03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

151. mál, afplánunarmál

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Þessar fyrirspurnir um fangelsi og afplánun refsidóma hafa vakið upp gagnleg orðaskipti að mínum dómi. Áður en ég vík að því sem kom fram í seinni ræðu fyrri fyrirspyrjanda ætla ég að segja örfá orð um það sem kom fram í máli hv. 5. þm. Vesturl. og hv. 13. þm. Reykv.

Hv. 5. þm. Vesturl. hélt því fram að vímuefnanotkun í fangelsum væri til mikilla muna meiri en kom fram í svari mínu áðan. Um þetta er eðli málsins samkvæmt erfitt að fullyrða. Ég bendi eingöngu á það sem fram hefur komið frá trúnaðarlæknum dómsmrn. og frá heilbrigðisyfirvöldum um þetta mál. Ég vil á engan hátt gera lítið úr þessum vanda. Eins og kom fram í því sem ég sagði áðan er það ómótmælanlegt að neysla vímuefna á oft samleið með refsiverðu athæfi og það er vandi sem ekki verður leystur með fáum orðum. Það má vel vera að það sé ástæða til að vinna að athugunum á þessu efni, ekki skal ég úr því draga, en vil líka vara við því að ýkja ástandið, vera með ýktar lýsingar á ástandinu í íslenskum fangelsum hvað þetta varðar, en á því hefur því miður nokkuð borið.

Hv. 13. þm. Reykv. benti á það, sem er svo sannarlega brýnt úrlausnarefni, sem er vistun geðsjúkra fanga og ósakhæfra manna sakir geðveiki og samvistun refsifanga og geðveikra manna sem því miður tíðkast og hefur tíðkast nokkuð hjá okkur þó það séu ekki mörg dæmi um það. Úr þessu þarf að bæta og verður að bæta. Stofnun kvenfangelsis að Kópavogsbraut 17, sem á að gefa nokkurn kost á deildaskiptingu einnig vonandi, er fyrsta skrefið í þessa átt. Mér þykir ástæða til að benda á í allri hógværð að þar er verið að stíga skref í þá átt sem komið hefur fram í máli fyrirspyrjenda, og þeirra sem athugasemdir hafa gert, sem er fullkomin ástæða til að veita athygli þó ég vilji ekki gera of mikið úr því. Það situr síst á mér að draga úr mönnum að ýta á um framkvæmdir á því mikilvæga sviði mannúðarmála sem hér er um að tefla. Ég vildi eingöngu hafa sagt þetta og viljann vantar ekki til að bæta þarna úr. En það sem þarf er afl þeirra hluta sem gera skal.

Svo vík ég þá að lokum örfáum orðum að því sem kom fram í síðari ræðu fyrri fyrirspyrjandans. Ég vildi segja að mér fannst þar gæta nokkurs misskilnings þegar hann segir að það séu ekki í undirbúningi ráðstafanir til að auka vinnuframlag fanga. Hafi það komið fram í mínu máli vildi ég leiðrétta það. Það er einmitt eitt af þeim verkefnum sem ég tel vera næst á verkefnaskránni að bæta vinnuaðstöðuna að Litla-Hrauni, sem er helsta vinnuhælið í okkar fangelsiskerfi, til þess einmitt að gefa kost á lengri vinnudegi og gagnlegri með því að koma þessu undir forsvaranlegt þak.

Ég vildi líka leiðrétta það, sem kom fram í máli fyrri fyrirspyrjandans, að vinnutíminn hjá þeim sem vinna vilja er ekki 11/2 tími á dag heldur að ég hygg a.m.k. 3 tímar og hjá mörgum þeirra, sem vilja vinna, lengri. En þetta á að vera meira, þyrfti að vera meira eða þyrfti að standa þeim til boða sem vinnu vilja hafa að vinna meira og undir það tek ég heils hugar.

Aðstaða fyrir kvenfanga hefur verið bætt, eða verður bætt, og fjárveitingartillaga er um það gerð. Deildaskipting á Litla-Hrauni er í undirbúningi og frv. til l. um fangelsi og fangavist verður lagt fram að nýju í þinginu í breyttri mynd og þá m.a. hugsað til þess að bæta yfirstjórn fangelsismálanna, einkum með það í huga að sinna betur afplánunarmálunum og ýmsum félagslegum þörfum þeirra sem vistaðir eru í fangelsum. Þetta mun koma fram þegar frv. verður lagt fram á hinu háa Alþingi.