07.12.1987
Sameinað þing: 27. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

111. mál, mælingar á geislavirkni í sjávarafurðum og umhverfi

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Efni það sem þessi þáltill. fjallar um var einnig til umræðu í hv. Alþingi fyrir nokkrum dögum síðan, nánar tiltekið 26. nóv. sl., en þá hafði verið borin fram fsp. um það hvort gerðar væru reglubundnar mælingar á geislavirkni í umhverfi á Íslandi. Í svari mínu við þeirri fsp. kom þá fram að slíkar reglubundnar mælingar væru ekki framkvæmdar í dag, en hins vegar fyrirhugað að hefja þær á næsta ári ef okkur tekst að framfylgja efni málsins eins og gerð er tillaga um í þessari þáltill., þ.e. að staðið verði við það samstarf, það samkomulag sem við höfum náð við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina um að hefja þessar reglubundnu mælingar á næsta ári.

Ég tel að þetta sé afar mikilvægt mál og það er reyndar í kjölfar samþykktar sem gerð var á fundi fyrrv. ríkisstjórnar 23. maí 1986, eins og fram kom í máli hv. frsm. fyrir þessari þáltill., hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur. Fyrir einu og hálfu ári síðan var sem sagt gerð till. um það í ríkisstjórn að hefja reglubundnar mælingar og Geislavörnum ríkisins falið að vinna að þeim undirbúningi í samvinnu við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina. Við höfum þegar þegið tækniaðstoð frá þeirri stofnun að upphæð um 25 þús. bandaríkjadala. Áætlað er að heildarstuðningur Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar við þessar mælingar gæti numið 11 millj. íslenskra króna þannig að eins og fram kom hjá hv. frsm. er það ekki stór upphæð sem við þurfum að leggja í þetta. Það er áætlað að við þurfum að kaupa stofnbúnað fyrir u.þ.b. 2,5 millj. kr. og ráða til starfa eðlisfræðing til að vinna að þessum rannsóknum og þar með auðvitað að áætta fyrir launum hans og starfskostnaði í fjárlögum, þannig að þarna er um að ræða eitthvað á fjórðu millj. kr.

Vegna öryggis og verndunar heilbrigðis almennings og m.a. vegna eftirlits á útfluttum sjávarafurðum er okkur nauðsynlegt að fylgjast með geislavirkni í umhverfinu og taka í því skyni upp reglubundnar mælingar.

Þetta vildi ég aðeins láta fram koma. Þetta var reyndar búið að koma hér fram áður sem svar við fsp., en ég tel að hér sé hreyft mikilvægu máli. Ég hef þegar komið þeim óskum á framfæri við fjvn.

Alþingis að hækkaðar verði fjárveitingar til Geislavarna ríkisins til þess að standa við þann kostnað sem við þurfum að leggja út vegna þessara mælinga á geislavirkni. Ég tel það mjög brýnt og tek því undir efni þáltill., og vonast til þess að reglubundnar mælingar á geislavirkni verði hægt að hefja fljótt á næsta ári. fáum við þessar fjárveitingar og þegar stofnunin hefur fengið það húsnæði sem henni er ætlað að starfa í.