03.12.1987
Sameinað þing: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

Staða mála í þinginu

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs um þingsköp til að ræða stöðu mála hér í þinginu þegar tvær vikur eru eftir af venjulegum starfstíma Alþingis fyrir jólaleyfi og ég vil einnig bera fram spurningar til hæstv. forsrh. í þessu sambandi sem ég kem að síðar.

Staða þingmálanna, fyrst og fremst lagafrumvarpa sem boðað hefur verið að afgreiða eigi eða afgreiða verði fyrir áramót, er sú að flest stærstu málin sem þetta á við um eru ýmist nýlega fram komin og skammt fram gengin á þinginu eða ókomin hér þegar þingið er að ljúka sinni þriðju síðustu starfsviku fyrir jólaleyfi.

Ef litið er yfir fskj. með stefnuræðu hæstv. forsrh. frá í október sl. og það skjal borið saman við stöðu þingmála samkvæmt upplýsingum frá skjalaverði Alþingis kemur í ljós að fjöldi stórmála er enn ókominn fyrir þingið sem ætlunin var samkvæmt áformum hæstv. forsrh. að afgreiða fyrir jól. Má þar nefna frv. um stjórn fiskveiða, breytingar á söluskatti, nýja tollskrá, frv. um vörugjald, frv. til laga um breytingu á tekjuskattslögum þar sem mikil kerfisbreyting er á ferðinni, frv. um álagningu tímabundinna skatta o.s.frv. Frv. til fjárlaga er í nefnd og virðist miða rólega. A.m.k. er þeim sem hér talar ekki kunnugt um að einn einasti þingmannahópur úr kjördæmi hafi enn komið saman til fundar til að skipta fjármagni á einstök verkefni. Frv. til lánsfjárlaga er í nefnd í fyrri deild. Frv. til l. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er ókomið úr nefnd. Sömuleiðis frv. um Útflutningsráð og útflutningsleyfi, ágreiningsmál hér í þinginu. Svo mætti reyndar áfram telja. Og nú eru, eins og ég hef þegar tekið fram, tvær vikur eftir af venjulegum starfstíma Alþingis fyrir jólaleyfi.

Virðing Alþingis, herra forseti, er stundum dregin inn í umræður um þær annir sem vilja verða fyrir jólaleyfi og undir þingslit að vori. Hlutverk og frammistaða stjórnarandstöðu er stundum einnig rædd og heyrst hafa frá einstökum hv. stjórnarþm. ummæli af því tagi að stjórnarandstaðan sé slöpp. Hvað átt er við með því er mér ekki ljóst og fróðlegt væri að heyra hvaða einkunn þeir hinir sömu hv. þm. gefa verkstjórn og skipulagi vinnubragða hjá þeirri ríkisstjórn sem þeir styðja.

Stjórnarandstaðan hefur að mínu mati, herra forseti, unnið málefnalega og ekki tafið þingstörf með upphlaupum eða málalengingum. Þingmál stjórnarandstöðunnar, bæði þingsályktanir og frumvörp, hafa borist jöfnum höndum og reyndar meiri hluti þeirra mála snemma á þinginu. Það eru því ekki málefnaleg og skipuleg vinnubrögð stjórnarandstöðu sem ganga nærri virðingu Alþingis, herra forseti, og þeir sem sletta glósum um störf stjórnarandstöðunnar ættu að skýra út hvað þeir eiga við. Það eru hins vegar óskipuleg og handarbakaleg vinnubrögð hjá hæstv. ríkisstjórn sem vegna ósamkomulags eða af einhverjum öðrum ástæðum virðist ganga svo illa að koma sér saman um mál og leggja þau fram að nú keyrir aldeilis um þverbak. Það er þetta skipulagsleysi sem kallar yfir Alþingi umræðu um virðingu þess.

Herra forseti. Þegar lögunum um þingsköp Alþingis var breytt fyrir nokkrum árum voru sett inn ákvæði um hvenær mál skyldu vera komin fram til þess að þau fengjust afgreidd fyrir þinglok til að koma í veg fyrir óeðlilega uppsöfnun mála síðustu vikur þinghaldsins. Mér sýnist ljóst af reynslu þessa missiris að óhjákvæmilegt sé að breyta lögum um þingsköp Alþingis og setja hliðstæð ákvæði sem gildi um þau mál sem afgreidd skulu fyrir jólaleyfi eða áramót.

Ég lýsi þeirri skoðun jafnframt, virðulegi forseti, að það sé alger nauðsyn að gengið verði þegar til viðræðna um hvernig haga skuli þingstarfi síðustu daga þinghaldsins svo komist verði hjá, eftir því sem hægt er úr þessu, því öngþveiti sem annars virðist blasa við. Og í beinu framhaldi af þessu vil ég spyrja hæstv. forsrh.:

1. Hver eru þau mál sem hæstv. ríkisstjórn telur óhjákvæmilegt að afgreidd verði fyrir jólaleyfi?

2. Hvenær koma þau mál fram og fyrir þingið sem enn hafa ekki sést en að sögn er áformað að afgreiða fyrir áramót?

3. Hafa verið teknar ákvarðanir um hvenær Alþingi gerir hlé á störfum sínum? Stendur e.t.v. til að funda á virkum dögum milli hátíða?