sé í gegnum það fyrirtæki, en áformin um tollasamræmingu og samræmt vörugjald eru hins vegar tekjustofn sem áætlað er að skili ríkissjóði um 100 millj. kr. Þegar saman er talið má færa að því rök að um 1650 millj. séu lagðar með einum eða öðrum hætti á atvinnulífið í landinu fyrir utan að það er dregið mjög verulega úr millifærslum af skattpeningi almennings til fyrirtækja og samtaka þeirra.

Heyrði ég ekki rétt að einn talsmaður Alþb. hefði fullyrt, kannski hv. málshefjandi, að það hefði verið létt af fyrirtækjum, af atvinnulífinu í landinu upp á 2000 millj.? Ekki ætla ég að bera ábyrgð á þeirri tölu, en lætur þetta ekki nokkuð nærri?

Annað mál, sem ástæða væri til að ræða um og ég verð að viðurkenna að olli mér vonbrigðum hvernig sumir hv. þm. fjölluðu um, eru tillögurnar um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það er sannast sagna að það mál er ekki nýtt. Það er ekki nýtt í umfjöllun á hinu háa Alþingi. Það á sér langa sögu. En það gerðist í tíð fyrrv. ríkisstjórnar að samkomulag tókst í sérstakri nefnd á vegum félmrn. sem í áttu sæti fulltrúar sveitarfélaganna, þar á meðal forustumenn Sambands ísl. sveitarfélaga, um tillögur í því efni. Þær tillögur voru lagðar fram í apríl sl. Þær tillögur sem við gerum nú um breytingar í þessu efni eru fullkomlega í samræmi við það. Þær hafa ekki verið settar fram án samráðs við sveitarfélög. Þær hafa verið ræddar við forustumenn Sambands ísl. sveitarfélaga, bæði af hálfu fjmrn. og af hálfu félmrn. Þessar tillögur hafa einnig verið ræddar við fulltrúa borgarstjórnar Reykjavíkur. Tillögurnar eru út af fyrir sig ekki umdeildar meðal sveitarstjórnarmanna. Þá er spurningin: Hvernig á að haga framkvæmdum? Eins og rækilega er gerð grein fyrir í grg. fjárlagafrv. er það á þennan veg:

Í fyrsta lagi: Hér er um að ræða útgjaldaauka fyrir sveitarfélögin á næsta ári upp á 200 millj. kr., en það liggur fyrir að þessum útgjaldaauka á að mæta með a.m.k. 350 millj. kr. frá ríkissjóði. M.ö.o.: þessi útgjaldaauki er bættur með mun hærri fjárhæð en þeim útgjaldaauka sem sveitarfélögin verða að taka á sig af þessum sökum. Þetta er gert með tvennum hætti. Þetta verður líka gert í gegnum Jöfnunarsjóð og nú liggur það fyrir og er frá greint í fjárlagafrv. að lögin um Jöfnunarsjóð verður að taka upp til endurskoðunar. Fyrir því eru tvær ástæður: Tekjustofn Jöfnunarsjóðs er ákveðið hlutfall af söluskatti og í annan stað ákveðið hlutfall af tolltekjum ríkissjóðs. Lögum um hvort tveggja verður breytt, ef áform ríkisstjórnarinnar takast, þannig að þegar af þessum tveimur ástæðum þarf að breyta lögum um Jöfnunarsjóð.

Því næst er það að um leið er það okkar ætlan að hlutverk Jöfnunarsjóðs verði skilgreint með öðrum hætti, þ.e. sá hluti hans sem fyrst og fremst sinnir þörfum hinna minni sveitarfélaga verði efldur. Þegar kemur að spurningunni um hvernig eigi að koma á svona verkaskiptingu, hvort er yfirleitt hægt að gera það í eitt skipti fyrir öll eða hvort ríkissjóður er skuldbundinn til að greiða það sem sveitarstjórnarmenn gjarnan kalla hala frá fyrri tíð, bið ég menn að hugleiða eftirfarandi:

