03.12.1987
Sameinað þing: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

147. mál, skoðanakannanir

Þórhildur Þorleifsdóttir:

Virðulegi forseti. Þar sem ég er einn af meðflm. till. er líklega þarflaust að ég komi hingað til að lýsa stuðningi við hana. Aftur á móti langar mig aðeins til að gera að umtalsefni hvort einhverjar leiðir séu til að stuðla að því að skoðanakannanir séu ekki teknar svona alvarlega, það séu einhver þau ákvæði í reglum um skoðanakannanir sem tryggi að allir annmarkar og takmarkanir skoðanakannana fylgi ávallt með niðurstöðum, því að það er nú einu sinni svo með skoðanakannanir að þær gefa í rauninni aldrei merkilegri niðurstöðu en einhvers konar meðalskoðun og meðalskoðun er kannski ekkert frekar til en einhvers konar meðallíf eða meðaltalslaun.

Fjölmiðlar fá í rauninni ótruflað að túlka niðurstöður skoðanakannana sem sannleika sem beri að taka alvarlega og eru þær í krafti þess mjög skoðanamyndandi. Þar mættu þm. og stjórnmálamenn oft athuga sinn gang, hversu fúslega við hlaupum til liðs við fjölmiðla til að túlka niðurstöður. Þetta gerum við eins og vill vera fyrir kosningar, mér liggur við að segja dag eftir dag. Dýpt samtalanna er yfirleitt ekki meiri en svo að spyrjandinn spyr: Segðu mér, Guðríður. Af hverju heldur þú að þið séuð að vinna fylgi? Eða: Segðu mér, Sigurður. Af hverjum heldur þú að þið séuð að taka fylgi? Og svörin eru álíka djúp og merkileg.

Auðvitað eru skoðanakönnunum takmörk sett vegna þess að það verður að nota einhvers konar staðlað orðalag eða staðla til að fá fram einfaldar skoðanir. Að ætla sér að hafa þar með allt litróf mannlífsins er óvinnandi vegur. Þeim mun meira áríðandi er að öllum sé gert ljóst í hvert sinn sem niðurstöður birtast að þær séu kannski ekki eins marktækar og menn vilja vera láta.

Af því að menn voru að vitna áðan til Bretlands um áhrif skoðanakannana ætla ég líka að ljúka máli mínu með örlítilli sögu frá Bretlandi. Það voru einu sinni höfð fleyg ummæli, ákaflega einföld, eftir fullorðnum manni sem var þar í viðtali í sjónvarpi út af máli sem ég man nú ekki lengur hvað var. Nema hann hafði einhverja skoðun sem gekk á skjön við þá sem var álitið að hann skyldi hafa. Honum var bent á að í skoðanakönnunum kæmi fram sú ákveðna skoðun sem menn vildu gjarnan að hann hefði. Og þá svaraði maðurinn einfaldlega: Enginn spurði mig. — Það er það sem eftir stendur í hverri skoðanakönnun. Þeir sem ekki voru spurðir voru ekki spurðir og höfðu ekki möguleika á því að svara.