03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1456 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

154. mál, deilur um forræði barna

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin. Mér er fullljóst að þessar spurningar eru bæði viðamiklar og fyrirspurnin sjálf löng. En ég vænti þess, einkum í framhaldi af því sem hæstv. ráðherra sagði um athugun Þórólfs Þórlindssonar prófessors, að upplýsingar um þessi mál muni verða aðgengilegri þegar hann hefur unnið úr sínum gögnum. Ég vil þó benda á eitt atriði í því sambandi. Mér skilst að sú rannsókn taki einungis til lögskilnaðarmála, ekki til sambúðarslita. Lögskilnaðarmálum hefur ekki fjölgað ýkja mikið á Íslandi frá árinu 1983. Þá voru þau 495 samkvæmt upplýsingum Hagstofu, en á árinu 1986 498. Upplýsingar um sambúðarslit liggja hins vegar hvergi fyrir, engar tölur um það að fá hjá Hagstofu Íslands.

En, herra forseti, það er rétt að tímalengdin í meðferð þessara mála er verst. Skýringuna á því, eins og hæstv. ráðherra sagði, hvers vegna hún er svo mikil, er að finna hjá vanmönnuðum félagsmálastofnunum, einkum og sér í lagi hér í Reykjavík þar sem biðtíminn er lengstur.

Það er vert að vekja athygli á því hvers vegna þessi tímalengd er svo slæm, ekki aðeins fyrir barnið og líðan þess sem slíks heldur líka það að skilnaðarmáli verður ekki lokið fyrr en forsjárdeila er leyst. Það þýðir töf á búskiptum. Það þýðir líka að mæðralaun eru ekki greidd. Það er spurning hvort ekki væri rétt að líta til breytinga á almannatryggingalögum í því skyni að það sé hægt að úrskurða þau aftur á bak eða kveða upp bráðabirgðaúrskurð um þau.

Í öðru lagi er í rauninni með niðurstöðu í forsjárdeilu ekki um eiginlega lausn að ræða því þá hefst bara nýtt stig í þessari deilu, þ.e. deila um umgengnisrétt þess foreldris sem ekki hefur verið falin forsjáin.

Hér er að margra mati um ofrannsökuð mál að ræða og sá tími og allur sá mannafli sem fer í þetta, einkum og sér í lagi lögfræðinga og sálfræðinga, er að margra mati óþarfur. Ég held að það sé spurning hvort ráðuneytinu beri ekki að setja ákveðin tímamörk fyrir afgreiðslu mála sem þessara eða reglur um að þau skuli hafa forgang eðlis síns vegna.

En það er rétt að taka líka undir það, sem hér hefur verið bent á, að ráðgjöf og stuðningur við foreldra áður en deila er farin í harðasta hart er auðvitað leið sem vert er að reyna.

Því miður er ljóst að fullorðnu fólki yrði seint boðið upp á það sem börnin mega þola í þessum málum. Það er ekki hægt að kenna foreldrum hvernig þeir eiga að haga sér á viðkvæmum stundum sem þessum, en opinberir aðilar geta svo sannarlega gert margt til að létta þessum börnum kvölina.

Ég þakka svarið.