Ef við ætlum að framkvæma slíkar tillögur, sem lengi hafa verið til umræðu, veruleg samstaða er um, er aldrei hægt að segja á einhverju einu tilteknu ári: Nú klippum við á. Eftir það færast þessi verkefni yfir til sveitarfélaganna og þá koma ekki til meiri framlög ríkissjóðs. Þá er það ekki hægt á neinu einstöku ári vegna þess að jafnvel þótt greiddur yrði allur svokallaður „skuldahali“, jafnvel þótt hann yrði greiddur allur, er eftir hlutur þeirra sveitarfélaga sem ekki telja sig hafa hafið framkvæmdir. Þessu verkefni verður því ekki sinnt nema með því að koma upp sérstakri deild í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem ríkissjóður mun leggja til á næstu árum og þá verði greitt í gegnum þá deild með nákvæmlega sama hætti og greitt hefur verið af fjárlögum eða af þessum sjóðum, Félagsheimilasjóði og Íþróttasjóði, til þeirra sveitarfélaga sem eru að vinna að þessum verkefnum hverju sinni. Og það mega menn vita að okkar áform eru að reyna að greiða svo fyrir sveitarfélögunum í þessu efni að það þurfi ekki að verða að ásteytingarsteini og ég bið hv. þm. að gera ekki þann óvinafagnað að reyna að hleypa þessu máli í uppnám að óþörfu eða spilla því því að þetta er hið mesta hagsmunamál sveitarfélaganna sjálfra, landsbyggðarinnar, og það er ástæðulaust að vekja upp aukna tortryggni um þetta mál að óþörfu.

Nokkur orð að því er varðar ábendingar um að hlutur íþróttahreyfingarinnar sé lítill í þessu fjárlagafrv., og þá eru menn með í huga þær tölur að fjárveiting á yfirstandandi ári til Íþróttasambands Íslands svo að ég taki dæmi eru 26,2 millj. kr. en í frv. fyrir 1988 14,4 millj. kr. Og þá er spurningin út frá þessu dæmi: Lýsir þetta einhverjum óskaplegum fjandskap og illvilja núverandi stjórnarmeirihluta í garð íþróttahreyfingarinnar? Því fer fjarri. Alþingi hefur samþykkt lög um sérstaka fjáröflun til íþróttahreyfingarinnar, Ungmennafélagsins og Öryrkjabandalagsins, lög um lottó, og auðvitað til að styrkja fjárhag þessara þjóðþrifasamtaka. Skipting þess fjár er þannig að íþróttasambandið fær 46,67%, Öryrkjabandalagið 40% og Ungmennafélag Íslands 13,3%. Í rökstuðningi með fjárbeiðni Íþróttasambands Íslands til menntmrn. kemur fram að hluti ÍSÍ af rekstrarhagnaði lottós fyrstu átta mánuði rekstrartímans var 70 millj. kr. Það bendir til þess að heildarhagnaður hafi numið 150 millj. kr. á átta mánuðum, en einfaldur framreikningur gefur þá vísbendingu um rekstrarhagnað upp að 225 millj. kr. Ef reiknað er með 225 millj. kr. árshagnaði af lottóinu skiptist hann þannig milli aðila: ÍSÍ ætti að fá í sinn hlut 105 millj., Öryrkjabandalagið 90 millj. og Ungmennafélagið 30 millj. Þess skal svo getið að nýjustu upplýsingar eru þær að síðan í febrúar, þegar fyrst var farið að greiða út hagnað, hafi verið greiddar út alls 185 millj. og af þeirri upphæð hafi ÍSÍ fengið 86 millj., Öryrkjabandalagið 74 millj. og Ungmennafélag Íslands 24. Framlag ÍSÍ á gildandi fjárlögum er eins og ég sagði 26,3 millj. en í fjárlagafrv. 14. Þetta eru ekki háar tölur í samanburði við það stóraukna fjármagn sem þessum hreyfingum er tryggt með lögvernduðum rétti þeirra til hlutdeildar í lottóinu. Ég held að það geti enginn haldið því fram að með þessum hætti hafi Alþingi gert hlut þessara hreyfinga verri. Þvert á móti sýna tölurnar að hann er sem betur fer mikið betri. Menn mega ekki hengja hatt sinn á það að það sé eitthvert trúar- og sáluhjálparatriði með hvaða hætti þessi aðstoð er veitt. Aðstoðin byggist á lögvernduðum rétti samtakanna til lottós og hún hefur tryggt þeim stórlega bættan fjárhag.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég vil að lokum aðeins leiðrétta mishermi úr ræðu málshefjanda. Hann sakaði mig um að hafa þagað yfir eða stungið undir stól veigamiklum þætti í því sem okkur Þresti Ólafssyni fór á milli í viðræðum, sem að vísu fóru ekki fram í fjmrn. en það er nú aukaatriði, í gær. M.ö.o.: þar hafi Þröstur Ólafsson, framkvæmdastjóri Dagsbrúnar, sett fram kröfu, eins og hv. málshefjandi sagði, um niðurfellingu matarskatts skilyrðislaust. Þetta er einfaldlega rangt. Ég hefði að sjálfsögðu skýrt frá þessu ef þetta hefði verið sett fram með þeim hætti. Sannleikurinn er sá að engin slík krafa var sett fram í mín eyru. Að vísu þurfti ég að víkja af þessum fundi til að koma hingað á þingfund áður en honum lauk, en eftir að ég veik af fundi voru teknar upp viðræður, sem aðstoðarmaður minn stýrði, þar sem menn ræddu hvort það kynni að vera samkomulagsgrundvöllur að því er varðaði mörkun launastefnu á næsta ári ef ríkisstjórnin fyrir sitt leyti tæki til athugunar að falla frá flýtingu á gildistöku þeirra breytinga á söluskattinum sem við höfum um rætt og menn tóku eftir hvaða orð ég lét um falla áðan.

