08.12.1987
Efri deild: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1594 í B-deild Alþingistíðinda. (1131)

181. mál, stjórn fiskveiða

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða efnislega margt af því sem hér hefur komið fram þótt full ástæða sé til þess. Mér er alveg ljóst að það er ekki einhlítt að setja reglur í sambandi við fiskveiðistjórnina og um það má lengi deila með hvaða hætti það skuli gert. Hitt er þó í reynd merkilegt að það sem hér hefur komið fram og þær brtt. sem hafa verið fluttar eða boðaðar byggja á því að setja ákveðna kvóta á fiskveiðarnar. Með þeim hætti eru tillögur Alþb. og Kvennalistans jafnframt. Það segir þá sögu að mínu mati að mönnum verður æ ljósara að hagkvæmar fiskveiðar verða ekki reknar nema með slíkum hætti. Hins vegar eru um það skiptar skoðanir með hvað hætti þessum veiðiheimildum skuli skipt. Það kemur fram í tillögum Alþb. að það skuli gert af byggðarlögunum með ákveðnum hætti.

Ég ætla ekki að fara að ræða það efnislega, en þó sýnist mér augljóst að það séu ýmis vandkvæði því samfara, ekki síður en að skipta með þeim hætti sem nú er. Ég óttast það, ef slíkt á að gerast að byggðarlögin verði meir og meir látin um að skipta aflanum, að það muni verða til þess að um málið verði enn meiri deilur en nú eru. Við megum aldrei gleyma því að við erum nú einu sinni fámenn þjóð í stóru landi sem verður að reyna að koma sér saman um þetta mál en ekki að efna til margvíslegra átaka milli byggðarlaga.

Ég vildi þá víkja að því sem til mín hefur verið beint, en það var aðallega frá hv. þm. Svavari Gestssyni. Hann spurði um þau ákvæði er varða sektir og refsingar í sambandi við þetta mál. Nú er það í sjálfu sér ekki byggt á þessu frv. sem slíku heldur á lögunum um upptöku á ólöglegum sjávarafla frá árinu 1976 sem er annað mál þó það tengist að sjálfsögðu þessu máli. Þessi lög hafa verið skilvirk að mati þeirra manna sem að þessu hafa unnið og er að sjálfsögðu mjög mikilvægt atriði í öllu réttarfari, hvort sem það varðar þetta mál, skattamál eða önnur mál. Um það hefur t.d. verið deilt hvort ákvæði skattalaga og annarra laga séu nægilega skilvirk í þessu sambandi og hvort ekki sé rétt að auka þá skilvirkni. Um þetta höfum við hv. þm. Svavar Gestsson nýlega rætt í þessari deild og ég m.a. lýst því yfir að ég hafi skipt um skoðun í því máli, en ég taldi áður að það ætti fyrst og fremst að vera innan hins almenna dómskerfis.

Hitt er svo annað mál að auðvitað mega ákvæði ekki vera með þeim hætti að réttaröryggi sé fórnað og hér er erfitt að feta hinn rétta veg í þessu máli sem öðrum, en ég fullyrði að hér hafi það ekki gerst. Ég tel hins vegar að það sé mikilvægt að aðilar geti treyst því í eins miklum mæli og hægt er að slíkt gerist ekki, að það sé sjálfsagt að líta á lög um upptöku á ólöglegum sjávarafla frá 1979 og taka þau til endurskoðunar og athugunar. Það mál hefur að sjálfsögðu verið rætt innan sjútvrn. og við höfum þegar undirbúið að slík vinna fari fram, að þessi lög séu tekin til athugunar. Þau eru orðin yfir tíu ára gömul og þess vegna eðlilegt að á þau sé litið að nýju. Að öðru leyti ætta ég ekki að ræða þetta mál hér.

Ég vildi aðeins koma því á framfæri að þær tölur sem hér hefur verið farið með að því er varðar afla á Vestfjörðum eru samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið ekki réttar. Það er nú svo að það er ekki alltaf auðvelt að fá nákvæmar tölur í þessu sambandi vegna þess að inni í aflanum er útflutningur á ferskum fiski og þeim sundurliðunum er ekki haldið til skila hjá Fiskifélaginu með jafnnákvæmum hætti og þeim afla sem landað er í fjórðungunum. En samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá Fiskifélaginu er hlutdeild Vestfirðinga í heildarþorskafla 15,7% 1980, 14,2% 1981, 14,5% 1982, 15,8% 1983, 17,8% 1984, 17% 1985 og 16,1% 1986. Ég mun að sjálfsögðu fá þessar tölur staðfestar þannig að þær geti legið réttar fyrir þeirri þingnefnd sem um málið fjallar, en þær sýna að hér hefur ekki orðið mikil breyting á. Fyrst eftir að fiskveiðistjórnuninni var komið á með þeim hætti sem nú er jókst hlutdeild Vestfirðinga í prósentum talið. En á það er að sjálfsögðu að líta að hér hafa orðið miklar sveiflur í aflanum.

Ef þessar tölur væru festar með þeim hætti við byggðirnar eins og hér hefur verið vikið að má að sjálfsögðu spyrja hvort það sé hin endanlega trygging fyrir viðkomandi byggðir sem menn tala um. Hér hafa verið nefnd ákveðin byggðarlög í því sambandi, t.d. Patreksfjörður. Á Patreksfirði hafa verið miklir erfiðleikar og eru enn. En ég tel að það verði að horfa á þá erfiðleika í réttu ljósi. Þeir hafa vissulega misst frá sér skip, en það var þó aðallega áður en sú fiskveiðistjórnun, sem er rekin nú, var tekin upp. Það var á árunum fyrir 1983. Það eru skip í erfiðleikum á þeim stað í dag. það sem mestu skiptir fyrir það byggðarlag er að halda þeim fiskiskipum sem þaðan eru gerð út í dag og reyna að koma því til leiðar að svo geti orðið en ekki vera í þessum endalausu umræðum um þau fiskiskip sem fóru þaðan fyrir 1983. Það er nauðsynlegt að þau mál séu rædd, en miklu mikilvægara fyrir það byggðarlag að halda utan um þau skip sem þar eru núna sem eru allafkastamikil tæki, en ef þeir misstu eitthvað af þeim skipum sem nú eru þar hefði það ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir það byggðarlag.

Menn hafa rætt allmikið að það séu ákveðin byggðarlög í landinu sem hafi orðið fyrir miklum búsifjum og þar liggi við að upplausnarástand sé. Ég leyfi mér að fullyrða að það sé ekki svo sem betur fer í neinu byggðarlagi í landinu að þar sé neyðarástand sökum þess að þar vanti fiskiskip og atvinna sé þar lítil. Mér hefur ekki verið bent á það. Hins vegar hafa margir lent í miklum erfiðleikum, m.a. á Suðurnesjum. En það er rangt að rekja þau mál til fiskveiðistjórnunarinnar. Ég tel það alrangt og villandi og til þess fallið að það sé ekki tekið á þeim málum sem þar koma upp með réttum hætti.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég vænti þess að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar fái þær upplýsingar sem hún telur nauðsynlegar og vonast til þess að nefndirnar geti hraðað störfum sem mest og hafið vinnu að þessu mikilvæga máli sem allra fyrst.