03.12.1987
Sameinað þing: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1459 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

Staða mála í þinginu

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir að vekja máls á þeim atriðum sem hann gat um. Hann varði talsverðum tíma ræðu sinnar til að fjalla um stöðu stjórnarandstöðunnar. Ég er alls ekki þeirrar skoðunar, eins og fram kom í þeirra máli, að stjórnarandstaðan sé slöpp. Ég hef ekki heyrt ummæli af því tagi. Ég held þvert á móti að menn séu þeirrar skoðunar að stjórnarandstaðan hafi beitt öllu afli sínu og sýnt allt vit sitt og nýtt það til hins ýtrasta í störfum sínum á hinu háa Alþingi og meira verður auðvitað ekki krafist. Ég get því ekki tekið undir það að það sé gagnrýniefni sérstaklega að stjórnarandstaðan sé slöpp. Þess verður ekki krafist að meira sé gert en menn hafa afl og vit til.

Varðandi þau atriði sem hv. fyrirspyrjandi vék að og lúta að frumvörpum ríkisstjórnarinnar er það alveg rétt að mörg þeirra eru umfangsmikil og hafa krafist mikils undirbúningstíma og eru auðvitað fullseint fram komin. Það er eðlileg og réttmæt gagnrýni. En menn verða að líta til þess að það hefur verið unnið að undirbúningi þessara mála um nokkurn tíma. Það hafa verið uppi og eru uppi áform um margs konar breytingar af hálfu ríkisstjórnarinnar, sem fram koma í þessum þingmálum, og allt hefur það kallað á verulegan undirbúning sem ég veit að hv. þm. skilur að tekur tíma og það er nauðsynlegt að mál komi inn á þingið vel undirbúin. En ég tek undir að það er slæmt þegar þingið sjálft hefur ónógan tíma til umfjöllunar um þessi mál. Eigi að síður hafa meginlínur verið mjög svo í almennri umræðu. Hinni almennu stefnumörkun hefur verið rækilega lýst bæði í stefnuræðu forsrh., í umræðum um fjárlög og í fjárlagaræðu hæstv. fjmrh. þannig að fátt nýtt held ég að eigi eftir að koma fram.

Þau mál sem mestu skiptir að afgreiða eru fjárlög svo sem venja stendur til um og tekjuöflunarfrv. sem því eru tengd. Sum þeirra er þegar komin fram. Önnur koma fram strax eftir helgi. Þetta eru misjafnlega viðamikil frumvörp, sum einföld, önnur umfangsmeiri og kalla á meiri umræðu og vinnu á hinu háa Alþingi. Þá kemur fram strax eftir helgi eða a.m.k. ekki síðar frv. um stjórn fiskveiða sem einnig þarf að ræða ítarlega og afgreiða fyrir áramót.

Þessi flokkur mála er sá málaflokkur sem mest á ríður að afgreiða fyrir jólaleyfi þm. Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um hvenær jólaleyfi hefst og það fer talsvert eftir því hvernig okkur ganga þingstörfin næstu tvær vikurnar. Ég þykist alveg vita af góðri reynslu að hv. þm. stjórnarandstöðunnar munu fyrir sitt leyti greiða fyrir framgangi nauðsynlegra þingmála. Ég átti í gær tal við hæstv. forseta Sþ. um framgang þingmála og hvernig best væri að standa að skipulagi þingstarfanna og í framhaldi af því tók hann ákvörðun um að kalla saman formenn þingflokka til að hafa um það sem víðtækast samráð. Sá fundur fer fram síðdegis í dag eða að loknum þessum fundi í Sþ.