03.12.1987
Sameinað þing: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

Staða mála í þinginu

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hafi einhverjum tekist að skilja mín orð svo sem ég væri að gera ummæli ýmissa um stjórnarandstöðuna að mínum dómi um hana, þá er best að leiðrétta það nú þegar. Ég taldi það reyndar koma rækilega fram í mínu máli að það væri ekki upp á stjórnarandstöðuna að klaga né heldur virðulega forseta Alþingis um það hvernig málum væri hér komið, heldur væri sakarinnar að leita annars staðar. Og ég skal taka hæstv. forsrh. trúanlegan um að það hafi verið og sé einlæg skoðun hans að stjórnarandstaðan hafi notað allt sitt vit og allt sitt afl í þingstörfin og ég ætla þá að segja á móti, að það er mín einlæg skoðun að hæstv. forsrh. sé að nota allt sitt vit og allt sitt afl til að verkstýra ríkisstjórninni og reyna að halda henni saman og árangurinn sjá menn.