03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

152. mál, aðgerðir vegna komu fulltrúa Sea Shepherd samtakanna

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Samtök af því sauðahúsi sem Sea Shepherd eru eiga allt sitt undir áliti og trú almennings, einkum í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Í fyrsta lagi vilja slík samtök viðhalda þeirri trú að það sé verið að útrýma hvölunum í höfunum með hvalveiðum og trú á að það megi kannski alls ekki deyða slík dýr yfirleitt, hvort sem þau eru í útrýmingarhættu eða ekki.

Í öðru lagi lifa þau á trú á það að þessi samtök séu af öllum mætti að koma í veg fyrir hvalveiðar með löglegum eða ólögum hætti, en í huga stuðningsmanna þessara samtaka virðist tilgangurinn helga meðalið. Líf svona samtaka er líka undir því komið að þeim takist stöðugt að halda sig í kastljósi fjölmiðlanna. Án þess ljóss ná þeir ekki til almennings og án þess kemur heldur ekkert fé í sjóði þeirra og þá er ekki hægt að halda úti skipunum til að trufla hvalveiðar og starfsliðið fær ekki greitt kaup.

Það virðist eftir fréttum að dæma að það hafi verið deyfð yfir þessum samtökum að undanförnu og því væntanlega lækkað í kassanum. Þess vegna hefur foringjanum sennilega dottið í hug að verða sér úti um umtal í blöðunum og öðrum fjölmiðlum með yfirlýsingum sem hv. fyrirspyrjandi hefur veitt athygli. Ef íslensk stjórnvöld færu að svara þessum yfirlýsingum og hægt væri að búa til úr því einhvers konar hasarmál í fjölmiðlunum er tilgangi hans náð og fjárframlögin fara aftur að streyma til samtakanna.

Ég hef engan áhuga á að taka þátt í slíkri fjáröflun fyrir Sea Shepherd og get af ástæðum, sem ég vona að þm. skilji, ekki gefið hér opinberar yfirlýsingar um þau atriði sem hv. fyrirspyrjandi spyr mig um. Ég mun miðla upplýsingum um það til þm. eftir öðrum leiðum. Leiðtogi þessara samtaka, Paul Watson, setur ekki íslenskum stjórnvöldum nein skilyrði. Hann getur heldur ekki pantað frá þeim neinar yfirlýsingar.