04.12.1987
Efri deild: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (1077)

Fundarboð og fjarvera þingmanna

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég hygg að það hafi verið venjan, a.m.k. þau ár sem ég hef setið á Alþingi, að miða við að fundir væru ekki settir í deildum, sameinuðu þingi eða nefndum nema helmingur nefndarmanna eða deildarmanna eða þingmanna væri viðstaddur. Mér sýnist að sú venja hafi verið brotin á þessum fundi. Ég geri ráð fyrir að þessi vinnubrögð standist út af fyrir sig lög og þingsköp, en ég tel að hér sé um að ræða ósið og mótmæli því að efnt sé til fundar af þessu tagi með þeim hætti sem hér hefur gerst.

Ég minni á í þessu sambandi, herra forseti, að mér er tjáð að í gær hafi formenn þingflokka stjórnar og stjórnarandstöðu hitt forseta þingsins að máli svo og ráðherra til að fara yfir þingstörf þau sem fyrir liggja á næstu vikum fram að jólum. Ég hygg að á þessum fundi, sem haldinn var í gær, hafi ekki verið um það rætt að boðaður yrði fundur í dag þannig að þessi fundur sé boðaður án þess að haft hafi verið venjulegt og eðlilegt samráð a.m.k. við formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar.

Ég leyfi mér, herra forseti, af þessu tilefni að gagnrýna tvennt, annars vegar að fundur skuli hér settur án þess að helmingur þm. hafi verið viðstaddur í þessari virðulegu deild og sömuleiðis að til þessa fundar skuli hafa verið efnt án þess að haft væri venjulegt samráð við forustumenn þingflokkanna á hinu virðulega Alþingi.

Mér er tjáð að fundurinn sé einkum haldinn til að útbýta tveimur stjfrv., annars vegar um stjórn fiskveiða og hins vegar um tekju- og eignarskatt. Þannig háttar til að samkvæmt hinum nýju starfsreglum þingsins, sem ég er ekki orðinn vel kunnugur, eru haldnir fundir í Sþ. á mánudögum og í deildum á þriðjudögum. Þess vegna hefði ekki af þeim ástæðum verið nauðsynlegt að boða fund í dag því að nóg var að útbýta málunum á mánudag í Sþ. til þess að þau mættu koma fyrir á þriðjudag í deildum, en mér er ekki kunnugt um að neitt samkomulag liggi fyrir um að deildafundir verði haldnir fyrri hluta næstu viku á afbrigðilegum tíma.

Þetta vildi ég láta koma fram með formlegum hætti af minni hálfu, herra forseti. Án þess að ég sé út af fyrir sig að kalla á andsvör á þessari stundu vildi ég að mín afstaða lægi fyrir.