Herra forseti. Að öllum mönnum ólöstuðum sem þátt hafa tekið í þessari umræðu og að ólöstuðum ræðum stjórnarandstöðunnar hafði ég mesta ánægju af ræðu hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar og þeim notalega og áreitnislausa húmor er einkenndi þá ræðu. Ég tók vel eftir því hvað hv. þm. sagði. Hann sagði: Ég mun ekki fallast á eða greiða atkvæði því að leggja söluskatt á matvörur nema því aðeins að því fylgi vandaðar hliðarráðstafanir sem tryggi hag sérstaklega barnmargra fjölskyldna. - Ég vek athygli á því að í starfsáætlun og stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar, þar sem því er heitið að framfylgja tillögum svokallaðrar skattsvikanefndar um einföldun söluskattskerfisins og þá um leið lækkun álagningarprósentunnar, er það rækilega útlistað að ríkisstjórnin hafi í hyggju að mæta verðhækkunaráhrifunum með beinum aðgerðum af auknum tekjum af slíkum skatti og aðferðirnar sem boðaðar eru eru í formi aukins persónuafsláttar í tekjuskatti, aukinna barna- og fjölskyldubóta og hækkaðra bótagreiðslna almannatrygginga. Ríkisstjórnin hefur að sjálfsögðu ekki fallið frá þeim áformum og í undirbúningi er breyting á lögum um söluskattinn í þessum anda er taki gildi um áramót. Það sem gerðist að því er varðar flýtingu á þessum skatti fram til 1. nóv. er þáttur í þeim heildaraðgerðum sem ríkisstjórnin hefur nú gripið til til þess að draga úr þenslu, neyslu, innflutningi og hamla gegn vaxandi viðskiptahalla. Að þessu sinni er um það að ræða að tekjur ríkissjóðs af þessari flýtingu söluskattsbreytingarinnar eru, eins og hæstv. sjútvrh. gat um, áætlaðar 150 millj. kr. á þessu ári. En þar af er áætlað að verja helmingnum til niðurgreiðslna á matvörur. Nú er ég að vísu þeirrar skoðunar að það sé ekki nægilega góð leið, en flýtingin veldur því hins vegar að það er einfaldlega ógerningur innan þessara tímamarka að koma fram með vönduðum undirbúningi þeim tekjujöfnunaraðgerðum sem að öðru leyti eru boðaðar um áramót.

