08.12.1987
Efri deild: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1598 í B-deild Alþingistíðinda. (1133)

181. mál, stjórn fiskveiða

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Ég geri örstutta athugasemd varðandi það sem hv. 4. þm. Vesturl. spurði um varðandi tillögu okkar um viðmiðun við úthlutun veiðileyfa, en þar segir „með hliðsjón af afla“. Ég sagði áðan í máli mínu að þetta væri grunnstefnumótun okkar í þessu máli og má vel vera að það vanti nánari útfærslur í einstaka tilfellum. Það gæti t.d. komið til greina að aflaskýrslur skipa hefðu ákveðið að segja í þessu efni.

Í sambandi við heimildir sveitarstjórna er gert ráð fyrir því að sveitarstjórnum sé nokkuð í sjálfsvald sett hvernig að úthlutun verður staðið, en sveitarfélög eru nú þegar í formlegu samstarfi og væntanlega munu þau taka upp samstarf sín á milli þannig að samræmi verði í þeim þáttum sem nauðsynlegir eru án þess að þeim sé slíkt uppálagt í þessum tillögum.