07.12.1987
Sameinað þing: 27. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

111. mál, mælingar á geislavirkni í sjávarafurðum og umhverfi

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Þessi tillaga, sem fjallar um mælingar á geislavirkni í sjávarafurðum og umhverfi, er flutt vegna þess að nauðsyn ber til að hér á landi geti farið fram regluleg mæling á hugsanlegri geislavirkni. Sú mæling verður að fara fram til verndar heilbrigði og til þess að tryggja verðmæti sjávarafla. Þetta kom berlega í ljós fljótlega eftir hið mikla slys í Tsjernóbíl í Sovétríkjunum og má segja að upp úr því hafi verið lagður grundvöllur að því að geislamælingar gætu orðið víðtækari og reglulegri en þær hafa verið til þessa hér á landi.

Á öðrum Norðurlöndum hafa slíkar mælingar farið fram í 30 ár eða svo. Þær fóru að nokkru marki fram um nokkurra ára skeið frá sjötta áratug til hins sjöunda, en ekki hefur verið aðstaða til þess að sinna þessu atriði á fullnægjandi hatt þannig að við höfum rekið okkur á það að hér hefur orðið nauðsynlegt að bæta úr.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að lesa þessa litlu grg. sem þáltill. fylgir. Hún hljóðar svo:

„Eftir kjarnorkuslysið í Tsjernóbíl í Sovétríkjunum varð fleirum en áður ljóst hvaða þýðingu það hefur fyrir öryggi manna og heilsu að unnt sé að fylgjast reglubundið með geislavirkni í umhverfinu svo og í neysluvörum. Um þetta leyti fóru kaupendur sjávarafurða okkar erlendis að krefjast vottorða um geislavirk efni í afurðunum svo að óyggjandi væri að geislavirkni væri ekki yfir leyfilegu magni. Ljóst var því að þær afurðir væru verðmeiri ef unnt var að láta fylgja öruggt vottorð um geislamælingu.

Íslendingar höfðu ekki yfir að ráða búnaði sem til þessa þurfti. Málið var að nokkru leyst um stundarsakir með lánstækjum erlendis frá og aukafjárveitingu til að ráða eðlisfræðing við Geislavarnir ríkisins. Tekin var ákvörðun þegar í maímánuði 1986 um að fela Geislavörnum undirbúning reglulegra geislamælinga í umhverfi og matvælum. Skömmu síðar voru fengnir hingað til lands sérfræðingar frá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni til ráðgjafar í þessu sambandi. Í framhaldi af þessum ákvörðunum gerði íslenska ríkisstjórnin samning við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina um útvegun tækjabúnaðar í þessu skyni. Íslendingar þurfa að sjálfsögðu að standa við sínar skuldbindingar til að unnt sé að nýta þá rausnarlegu aðstoð sem kjarnorkumálastofnunin lætur í té.

Þessi tillaga er flutt til að flýta fyrir því að tæki þessi verði nýtt. Hér er verið að hvetja til fyrirhyggju sem annars vegar varðar heilbrigði landsmanna og hins vegar verðmæti útflutningsafurða okkar.“

Mengun eða hætta á geislavirkni getur orðið fjarri þeim stað þar sem orsökina er að finna, eins og kunnugt er, og þess vegna hafa ákveðnar kröfur verið gerðar á alþjóðavettvangi um það að upplýsingar séu gefnar þegar í stað ef kjarnorkuslys verður eða eitthvað það sem veldur hættulegri geislamengun. Jafnframt er gert ráð fyrir því að ríki skiptist að staðaldri á upplýsingum um niðurstöður reglulegra geislamælinga. Þá er lögð á það áhersla að ríki komi sér saman um staðla sem ákveði hver séu leyfileg mörk hverrar tegundar geislavirkni og séu þá lögð til grundvallar heilbrigðisrök.

Nú er geislun matvæla að vissu marki viðurkennd aðferð til þess að auka geymsluþol en vitanlega þarf að liggja fyrir hve mikil geislun að öðru leyti má vera til að hættulaust sé og í hve mörgum þáttum umhverfis manna eða tegundum matvæla sem menn neyta.

Þessi tillaga er flutt í þeim tilgangi að Alþingi árétti þá skoðun sína að Íslendingar geti sinnt nauðsynlegum verkefnum, að þessu leyti til, til verndar heilsu og verðmætum, svo og til að leggja fram okkar hlut upplýsinga í samstarfi við aðrar þjóðir, samstarfi sem okkur er nauðsynlegt og við njótum góðs af.

Að því er varðar þann tækjabúnað sem Alþjóðakjarnorkumálastofnunin aðstoðar okkur við að fá er það að segja að við þurfum aðeins að leggja fram 7% af verðmæti þeirra, en við þurfum auðvitað að hafa aðstöðu til að hægt sé að nýta þessi tæki. Húsnæði, sem ákvörðun var tekin um fyrir hálfu öðru ári síðan, mun væntanlega verða tilbúið snemma á næsta ári, en það sem á vantar eru viss einfaldari tæki til þess að hin flóknu og dýru tæki, sem kjarnorkumálastofnunin lætur okkur í té, geti komið að fullum notum. Það segir sig sjálft að það er afar óhyggilegt að standa ekki þannig að þessum málum að við nýtum þau miklu verðmæti sem okkur tekst að fá fyrir gott samstarf við alþjóðlega aðila. Það er ljóst að þekkingin er til þessa í landinu, húsnæðisaðstaða verður bráðlega til og það sem á vantar nú í ár er í raun og veru lítil fjárhæð miðað við allt og allt. Það er um að ræða á fjórðu millj. kr. í allt sem á vantar að því er mér telst til. Ég vona auðvitað að þetta leiðréttist nú við meðferð frv. til fjárlaga í þinginu — það sem á vantar er það að fyrir liggi ljós stefnumörkun af hálfu Alþingis um að starfsemi sem þessari sé haldið uppi til frambúðar. Ég ítreka það enn á ný, svo að við getum betur staðið að því að vernda heilsu landsmanna og verðmæti framleiðsluvara okkar.

Ég vil að lokum aðeins minna á það að mál þessi komu til umfjöllunar með öllum þeim áhersluatriðum sem ég gat hér um áðan m.a. á þingi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar fljótlega eftir Tsjernóbílslysið og í vinnu á vegum þeirrar stofnunar hefur verið unnið að þessum málum. Enn fremur liggur fyrir mikið skjal, uppkast að ákvörðun Evrópuráðsins, þar sem einnig eru talin upp atriði sem þýða í raun og veru að hvert ríki er skuldbundið til þess að standa að mælingum á geislavirkni til þess að geta staðið við þátttöku sína í upplýsingastarfi um þetta atriði. Sama gildir um ákvæði í samþykktum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að máli þessu verði frestað á meðan umfjöllun fer fram í nefnd sem væntanlega yrði hv. félmn. Sþ.