07.12.1987
Neðri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1542 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

54. mál, útflutningsleyfi

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það getur verið að það sé misminni hjá mér, en mig minnir að nefndarmönnum hafi gefist tækifæri til þess að gera grein fyrir skoðunum sínum áður en ráðherrar kæmu til andsvara og það hafi verið venjan hér í þinginu. En vel má vera að það sé misminni.

Það mál sem hér er til umfjöllunar hefur í rauninni æxlast svo að þetta eru tvö mál. Formlega séð er hér einungis um að ræða tilflutning á utanríkisviðskiptum frá viðskrn. til utanrrn. en það vill svo til að jafnframt eru hér á ferðinni þær lagagreinar sem varða hömlur á útflutningsfrelsi, þ.e. þegar þær lagagreinar sem útflutningsleyfaveiting styðst við. Og þess vegna er ástæða til þess að ræða báðar hliðar þessa máls.

Varðandi hið síðara, þ.e. frelsi í útflutningsmálum, þá er það svo að þau mál hafa nýverið orðið tilefni til allsnarpra deilna hér í þinginu og reyndar víðar á opinberum vettvangi. Ég þarf ekki að rifja það upp og ég þarf kannski ekki heldur að rifja það upp að hér hef ég á undanförnum þingum mælt með auknu frjálsræði í útflutningi. Vitaskuld gefa menn haft á þessu mismunandi skoðanir, en það sem er aðalgalli þess máls er ekki það að menn hafi mismunandi skoðanir heldur hitt að málið er aldrei útkljáð.

Ég hef mælt hér fyrir auknu frelsi í útflutningsmálum. Það hafa fleiri gert. Aðrir hafa mælt gegn því. En Alþingi tekur ekki afstöðu til þessa máls, hefur ekki gert það á undanförnum þingum og gerir það ekki enn. Eftir sem áður virðist það eiga að vera komið undir skoðunum ráðherra en ekki undir áliti Alþingis hvort hér ríki meira eða minna útflutningsfrelsi. Við eigum að búa við það að einn ráðherra hafi eina skoðun og framfylgi henni í einhverja mánuði og síðan taki annar við og hafi aðra skoðun og framfylgi henni í einhverja aðra mánuði. Mér finnst afleitt að málið sé skilið eftir opið með þessum hætti og þó að ég kjósi auðvitað að aukið frjálsræði verði ofan á hlýt ég þó að viðurkenna að það sem er langmikilvægast er það að menn búi við ákveðinn stöðugleika í þessum efnum, viti hvar þeir standi og að þeir sem standa í útflutningi megi reiða sig á að það sé til einhver stefna í landinu í þessum efnum.

Ef við lítum til þeirra snörpu orðaskipta sem urðu hér fyrr á þessu þingi, þá skilst mér að við megum eiga von á því að sú opnun sem átti sér stað fyrir skömmu síðan, sem ég tel að hafi verið mikils virði að því er útflutningsfrelsi varðaði, verði að engu höfð og dyrum skellt hugsanlega eftir áramót eða þegar þessi breyting hefur átt sér stað. Og þó mér þyki það í fyrsta lagi afleitt, þá er hitt ekki síður afleitt að menn skuli ekki vita hvar þeir standa og það skuli vera komið undir persónulegum skoðunum en ekki skoðunum Alþingis hvernig þessum málum er framfylgt. Mér sýnist að það sé ástæða til þess að skoða þessi mál nánar og Alþingi taki á þeim málum hver stefnan eigi að vera. Ég er reyndar sannfærður um það að meiri hluti Alþingis vill aukið frjálsræði í þessum efnum rétt eins og meiri hluti þjóðarinnar.

Nú vill svo til að það er reyndar ekki einu sinni nauðsynlegt að breyta lagagreininni til þess að marka stefnu í þessum efnum. Það er ekki einu sinni nauðsynlegt. Þess vegna getur lagagreinin fengið að standa óbreytt, en stefnumörkunina vantar að mínum dómi engu að síður. Þess vegna get ég í sjálfu sér fallist á að frv. sé samþykkt með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Eftir stendur að afstöðuna vantar og að það stendur upp á Alþingi í þessum efnum. Og það er til þess sem ég vísa þegar ég geri fyrirvara um samþykki lagagreinarinnar og kem jafnframt á framfæri áskorun til þm. um að sameiginleg stefna, meirihlutastefna verði mótuð í þessum efnum hér á Alþingi þannig að við búum ekki við eitt skipulag einn mánuðinn og hugsanlega annað þann næsta.

Hvað snertir fyrra atriðið, það sem frv. snýst formlega um, þ.e. að vista utanríkisviðskiptin í utanrrn. frekar en viðskrn., get ég fallist á að það séu ýmis rök sem mæla með því. En spá mín er reyndar sú að mál það sé heldur ekki til lykta leitt með samþykkt þessa frv. og að það muni reynast nauðsynlegt að skoða nánar hvernig við styrkjum starfsemi okkar að því er varðar utanríkisviðskiptin. Ég vil einnig benda á það með tilvísun í fyrirvara minn að nauðsynlegt sé að ítarlegri skoðun fari fram á því máli og að menn átti sig vel á því hvernig þeim málum verði best skipað. Við kunnum dæmi af því í grannlöndum okkar, sem eiga ekki jafnmikið undir utanríkisviðskiptum eins og við, að þó að um sameiginlegt ráðuneyti sé að ræða telja þeir ástæðu til þess að vera með sérstakan ráðherra sem fari með utanríkisviðskipti.

Við eigum fram undan margvísleg verkefni á þessu sviði, m.a. samskipti við Evrópubandalagið, og ég held að það sé ástæða til þess að menn skoði þessi mál nánar í framhaldinu, þótt þetta frv. verði samþykkt, með tilliti til þess að styrkja þann arm í stjórnkerfi okkar sem fæst við utanríkisviðskipti.

Herra forseti. Ég hef hér gert grein fyrir skoðunum mínum í þessu máli. Það er á grundvelli þessara skoðana sem ég geri fyrirvara við samþykkt þessa máls og það er með tilvísun í þennan málflutning sem ég rita undir nál. með fyrirvara. Sá fyrirvari tekur einnig til þess máls sem er næsti liður á dagskrá, 2. liður á dagskránni. Ég sé ekki ástæðu til að gera grein fyrir þessum fyrirvara tvisvar og mun því ekki taka til máls um þann þáttinn fyrirvarans vegna heldur vísa einungis til þess sem ég hef hér sagt um hann.