Það var laukrétt, sem hv. þm. sagði, að vald ráðherra að því er varðar það að kveða á um undanþágur frá söluskatti samrýmist ekki réttum reglum um löggjöf. Það er allt of mikið og hefur því miður oft og tíðum verið misnotað. Þess vegna vil ég leyfa mér að vekja athygli hv. þm. á því að í þessu fjárlagafrv. er gerð tillaga um það í 6. gr. fjárlagafrv., sem er frægasta grein þess og felur í sér m.a. ótæpilegar heimildir til fjmrh. til að fella niður söluskatt, aðflutningsgjöld og tolla samkvæmt beiðnum hinna og þessara aðila, að þessar heimildir verði felldar niður með þeim rökum að ef það er vilji meiri hluta Alþingis að viðhalda slíkum undanþágum eigi að finna þeim stað í viðkomandi löggjöf, þ.e. annaðhvort lögum um söluskatt eða lögum um tolla. Ég er því svo sannarlega sammála hv. þm. þegar hann hreyfir þessari málefnalegu og rökstuddu gagnrýni.

Það voru látin ýmis orð falla um að í þeirri stefnu sem núv. ríkisstjórn hefur mótað sé fólginn einhver fjandskapur við launþega og landsbyggð. Ég held að hvorug þessi fullyrðing standist. Ég held að það sé alveg ljóst að því er varðar kjör og hagsmuni launþega í landinu að það er eitt sem er það versta sem fyrir getur komið að því er varðar þeirra hag á næstu vikum, mánuðum og missirum, og það er ef sú ákvörðun núv. ríkisstjórnar að renna styrkari stoðum undir fastgengisstefnuna brestur af einhverjum ástæðum. Afleiðingin af því er gamalkunn, víxlhækkanaverðbólga sem mun fara eldi verðbólgunnar um kaupmátt launþega.

Og að því er varðar kjör landsbyggðarinnar er það að sjálfsögðu ljóst að hér mundu sennilega flestir hv. þm. vilja taka undir að það væri æskilegt að hafa meira fé til að leggja af mörkum til margra þarfra verkefna á landsbyggðinni. En ég minni hv. þm. á að ef ríkissjóður er rekinn með verulegum halla sem nemur mörgum milljörðum fyrst var stefnt í óefni fram í tímann að sjá óskum þm. um að verja auknu fjármagni til þarfra verkefna á landsbyggðinni. Sú athöfn ein að uppræta þennan halla er ávísun á bætta tíð á ríkisfjármálum í framtíðinni og þó er það svo að innan ramma þeirra fjárlaga sem hér eru sett fram verður því ekki með rökum í móti mælt að ákveðnum veigamiklum þáttum sem varða byggðastefnu og hagsmuni landsbyggðarinnar er gert betur undir höfði en áður var. Til þess nefni ég dæmi um samgöngumál, til þess nefni ég dæmi um framlög til vegagerðar sem eru aukin úr 2100 millj. í 2850 millj., sem er raunaukning um 19,1%, til þess nefni ég framlög til flugvallagerðar og flugöryggismála sem eru þrefölduð svo að ég nefni nokkur dæmi. Sama máli gegnir um mál sem var mikið hitamál á síðasta þingi sem eru málefni sérkennslunnar á grunnskólastigi, en til þess málaflokks hefur verið varið um 40 millj. kr. hærri upphæð en í fyrra og tillögur menntmrn. í því efni teknar til greina að fullu og öllu. Það er því ekki rétt að það megi ekki finna mörg dæmi um það í þessu fjárlagafrv. að reynt er þrátt fyrir þröngan hag ríkissjóðs á þessu umskiptaári að taka á veigamiklum málaflokkum sem í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var lögð megináhersla á í byggðamálum.