20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

11. mál, kjarnorkuvopnalaust Ísland

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég hef borið fram fsp. á þskj 11 til hæstv. utanrrh., um kjarnorkuvopnalaust Ísland. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

„Er utanríkisráðherra reiðubúinn að staðfesta þau ummæli sín í Ríkisútvarpinu (sjónvarpi) 13. júní sl. að ályktun Alþingis um afvopnunarmál frá 21. maí 1985, þess efnis að á Íslandi verði ekki kjarnorkuvopn, nái „til bæði friðar- og ófriðartíma“?"

Þetta er tilvitnun, lokaorðin „til bæði friðar- og ófriðartíma“.

Ég hef undir höndum, herra forseti, útskrift frá Sjónvarpinu um ummæli hæstv. ráðherra og ég efast ekkert um að hann standi við þau hér. En ég taldi eðlilegt að þau kæmu einnig fram hér á hv. Alþingi þar sem hér er um hið mikilsverðasta mál að ræða.

Okkur, sem sátum hér fyrir tveimur árum síðan, rekur minni til þess að þá ríkti um það ekki aðeins óvissa heldur voru miklar vöflur á þáv. hæstv. utanrrh., að túlka samþykkt Alþingis og taka undir samþykkt Alþingis þannig að ótvírætt væri að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn. Þetta tengdist einnig umræðum sem hér urðu þegar fram komu upplýsingar um það að ríkisstjórn Bandaríkjanna hefði, fyrr á árum a.m.k., sett niður áætlanir um það að flytja til Íslands kjarnorkuvopn; nánar tiltekið 48 kjarnadjúpsprengjur vegna kafbátahernaðar. Þá voru einnig vöflur á hæstv. ráðherrum í þessu efni. Hæstv. þáv. utanrrh. kannaðist ekki við málið og vildi heldur ekki taka af tvímæli um að samþykkt Alþingis samkvæmt skilningi hans og vilja næði einnig til ófriðartíma.

Því met ég mikils þau orð sem þegar hafa fallið frá hæstv. utanrrh. og vænti þess að hann staðfesti þau hér á eftir.