03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

152. mál, aðgerðir vegna komu fulltrúa Sea Shepherd samtakanna

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég er alveg sammála hæstv. dómsmrh. að það er ekki skynsamlegt að svara þessum samtökum miklu, en það væri full ástæða til að setja ofan í við fjölmiðla fyrir hvernig þeir hafa haldið á þessum málum, t.d. í sambandi við friðunarmenn þegar þeir hafa verið að gera hér skemmdarverk. Þeir eru að gera þau fyrst og fremst til að auglýsa sig. Það er því ástæða til að taka fjölmiðlana blátt áfram í gegn. En það er ekki hægt öðruvísi en að gera það fyrir luktum dyrum. Ég hef fyrir mitt leyti miklar áhyggjur af stefnunni í sambandi við hvalina og hrefnurnar vegna þess að þau keppa við okkur um sjávaraflann. Ég held að landsmenn og hv. þm. geri sér ekki grein fyrir því hvað það er mikið magn sem þessar skepnur taka af fiski úr sjónum. Það er gríðarlegt magn. Mér er sagt að aldrei hafi verið meira af búrhveli og hrefnum t.d. við Norðurland en nú.