08.12.1987
Efri deild: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

181. mál, stjórn fiskveiða

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Síðustu orð hv. þm. Júlíusar Sólnes voru að þetta frv. þjónaði ekki hagsmunum allra þjóðarinnar. Það er auðvitað öldungis rétt. En það er líka rétt í þessu máli að það verður aldrei lagt fram frv. sem allir telja að þjóni hagsmunum sínum. Það er einfaldlega ekki hægt vegna þess að í þessu máli rekast á hagsmunir. Það sem er einum í hag telur annar sér í óhag. Þess vegna verður aldrei gert í þessum efnum það lagafrv. sem sé svo búið að öllum líki. Það er eðli þessa máls og þess vegna hlýtur það að vera meginmarkmið í öllu því starfi sem unnið er í kringum þetta að finna þann samnefnara sem flestir geta bærilega unað við.

Það hefur verið lögð veruleg vinna í undirbúning þessa máls áður en það kemur inn á hið háa Alþingi og getur vel verið að hún hefði mátt vera meiri og sjálfsagt hefði hún mátt vera betri og hún hefði sjálfsagt líka þurft að taka töluvert lengri tíma. En hingað er þetta mál nú komið og þótt illt sé svo að þurfa að segja er auðvitað skammur tími til stefnu og kannski ekki margra kosta völ um verulega róttækar breytingar vegna þess að til þess þyrfti miklu lengri tíma til að jafna ágreining en nú er til umráða. Kostirnir eru því ekki margir. Ef menn vilja ekki að það verði með öllu reglulaust og löglaust í þessum efnum um áramót munu menn hér koma sér saman um að setja reglur þó að menn uni þeim mismunandi vel. Það er í rauninni ekki ágreiningur um það hér að fiskveiðum þurfi að stjórna. Ágreiningurinn er um hvaða kerfi skuli nota og með hverjum hætti þetta skuli gerast.

Ég ætla aðeins, herra forseti, að víkja að undirbúningi og aðdraganda þessa máls. Það var ekkert launungarmál og er ekki, að þegar þessi ríkisstjórn var mynduð urðu töluvert miklar umræður um hvernig sjávarútvegskaflinn í hennar starfsáætlun skyldi vera. Að lokum náðust þó sættir um orðalag sem allir töldu sig geta unað við, en það er svo, með leyfi forseta:

„Fiskveiðistefnan verður tekin til endurskoðunar og stefna mörkuð sem taki gildi þegar í upphafi næsta árs. Endurskoðunin verður falin sérstakri nefnd sem hafi samráð við helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi og fiskiðnaði, svo sem fulltrúa útgerðar, fiskvinnslu, sjómanna, fiskvinnslufólks og sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar. Nefndin mun m.a. taka afstöðu til eftirfarandi atriða“ og þar er upp talið, ég hirði ekki um að vitna til þess orðrétt, hvernig og hverjum veiðiheimildir skuli veittar, hvernig taka megi aukið tillit til byggðasjónarmiða, auka athafnafrelsi og svigrúm til endurnýjunar í sjávarútvegi. Hvers konar reglur skuli setja um færslu veiðiheimilda milli aðila og hve lengi meginreglur um stjórn fiskveiða skuli gilda. Þetta eru þau atriði sem upp eru talin í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar varðandi sjávarútveg og stjórn fiskveiða.

Hér er held ég rétt að geta þess að síðan voru á því nokkuð ólíkar skoðanir hjá hæstv. sjútvrh. og okkur sumum sem styðjum ríkisstjórnina hvernig bæri að túlka þetta ákvæði starfsáætlunarinnar. Við litum svo á að hér ætti að skipa sérstaka nefnd sem síðan hefði samráð við þá aðila sem upp eru taldir. Sjútvrh. kaus hins vegar að fara svipaðar leiðir og áður hafa verið farnar, þ.e. að skipa stóra samráðsnefnd hagsmunaaðila þar sem fulltrúar þingflokkanna áttu einnig sæti þó á öðrum nefndarmönnum væri stundum að heyra í þeirri ágætu nefnd að þingmenn væru þar ekki til mikillar þurftar öllum stundum og ekki öllum að skapi. En síðan skipaði hæstv. ráðherra aðra nefnd, sem í áttu sæti fulltrúar þingflokkanna, til þess að fjalla um þessa endurskoðun. Allt var þetta gert í tímaþröng og kannski varð ekki eins mikið úr störfum síðarnefndu nefndarinnar og ætlunin var. Hún hélt ekki mjög marga fundi. Ég er ekki að segja að þar hafi sérstaklega verið við ráðherrann að sakast heldur hef ég grun um að tilnefningar af hálfu sumra þingflokkanna hafi komið nokkuð seint til sögu. En þarna var sem sagt meiningarmunur sem ekki skiptir kannski lengur öllu máli, en við töldum að þarna hefði átt að fara öðruvísi að.

