07.12.1987
Neðri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

54. mál, útflutningsleyfi

Benedikt Bogason:

Virðulegi forseti. Hvað snertir frv. sem hér er til umræðu get ég strax lýst því að stefna Borgarafl. er ótvíræð, útflutningsverslunin verði gefin frjáls. Við orðum þetta þannig í ályktunum okkar, ályktunum sem voru samþykktar á landsfundi okkar í september sl.:

„Útflutningsverslunin verði gefin frjáls. Tryggt sé að ávallt verði farið eftir reglum um gæðamat og gæðaeftirlit vegna útflutningsvöru okkar.“

Ég leyfi mér að segja þá skoðun mína að ég tel alveg tvímælalaust að þetta frv., þessi uppstokkun milli ráðuneyta geti verið spor í rétta átt til að ná nútímalegum tökum á utanríkisversluninni. Þó að því tilskildu — og nú ætla ég aðeins að lesa þá einu grein sem skiptir máli þarna: „Utanrrn. er heimilt að ákveða að ekki megi bjóða, selja eða flytja vörur til útlanda nema að fengnu leyfi.“ Það er alltaf og einu sinni enn spurning um hvernig ráðherra fer með þetta leyfi. Hvernig er hann innréttaður, ráðherrann? Er hann skömmtunarsinni eða er hann nútímamaður? Stefnir hann í frelsisátt? Ég leyfi mér að vænta þess að hann vilji stefna í frjálsræðisátt og fari varlega með notkun þeirrar heimildar að banna að flytja út.

„Útflutningsleyfi getur ráðuneytið bundið skilyrðum sem nauðsynleg þykja.“ Þetta er náttúrlega eðlilegt og liggur í hlutarins eðli, eins og áður er sagt, varðandi gæðamat og almenn skilyrði sem við hljótum alltaf að hafa áhuga á að sé fullnægt, að við séum ekki að skemma markaðinn með skemmdri vöru eða slíku.

Svo stendur hér: „Útflytjendur eru skyldir að veita ráðuneytinu þær upplýsingar sem það óskar um allt er varðar sölu og útflutning vara sem seljast eiga til útlanda.“

Hvað um ráðuneytið sjálft? Hefur það engar skyldur gagnvart útlendingum? Það væri fróðlegt að fá því svarað, hvort þetta séu ekki gagnkvæm samskipti, hvort við séum ekki komnir út úr miðaldahugsuninni um að ráðuneytið sé eitthvað sem skammtar eða veitir.

Ég ætla að leyfa mér að bæta við að við í Borgarafl. leggjum mikla áherslu á það og orðum það þannig í ályktunum okkar að „aðlaga þarf löggjöf að þeirri staðreynd að Ísland er hluti af heimsmarkaði verslunar og viðskipta sem gjörbreyst hefur á undanförnum árum.“ Þetta frv. getur verið spor í þá att því að utanrrn. stendur nær heiminum en viðskrn. hefur gert.

Síðan er það sem beinlínis snýr að þessu frv. og það er það sem við segjum í kaflanum um alþjóða- og öryggismál, en það er þetta: „Efla þarf viðskipta- og tækniþátt utanríkisþjónustunnar. Í ljósi örra framfara í allri samskiptatækni ber að hafa skipulag utanríkisþjónustunnar í stöðugri endurskoðun.“

Þótt áður fyrr hafi sennilega verið nauðsyn á leyfisveitingum og eftirliti er sá tími liðinn, kannski löngu liðinn, og þjóðin tapar stórfé árlega vegna þess að möguleikar til útflutnings eru heftir beint og óbeint með ríkisafskiptum. Einstaklingar sem hafa viðskiptasambönd, hafa kannski náð í viðskiptasambönd gegnum það sem er frjálst og leyfilegt að flytja inn, náð sér í umboð, geta líka selt inn á markaði beint, en þeir fá það ekki nema með einhverju leyfi eða a.m.k. háð leyfi. En að flytja inn virðist ekki vera háð slíkum leyfum. Margir spyrja hvort í þessu geti falist að stundum sé einhvers konar hagsmunagæsla sölusamtaka sem ekki lengur eru með vaxtarbrodd og lífið í sér, hafa trénað eins og oft kemur fyrir bestu stofnanir og besta fólk.

Hv. 1. þm. Vestf., fyrrv. viðskrh., spurði: Hverjir ættu að selja ef þessi samtök hætta að selja? Ég held að það sé ekki um að ræða að þau hætti að selja. Það er spurningin hvort þessi samtök, SH, SÍF og SÍS, séu ekki tilbúin að keppa á jafnréttisgrundvelli við aðra. Og maður getur líka spurt: Hvernig fórum við að að selja fiskinn okkar áður en þessi blessuð samtök urðu til? Það er sjálfsagt að draga ekki úr hlutverki og þeim afrekum eða þeirri vinnu sem þessi samtök hafa oft og tíðum unnið, en í dag er hægt að tryggja góðar sölur án afskipta þeirra.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. talaði lengi og hann spurði m.a.: Hvað hefur verið í ólagi með utanríkisþjónustuna? Ég hugsa að það hafi kannski ekki verið mikið í ólagi með hana. Þarna hafa verið gegnir og góðir menn. En ég held að skipulagið sé löngu úrelt og miðist nánast við þarfir Viktoríutímans. Sama má kannski segja um viðskrn., að það hefur ekki brotið sig út úr fyrri reynslu og ekki náð að aðlaga sig örri þróun sem orðið hefur á heimsmarkaðnum.

Hér talaði hv. 17, þm. Reykv., talsmaður frelsisins í orði, og ég vona að þessi fyrirvari, sem hann gerði þarna, þýði að hann sé talsmaður frelsisins á borði líka. Ég á ekki von á öðru.

Það kom fram hérna, ég held að það hafi verið frá hv. 4. þm. Norðurl. e., í sambandi við Norðurlöndin, hann nefndi Finna, að frv. væri ekki í anda þess sem þar hefði gerst. Ég held að það sé rangt. Að vísu er frv. fyrst og fremst formbreyting sem veitir nýja undirstöðu. En mér er vel kunnugt um hvernig Finnar hafa náð gífurlegum árangri m.a. vegna þess að það er langt síðan þeir fóru að skipa sérstaka viðskiptafulltrúa við sendiráðin sín. Nú starfa þar, eftir þeim upplýsingum sem ég fékk í sumar sem leið, um 18–20 sérhæfðir viðskiptafulltrúar, dreifðir um allan heim, sem veita upplýsingar og aðstoða við að ná sölusamningum. Svo hafa þeir gengið enn þá lengra. Þeir eru byrjaðir á nýrri bylgju. Þeir ráða sérstaka tæknimenntaða fulltrúa sem hafa góða þekkingu á þeirri tækni og upplýsingamiðlun sem fer á milli um kaup og sölu á hugviti. Ég held að það séu þegar 8 eða 10 manns sem starfa við sendiráðin að þessu. Ég held að að þessu samanlögðu sé frv. spor í rétta átt.

Virðulegi forseti. Með þeim fyrirvörum sem ég hef gert lýsi ég mig fylgjandi frv.