08.12.1987
Efri deild: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1592 í B-deild Alþingistíðinda. (1130)

181. mál, stjórn fiskveiða

Karl Steinar Guðnason:

Hæstv. forseti. Umræður um það frv. sem hér liggur fyrir hafa verið mjög athyglisverðar á margan hátt. Umræður um stjórn fiskveiða eru það yfirleitt. Ég hef verið víða við slíkar umræður, meðal verkamanna, meðal sjómanna, meðal fiskvinnslufólks, og yfirleitt deilir fólk um hvernig að þessum málum skuli staðið. Ég tala nú ekki um ef rætt er um þessi mál þar sem fulltrúar allra landshluta koma saman. Þá skiptast sjónarmið yfirleitt eftir því í hvaða landshluta menn búa.

Ég verð að segja að ég tel það ganga kraftaverki næst að tekist hafi samkomulag hjá sjómannasambandi og meðal útvegsmanna um hvernig að þessum málum skuli staðið. Sýnir það að mikil vinna hefur verið lögð í að ná þessu samkomulagi. Hitt er annað mál að yfirleitt er, þegar greidd eru atkvæði um slík mál, fyrir hendi minni hluti, minni hluti sem hefur sínar tilfinningar og skoðanir sem ganga í aðra átt en meiri hlutinn samþykkir.

Ég taldi mig knúinn til að taka til máls eftir að sjútvrh. hafði minnst á stöðu mála á Suðurnesjum, en þar eru þessi mál vissulega rædd eins og annars staðar. Innbyrðis eru menn sammála um hverju menn vilja breyta, en varla eru þeir komnir út fyrir það svæði þegar þeir vilja hafa hlutina öðruvísi.

Í skýrslu Byggðastofnunar frá 17. nóv. sl. kemur fram að á árunum 1982–1986 hefur fiskiskipastóll Suðurnesja minnkað um u.þ.b. 4100 brúttólestir. Þar við bætist að á árinu 1987 hefur fiskiskipastóll Suðurnesja enn fremur minnkað um u.þ.b. 1600 brúttólestir. Minnkun fiskiskipastóls Suðurnesja á árunum 1982–1987 er u.þ.b. 5700 brúttólestir sem svarar til 10–12 minni skuttogara. Þetta sýnir mjög vel í hvert óefni sjávarútvegur og atvinnulíf á Suðurnesjum er komið. Það er einmitt kjarni málsins. Því er ekki furða að fólk þar syðra telji að vegið hafi verið að því með stjórnun fiskveiða eins og hún hefur verið á undanförnum árum.

Við höfum gagnrýnt þá skiptingu í norður-suður svæði sem átt hefur sér stað og við höfum gagnrýnt að skip eða togarar skuli geta aukið við aflamagn sitt einungis við það að skipið er selt að sunnan og norður. Ef svo heldur áfram sem hér er komið endar það með því að sjávarútvegur á Suðurnesjum er dæmdur til þess að leggjast af. Finna verður leið til að koma í veg fyrir þetta til þess að menn geti stundað útgerð frá þessum stöðum af sama þrótti og áður. Sú var tíð að sjávarútvegur á Suðurnesjum var vaxtarbroddur sjávarútvegsins hér á landi og það er ekki ætlun okkar þar að leggja sjávarútveg af. Nú síðustu tvö árin hefur atvinnuleysi ekki hrjáð byggðarlögin hér syðra, en fyrir tveimur árum voru allt að 400 manns meira og minna atvinnulaus allt árið og segir það þá sögu að sjávarútvegurinn er þar í kreppu. Ég vænti þess að það takist samkomulag um að finna leið út úr þessum ógöngum. Mér er ljóst að svona er komið hjá fleirum. T.d. á Patreksfirði er vandamál hversu skipin fara þaðan í burtu og finna verður leið til að hamla þar á móti.

Mig langar til fróðleiks að geta þess að þrátt fyrir þessa minnkun eru ársverk í sjávarútvegi í Keflavík einni aðeins meiri en á Eskifirði og Hornafirði til samans. Ársverk í Sandgerði eru fleiri en í Bolungarvík. Í Grindavík eru ársverk fleiri en í stærstu sjávarútvegsplássum annars staðar. Svona mætti telja um önnur byggðarlög þar syðra. Enn er svo komið þrátt fyrir þessa minnkun. Ég óttast að ef ekkert verður að gert fari svo að atvinnukreppa muni gera vart við sig áður en langt um líður. Nú síðustu árin hafa menn byggt á framkvæmdum sem hafa staðið í sambandi við varnarliðsframkvæmdir, en þær eru vissulega stopular og erfitt fyrir fólkið sem vinnur í sjávarútveginum að þurfa að byggja á því þegar að kreppir annars staðar og getum við ekki við það unað því aldrei er að vita hvenær það breytist. Ef svo færi að aðstæður breyttust varðandi utanríkismál og stöðu varnarliðsins er viðbúið, ef ekki verður séð fyrir því að sjávarútvegurinn standi í blóma þar syðra, að það verði þar eyðimerkurástand í atvinnulegu tilliti.

