07.12.1987
Neðri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í B-deild Alþingistíðinda. (1117)

40. mál, Útflutningsráð Íslands

Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Afstaða 2. minni hl. kemur fram á þskj. 194. Það er svohljóðandi, með leyfi forseta: „Undirritaður getur ekki mælt með að frv. þetta verði gert að lögum og leggur til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Um rökstuðning fyrir þessari afstöðu vísast til nál. 2. minni hl. um frv. til l. um útflutningsleyfi á þskj. 193.“

Um það mál, virðulegi deildarforseti, hefur nú þegar staðið allítarleg umræða sem efnislega kemur í raun í staðinn fyrir það sem segja mætti eða segja þyrfti um þetta mál. Þó að þau snerti að vísu mismunandi framkvæmdaatriði sem tengjast utanríkisviðskiptum er ástæðan í báðum tilfellum sú kerfisbreyting, sem stendur til að gera, að færa utanríkisviðskipti til utanrrh. og eiga því við öll hin sömu rök þegar rædd er sú kerfisbreyting og þegar hafa verið tíunduð hér og koma fram, eins og áður segir, í nál. 2. minni hl. á þskj. 193.