07.12.1987
Neðri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (1106)

54. mál, útflutningsleyfi

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég skal stuttlega víkja hér að nokkrum atriðum sem fram hafa komið í umræðunum. Það er auðvitað laukrétt sem fram kom hjá hv. 17. þm. Reykv. að hér er um að ræða tilfærslu verkefna í Stjórnarráði en ekki efnislegar breytingar á því hvernig útflutningsmálum er að öðru leyti háttað.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. spurði hvers vegna þetta mál hefði verið tekið út úr. Ég skil það svo að hann hafi verið að spyrja hvers vegna þetta hafi verið tekið út úr öðrum hugmyndum sem stundum hafa verið til umræðu um breytingar á skipan Stjórnarráðsins. Því er til að svara að það var tekin sjálfstæð ákvörðun um tilflutning þessa verkefnis útflutningsverslunarinnar úr viðskrn. í utanrrn. og ástæðulaust að blanda því saman við hugmyndir sem oft hafa komið upp um aðrar skipulagsbreytingar í Stjórnarráðinu.

Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. að meginrökin fyrir þessari breytingu er betri samnýting starfskrafta og eðlilegri meðferð mála út frá því sjónarmiði að samstæð mál fari saman. Þau rök voru ekki færð fram fyrir þessu að verið væri að spara fjármuni eða gera þessa starfsemi ódýrari. Það var verið að koma á þeirri skipan þar sem líklegra var talið að starfskraftar gætu nýst í þágu þessarar starfsemi með meiri orku en áður, meðal annars, eins og hv. þm. benti á, í ljósi þess að starfsmenn utanríkisþjónustunnar sinna m.a. tengslum við stór viðskiptasamtök eins og Fríverslunarbandalagið og samskiptum við Evrópubandalagið og þar af leiðir að hér er um að ræða mál sem eðlilegt er að fari saman í einu ráðuneyti.

Ég tel ekki að það séu veigamikil rök í þessu máli að pólitísk afstaða, utanríkispólitísk afstaða, sem utanríkisráðherra þarf að kynna, fari í bága við viðskiptahagsmuni og það kunni að vera eðlilegt að tveir ráðherrar fari þess vegna með þessi mál. Ríkisstjórn Íslands á hverjum tíma er auðvitað bundin af utanríkispólitískum ákvörðunum og yfirlýsingum og viðskrh. getur ekki leikið þar með öðrum hætti en ríkisstjórnin í heild kemur sér saman um. Því held ég að hér sé ekki um veigamikil rök að ræða í þessu máli.

Hv. þm. spurði einnig hvort ekki væri unnt að láta við það sitja að hv. Nd. afgreiddi þetta mál og hin virðulega Ed. fengi svo málið til rækilegri skoðunar eins og ég skildi hans spurningu. Ég sé ekki að þetta mál sé þannig vaxið að ekki sé unnt að afgreiða það fyrir jólaleyfi þm. og með fullri virðingu fyrir hinni virðulegu Ed. sýnist mér að ef þessi hv. deild getur afgreitt málið fyrir sitt leyti, þá ætti Ed. ekkert að vera að vanbúnaði.

Ég hef þegar vikið að því atriði í spurningum hv. þm. sem laut að samstæðum málum sem auðvitað er eðlilegt að skipa í eitt og sama ráðuneyti. Ég held einmitt að þessi mál hafi þróast á þann veg að út frá því sjónarmiði sé ekki óeðlilegt að færa þennan hluta viðskiptamálanna til.

Að því er varðar spurningu um afstöðu Fríverslunarbandalagsins og einstakra ríkja innan þess til þessarar breytingar, þá býst ég við að ég hafi misskilið hv. þm. Ég geri ekki ráð fyrir því að hann hafi í raun og veru verið að ætlast til þess að við létum afstöðu Fríverslunarbandalagsins (SJS: Aðstöðu, hæstv. forsrh. Aðstöðu okkar gagnvart þessu bandalagi.) Já, ég geri ekki ráð fyrir því að hv. þm. eigi við það að við látum afstöðu Fríverslunarbandalagsins eða annarra ríkja á skipan mála í Stjórnarráði Íslands hafa nein áhrif á okkur. Þetta er okkar eigin ákvörðun að skipa málum í Stjórnarráði Íslands og það væri auðvitað fullkomlega óeðlilegt af hálfu Fríverslunarsamtakanna að gera nokkra athugasemd þar við. Það liggur í augum uppi að aðstaða okkar gagnvart Fríverslunarsamtökunum er á einn og sama veg hvernig sem við skipum málum innan Stjórnarráðs Íslands. Þar hafa Fríverslunarsamtökin engin áhrif á og geta ekki leyft sér að hafa áhrif á. Þau geta ekki rýrt aðstöðu eins ríkis umfram önnur út frá því hvernig þau skipa málum innan Stjórnarráðsins.

Varðandi spurningu um það hvort eðlilegra hefði verið að stofna sérstakt ráðuneyti um þessi mál, þá er því til að svara að ég hygg að það hefði haft meiri kostnað í för með sér og það hefði líka gengið á svig við það meginsjónarmið að skipa samstæðum málum helst sem best saman í Stjórnarráðinu. Ég sé ekki rök fyrir því í dag að fjölga ráðuneytum í Stjórnarráði Íslands og það eru ekki rök fyrir því að minni hyggju að fjölga ráðherrum í ríkisstjórn Íslands, þannig að þegar allt er saman dregið þá hygg ég að þessi skipulagsbreyting sé tiltölulega einföld í sniðum. Hún hafi ekki í för með sér kostnaðarauka, auki möguleika á því að samnýta utanríkisþjónustuna meiri átökum í utanríkisviðskiptum sem við höfum verið að þróa og auka á undanförnum árum. Í því felst auðvitað engin rýrð á það mikla starf sem viðskrn. hefur unnið í þeim efnum. En það hefði verið út í bláinn að mínu áliti að fara að stofna sérstakt ráðuneyti eða fjölga ráðherrum við kerfisbreytingu eins og þessa.