Síðan er það alkunna að töluverðar umræður urðu í stjórnarflokkunum um drög að því lagafrv. sem hér er nú verið að ræða. Þingflokkur Alþfl. var þar með tillögur til breytinga. Mér er ljúft að votta það hér, eins og frv. ber raunar merki, að það var tekið mjög verulegt tillit til þeirra breytinga sem við óskuðum eftir að kæmu fram.

Þar nefni ég í fyrsta lagi 1. gr. frv. þar sem er yfirlýsing um að fiskistofnarnir á miðunum séu sameign þjóðarinnar og markmið þessara laga sé að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu.

Ég nefni líka ákvæði til bráðabirgða, sem fylgir þessu frv., sem við teljum mikils virði, en það tryggir að okkar mati að áfram verði unnið af krafti við að móta fiskveiðistefnu til frambúðar og hvernig þessum málum skuli stjórnað. Mér þóttu þessi frumvarpsdrög taka verulegum breytingum til bóta þegar komið hafði verið til móts við þessar tillögur okkar.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns verður alltaf ágreiningur um mál af þessu tagi. Annað væri óeðlilegt. Það eru ýmis atriði í sambandi við þetta kerfi sem ég á ákaflega erfitt að sætta mig við. Það er erfitt að horfa upp á menn ár eftir ár selja fiskinn í sjónum hafandi ekki gert nokkurn skapaðan hlut til að ávinna sér þann rétt að hafa kannski milljónatekjur fyrir nánast ekki neitt, fyrir alls ekki neitt. Siðfræðina á bak við það skil ég ekki og þess vegna finnst mér það siðlaust.

Annað atriði, sem þetta kerfi hefur líka haft í för með sér, er verðhækkun skipa umfram það sem mætti kalla „raunvirði“. En þegar skip hefur svo og svo mikið í kvóta skiptir ekki máli lengur hvernig skipið er, hvað það er gamalt eða hvernig það er búið. Það er allt annað sem skiptir máli.

Það hefur mikið verið deilt hér um það sem er nú 10. gr. þessa frv., þ.e. veiðar smábáta. Hún hefur tekið breytingum til bóta. Ég er ekki viss um að hún sé alveg nógu góð enn þá. Mín skoðun er sú að það hefði átt að gefa krókaveiðar allra minnstu bátanna alveg frjálsar og banna þeim netaveiðar í ríkara mæli en hér er gert. Hins vegar tek ég undir það, sem ég heyrði hæstv. sjútvrh. segja í ræðu sinni, að það er ótækt í þessu landi að setja þá reglu að menn geti ekki eignast litla bátskel sjálfum sér til ánægju sem er ekki ætluð sem stórvirkt fiskveiðitæki. Ég held að það sé útilokað að setja slíka reglu. Ég heyrði hins vegar að fulltrúi Borgarafl. vildi ganga svo langt að banna alla endurnýjun á smábátum öðruvísi en að þá færi bátur úr umferð í staðinn. Ég held að það sé bæði óraunhæft og rangt eins og kannski fleira sem þeir ágætu menn segja.

Ég tek undir að það skuli hækkað álag á gámafiskinn. Það hefði að mínu mati mátt vera hærra, en mér er ljóst að það er mikið ágreiningsmál og um þessa tölu mikill ágreiningur.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, hefur frv. tekið verulegum breytingum til bóta og í ljósi þess hvernig tímamörk eru og í ljósi þess að mér sýnist tryggt, ef ákvæði til bráðabirgða nær fram að ganga, að unnið verði skipulega að frekari stefnumótun og breytingum á þessu kerfi á næstunni, þá get ég í stórum dráttum lýst stuðningi við þetta mál eins og það liggur fyrir þó ég hafi efasemdir og fyrirvara um einstök atriði, en hér greinast menn í skoðanahópa með ýmsum hætti. Mér er alveg ljóst að við getum ekki vikist undan því að setja reglur um þessi mál núna og það ber að viðurkenna þá staðreynd.

Að því er varðar þær brtt. sem hv. þrír þm. Alþb. hafa lagt hér fram, þá stefna þær með ýmsum hætti að sömu niðurstöðu og sumt af því sem við höfum verið að segja í þessum efnum. Ég held að þær hljóti að koma til athugunar við frekari endurskoðun þessa máls á síðara stigi, en ég held að þær séu ekki þess eðlis að um þær geti náðst breið samstaða á þeim stutta tíma sem er til stefnu. En ég get ákaflega vel tekið undir ýmislegt sem þar er sagt og tel sjálfsagt og eðlilegt að það verði athugað þegar endurskoðun þessara mála hefst að nýju vegna þess að auðvitað verða þessi mál að vera í sífelldri endurskoðun ef vel á að vera. En ekki held ég að unnt sé að ná samstöðu um þessi mál núna, enda er þetta alveg nýmótað og óathugað og sjálfsagt ætlun þeirra hv. Alþýðubandalagsmanna að sýna þetta og kynna hér frekar en þeir ætlist til að það verði samþykkt.