03.12.1987
Sameinað þing: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

147. mál, skoðanakannanir

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Virðulegur forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka hv. 3. þm. Norðurl. e. fyrir góðar undirtektir og ekki síður fyrir málefnalegt og athyglisvert innlegg í þessa umræðu. Það hefði út af fyrir sig verið ánægjulegt að fá að heyra í fleiri hv. þm. og hugsanlega úr fleiri flokkum um afstöðu til þessa máls og satt best að segja var þess að vænta, þegar litið er til þess að flm. till. eru úr öllum flokkum, að möguleikar væru á því að fá þetta mál afgreitt með tiltölulega skjótum hætti og þeir eru vonandi fyrir hendi. En e.t.v. eru þeir hv. þm. sem hér eru inni svo hjartanlega sammála þessu máli að þeir sjá ekki ástæðu til að ræða það frekar.

Ég vil taka fram, skyldi einhverjum hætta til að líta svo á, að tillöguflutning þennan ber ekki að skoða sem árás eða sérstaka gagnrýni á þá aðila sem gert hafa skoðanakannanir á Íslandi. Ég dreg ekki í efa að þar vinni flestir eftir bestu samvisku. En það er ekki síður ástæða til að tryggja að meðferð þeirra niðurstaðna sem fengnar eru í skoðanakönnunum sé með eðlilegum hætti. Þess gætir oft. Eitt af því sem þeir sem framkvæma skoðanakannanirnar hafa sér til málsbóta er sú mikla tilhneiging þeirra sem síðan taka við þeim og birta þær í fjölmiðlum að taka þær hráar, ef svo má að orði komast, og gera enga fyrirvara um niðurstöður sem oft byggja á tiltölulega hæpnum tölfræðilegum forsendum. Vissulega eru dæmi um mjög misvísandi niðurstöður úr könnunum sem gerðar eru um sama efni á sama tíma af tveimur aðilum. Og það eru vissulega dæmi um að gengið sé út yfir öll velsæmismörk í að skipta niður litlu úrtaki. Er þar nærtækast að benda á þegar fylginu er skipt niður á einstök kjördæmi í könnunum um afstöðu fólks til stjórnmálaflokka, jafnvel þó að svarendur séu orðnir tiltölulega fáir í hverju kjördæmi og örfáir, jafnvel einn, sem merki við hvern flokk í því hinu sama kjördæmi. Slík vinnubrögð eru slæm og það þyrfti að reyna að tryggja að þeim væri ekki beitt og í öllu falli lægi ævinlega fyrir hvaða upplýsingar voru fyrir hendi, hvaða óvissa er á ferðinni, hvaða skekkjumörk þar með eru á þeim niðurstöðum sem settar eru fram. Frönsku lögin ganga einmitt út á að skylda alla, sem senda frá sér niðurstöður í skoðanakönnunum, til að birta allar þær upplýsingar sem menn þurfa að hafa til að átta sig á því hversu góð eða marktæk könnunin geti verið. Þetta er auðvitað mjög stórt atriði.

Ég held einmitt að tækifæri sé enn fyrir hendi á Íslandi til að setja um þetta reglur eða lög og koma með því í veg fyrir að þau ósköp eigi eftir að ganga yfir okkur sem ýmsar aðrar þjóðir búa nú við í þessum efnum. Get ég þar einnig tekið sem dæmi Bandaríkin, eins og hv. 3. þm. Norðurl. e. gerði, þar sem þjóðinni er svo komið, sem er upp að eyrum í fjölmiðlun, að hún getur ekki gert sér almennilega grein fyrir því hvernig henni líkaði tiltekinn dagskrárliður í sjónvarpinu sínu fyrr en hún er búin að fá skoðanakönnun um það daginn eftir hvernig mönnum þótti þátturinn. Þá fyrst geta menn farið að tala um það út á við hvernig dagskrárliðurinn var. Þetta er svo langt gengið að þegar stillt er upp til kappræðna, t.d. stjórnmálamönnum, í bandarískum fjölmiðlum er ævinlega búið að undirbúa gerð skoðanakönnunar sem er sett í gang um leið og þættinum er lokið til að fá um það niðurstöður hvernig mönnum þótti þátturinn. Menn hafa ekki nema örfáar klukkustundir í besta falli til að reyna að gera það upp við sig sjálfir hvernig þeim þótti þetta heldur skulu þeir fá það yfir sig strax á næstu klukkustundum eftir að slíkum atriðum lýkur hvernig þjóðinni hafi fallið þetta í geð. Þegar málin eru komin á það stig að skoðanakannanir eru gerðar í tíma og ótíma um alla skapaða hluti og fylgja jafnvel hver annarri í tilteknum röðum, þegar engar reglur eru um birtingu slíkra kannana, þegar forspárkannanir eru birtar jafnvel á kjördögum o.s.frv., er alveg ljóst að menn eru komnir út í hreinar ógöngur. Sem betur fer hafa þessi mál ekki gengið neitt í líkingu við það enn þá hér uppi á Íslandi, en það er lítil ástæða til að ætla annað en svipuð þróun yrði hér í kjölfar vaxandi fjölmiðlunar og verið hefur í öðrum löndum, þ.e. að sífellt vaxandi tilhneiging til þess að gera kannanir og koma þeim á framfæri með fjölmiðluninni verði fyrir hendi á næstu árum. Þess vegna held ég að það sé rétti tíminn, og hann er e.t.v. reyndar kominn fyrir nokkru, sá tími, eins og hv. síðasti ræðumaður ýjaði að, að tekið verði af skarið um það á Íslandi hvort menn vilja setja reglur eða lög um skoðanakannanir og þá hvernig. Þessi till. er einmitt flutt til að hrinda slíku starfi af stað og það er von mín að hún fái greiðan framgang.