Ég ætla mér ekki að tala eins og sumir hafa gert, haldið langar ræður um hversu ægilegt kerfi það er sem menn eru hér að koma á eða samþykkja á ný. Það hafa menn gert hér og greiða þessu svo atkvæði. Það mun ég ekki gera. Ég geri mér ljóst að við verðum áfram að vera í þessu kvótakerfi. Það verður að stjórna fiskveiðunum og galdurinn er sá að finna leiðir sem flestir geta verið ásáttir um. Það er ekkert óeðlilegt að menn deili um þessa hluti og auðvitað deila menn í flokkunum líka. Það er ekki langt síðan Alþb. t.d. var verklofið í þessum málum. Við erum það í Alþfl. Ég veit að svoleiðis er það í Sjálfstfl. Sjálfsagt er aðeins ein rödd í Framsfl. sem markast mikið af því að ráðherra sjávarútvegsmála kemur þaðan.

En menn verða að finna leiðir. Í samsteypustjórnum er það svo að menn verða að ná sáttum til að geta komið málum fram. Og auðvitað munum við gera svo. Það hvernig við alþýðuflokksmenn höfum staðið að málum markast einmitt af því að við ætlum okkur að ná sáttum, sáttum sem við getum við unað.

Í ræðu hv. 7. þm. Reykv. áðan gerði hann lítið úr því að í 1. gr. frv. er tekin inn sú grein að fiskistofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar, en þetta er einmitt ákvæði sem hefur verið fellt fyrir okkur undanfarin ár. Við teljum þetta þýðingarmikið atriði og reyndar er það svo að í tillögum Alþb. er þess getið einnig.

Það kom og fram í máli hv. 7. þm. Reykv. að þetta væri innantómt ef ekki væri neitt um það fjallað í framhaldinu. Mér sýnist að svo sé einnig hvað varðar tillögur Alþb.

Þegar menn tala um að auðlindirnar séu þjóðareign eru menn að staðfesta að þetta fjöregg okkar sé nokkuð sem við öll lifum á. En varast ber að gera lítið úr hlut útvegsmanna og sjómanna við mótun þessarar stefnu og það að hafa áhrif á hana. Auðvitað verða það alltaf útgerðarmenn og sjómenn sem sjá um að ná fiskinum á land. Við breytum því ekki þannig að ekki er óeðlilegt að þeir hafi mest um þetta að segja þó við sættum okkur ekki við það að hlíta fyrirsögn meiri hlutans á þingum þeirra alfarið.

Ég get tekið undir ýmislegt af því sem er í tillögum Alþb., ég verð að játa það, enda höfum við (Gripið fram í: Það er nú ekki gott að játa það.) oft átt samleið í þessum efnum. En ég endurtek að það er mín skoðun að við verðum að ná samkomulagi milli okkar, við sem stöndum að ríkisstjórn, og að því mun ég standa.

Eitt af þeim atriðum sem eru í tillögum Alþb. er að felld verði niður ákvæði um árafjöldann sem þessi stjórnun skuli gilda. Ég er mjög inni á því að það sé rangt að samþykkja fiskveiðistefnu til eins og eins árs í senn. Fjögur ár eru það tímabil sem er það minnsta sem vit er í vegna þess að menn hafa komist að því að sé sífellt verið að hringla í þessum málum eykur það fjárfestingu, óstöðugleiki verður í greininni og veldur hvers konar vandræðum, væntingum um breytingar sem ekki síðan verða, og verður eins og ég gat um til mikillar óþurftar. Ég get fyllilega samþykkt gildistíma í fjögur ár og jafnvel lengur svo framarlega sem næst samkomulag um aðra þætti.

Ég tel ástæðulaust að fara frekar ofan í þessi mál á þessu stigi málsins, en ég vildi með þessum orðum mínum leggja áherslu á að það er mikil nauðsyn á því að finna leið til þess að heilir landshlutar missi ekki af sínum skipum, sínum atvinnutækjum, sínu atvinnulífi. Það verði unnt á þessum svæðum að hafa áfram blómlegan sjávarútveg. Til þess eru að öðru leyti fullir burðir. Og ég vænti þess að samkomulag náist um það. Þetta á ekki aðeins við um Suðurnesin. Þetta á við um önnur byggðarlög líka, ég minntist sérstaklega á Patreksfjörð í því efni, og vænti ég þess að það takist að sjá til lands í þeim efnum.