03.12.1987
Sameinað þing: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

Staða mála í þinginu

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er merkilegt að hlusta á hæstv. forsrh. Stjórnarandstaðan hefur skilið hans orð alveg rétt. En stjórnarandstaðan hefur sýnt mikið langlundargeð á undanförnum vikum í sambandi við störfin hér og hvernig hefur verið haldið á málum.

Hæstv. forsrh. talar um stefnuræðu sína og fjárlagaræðuna og vísar til þess að hv. þm. geti séð hvernig stefnan sé. Ég er búinn að lesa vel þessar ræður. Ég hef hlustað á og lesið fjölmiðla og ég held að það komi greinilega fram að menn skilja hvorki upp eða niður í stefnunni, enda er framkvæmdin allt önnur en stefnan.

Ég ætla ekki á þessari stundu að fara að ræða um vaxtamálin, stefnu ríkisstjórnarinnar eða annað, ég ætla að gera það síðar, en öll þessi stefna er handahófskennd, enda virðast stjórnarflokkarnir í raun og veru ekki koma sér saman um neitt. Og það held ég að þjóðin finni. Það er ekki nóg að segja það hér. (Forseti: Hv. ræðumanni skal bent á að hér eru umræður um þingsköp en ekki efnislega um mál.) Ég skal taka það til greina, herra forseti.

Ég held að það sé í sjálfu sér ekki sæmandi að þeir stóru frumvarpsbálkar sem við eigum von á komi fram tveimur vikum fyrir þingfrestun þar sem fjárlagaafgreiðslan er líka eftir. Í sjálfu sér ættu öll stjfrv. að vera komin fram í síðasta lagi fyrir miðjan nóvember. Það ætti að vera föst venja.