03.12.1987
Sameinað þing: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

133. mál, samræming áætlana á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um samræmingu áætlana á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar. Flm. ásamt mér er Skúli Alexandersson, hv. 4. þm. Vesturl. Hér er um endurflutning á till. að ræða sem flutt var á síðasta þingi en varð þá ekki útrædd. Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta vinna að samræmingu áætlana á sviði samgöngumála og meiri háttar mannvirkjagerðar þannig að slíkar áætlanir fyrir einstaka landshluta og landið allt falli eðlilega saman í eina heild.

Stuðlað verði að samræmingu flutninga og flutningaleiða á landi, sjó og í lofti með opinberri stefnumörkun sem jafnframt taki mið af áformum um meiri háttar mannvirkjagerð, þróunarforsendum atvinnulífs og byggðasjónarmiðum.“

Mér nægir, virðulegur forseti, að vísa til framsöguræðu á síðasta þingi og grg. með tillögunni í flestum aðalatriðum. Hér er við fyrstu sýn sjálfsagt ekki um merkilegt mál að ræða í augum margra hv. alþm. Engu að síður er það staðreynd að í mörgum nálægum löndum á sér stað umtalsverð vinna og stefnumörkun af þessu tagi en lítið hefur farið fyrir slíku hingað til uppi á Íslandi. Það sem um er að ræða er auðvitað það að verið er að leitast við að tryggja að það fjármagn sem varið er í þennan dýra málaflokk verði nýtt sem allra best og einnig gera menn sér grein fyrir því að fáir hlutir hafa jafnafgerandi áhrif á þróun samfélaganna og samgöngur.

Fyrir okkur Íslendinga er um stórt og mikið verkefni að ræða, að byggja upp viðunandi samgöngunet í landinu. Það er því mikið í húfi að þeir peningar sem lagðir eru til hinna einstöku málaflokka og í málaflokkinn sem slíkan nýtist sem allra best. Þess vegna er það lagt til með þessari tillögu að sett verði af stað vinna að því að samræma þær áætlanir sem ýmist liggja þegar fyrir eða þyrfti að gera á sviði samgöngumálanna hérlendis. Það má benda á þær áætlanir sem þegar er unnið eftir á sviði vegamála, flugmála, hafnarmála og laga um röð virkjana og fleira mætti tína til en lítill vafi er á því að ástæða væri til að gera betur. Ég nefni í því sambandi gamalt baráttumál mitt um að gerð verði langtímaáætlun um jarðgangagerð í landinu þannig að sá hluti samgöngumálanna verði einnig tekinn inn undir slíka vinnu.

Hér þyrfti ekki, að mínu mati, að vera um kostnaðarsamt fyrirtæki að ræða. Að langmestu leyti er hér um samræmingarstarf að ræða, að skoða hvernig hinar einstöku áætlanir falla saman, skoða hvaða breytingar úrbætur á sviði samgöngumála hafa í för með sér fyrir byggðarlögin. Hafi hv. þm. ekki þegar séð hvað við er átt má nefna dæmi sem ættu að nægja, til að mynda þau áhrif sem ný brú yfir Ölfusárósa hefur á aðstæður og forsendur sveitarfélaganna og samfélaganna þar í kring. Það er lítill vafi að ófáar krónur hefði mátt spara í öðrum málaflokkum ef menn hefðu fyrr sett augu sín á þá staðreynd að brú kæmi yfir Ölfusárósa og þar af leiðandi yrði hægt að samnýta mannvirki eins og hafnarmannvirkin fyrir fleiri aðliggjandi sveitarfélög.

Ég gæti líka nefnt dæmi til að mynda af Vestfjörðum þar sem jarðgöng gætu gerbreytt aðstæðum til uppbyggingar flugvalla. Þar sem menn hafa verið að baksa við að byggja flugvelli við ófullnægjandi aðstæður skilur kannski mjór fjallvegur á milli fjarða, þar sem allt aðrar aðstæður eru fyrir hendi og miklu auðveldara yrði að byggja upp slíkt mannvirki.

Slík dæmi eru reyndar óteljandi og það sem fyrst og fremst er nauðsynlegt að menn geri er að átta sig á því hvert stefnir í þessum málum: Hvaða áhrif hafa samgöngubætur, á landi, í lofti eða annars staðar, á þróunarforsendur atvinnulífs og byggða? Og hvernig er unnt að nýta sem best það fjármagn sem sett er til framkvæmda á hverju einstöku sviði með því að skoða öll málin í heild?

Að lokinni þessari umræðu, virðulegur forseti, geri ég svo ráð fyrir að eðlilegast sé að vísa þessari tillögu til umfjöllunar í hv. allshn.