03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1455 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

154. mál, deilur um forræði barna

Sólveig Pétursdóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar til að greina frá skýringum félagsráðgjafa hjá Félagsmálastofnun vegna afgreiðslu fjárhagsáætlunar 1987 hjá Reykjavíkurborg, en þar segir, með leyfi virðulegs forseta, um forsjárdeilur:

„Biðtími þar til hægt er að byrja vinnu í forsjárdeilumálum er óforsvaranlega langur ef hugsað er um líðan barnanna sem hlut eiga að máli. 14 forsjárdeilumál sem bárust 1986 voru flutt yfir til ársins 1987 óafgreidd. Þau mál sem byrjað var að vinna í nú í haust bárust í febrúar 1987. Það má því segja að frá því að máli er vísað til nefndar og þar til það er sent afgreitt frá nefndinni getur liðið u.þ.b. ár.

Vegna manneklu vinnur yfirleitt aðeins einn starfsmaður forsjárdeilumál. Af hálfu ráðuneytisins hefur verið lögð áhersla á það að mál sem heyra undir tvær nefndir séu unnin í samvinnu, en það gerir samstarf erfitt í reynd þegar starfsmaður í Reykjavík getur ekki byrjað að vinna í málum fyrr en u.þ.b. hálfu ári eftir að það berst stofnuninni, en óhætt er að fullyrða að biðtími sé hvergi svo langur annars staðar á landinu. Hugmyndir eru um að reyna að byrja á að vinna forsjárdeilumál fyrr svo að foreldrar fái ráðgjöf og stuðning við að ákveða forsjá barns eða barna sinna þannig að ekki þurfi að koma til langdreginna deilna innan kerfisins. Oft skapar deilan sjálf vandamál sem unnt væri að komast hjá með ráðgjöf til foreldra sem eru að skilja. Ekki hefur verið unnt að byrja þessa vinnu vegna langs biðtíma og vegna svokallaðra „akútmála“.

Ég tek því undir orð fyrirspyrjenda um að það verður að stytta afgreiðslutímann á forsjárdeilumálunum barnanna vegna og ég vil líka benda á mikilvægi þess að foreldrum verði veitt ráðgjöf þannig að þeir átti sig á því að deilur um forræði barna koma fyrst og fremst niður á börnunum sjálfum.