03.12.1987
Sameinað þing: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

147. mál, skoðanakannanir

Ingi Björn Albertsson:

Virðulegi forseti. Ég stíg í ræðustól vegna hvatningarorða frá hv. 1. flm. Hann kallaði á skoðanir þm. frá öðrum flokkum. Ég tel löngu tímabært að það séu sett lög yfir þennan málaflokk, skoðanakannanir í landinu, og styð því heils hugar þá þáltill. sem hér er sett fram. Það þekkja allir að í dag er hægt að panta sér eða kaupa skoðanakannanir á nánast hvaða sviði sem er, hvort sem um er að ræða einstaklinga, félög eða jafnvel stjórnmálaflokka, og getur það kallað á ýmsar hættur og misnotkun. Stjórnmálaflokkar hafa — eða að því hefur verið ýjað — notfært sér þessa þjónustu og er þá einfalt fyrir þá að setja sín ákveðnu formerki sem gefa þeim væntanlega þær útkomur sem þeir óska. Nægir þar að nefna að þeir geta tekið fram að spurt sé innan ákveðins aldurshóps, innan ákveðinna þjóðfélagshópa og haft leiðandi spurningar. Það er því alveg tímabært að þarna séu settar ákveðnar reglur sem beri að fylgja.

Ég tek undir að niðurstöður skoðanakannana eigi ekki að birta fyrir kjördag innan einhvers ákveðins tíma. Ég skal ekki segja hvort það eiga að vera ein eða tvær vikur, en það þarf að setja fastar reglur þar um.

Eins þarf að kalla til þá aðila sem starfa í þessu í dag og alla þá sem þessu máli viðkoma til að standa að slíkri lagasetningu.

Ég hef reyndar ekki miklu meira um þetta að segja. Ég vildi aðeins koma upp og lýsa stuðningi mínum við þetta.