04.12.1987
Efri deild: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

Fundarboð og fjarvera þingmanna

Guðrún Agnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég tek undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram. Í gær var bæði fundur hjá forsetum um morguninn og það var líka þingflokksformannafundur síðari hluta dags. Þá gáfust næg tilefni til að tilkynna mögulegan fundi í deildum í dag. Nú vill svo til að flestir þm. hafa ráðstafað sér og eru skuldbundnir við önnur störf eða jafnvel farnir út úr bænum þar sem ekki var búist við neinum fundi í deildinni í dag. Fundur var tilkynntur um kvöldmatarleyti í gær alveg skyndilega og án nokkurs samráðs, hreinlega fundarboð án þess að það væri nokkuð spurt um hvernig það hentaði.

Ég hlýt að gagnrýna slík vinnubrögð. Ekki það að þingið muni eiga annríkt fram að jólum, enginn kvartar undan því að þurfa að vinna sín störf. Það er sjálfsagt mál. En það er líka sjálfsögð kurteisi og sjálfsögð tillitssemi að um slíka aukafundi sé haft fullt samráð því að stjórnin hlýtur að vilja samvinnu og velvilja allra sem sitja hér á þingi til að koma þessum afskaplega síðbúnu málum sínum í höfn. Ég get ekki ímyndað mér annað en hún æski þess. Og þessi vinnubrögð eru til þess fallin að vekja upp mótþróa.