08.12.1987
Neðri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

Fjarvistir þingmanna og afgreiðsla mála

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það var sannarlega ekki að tilefnislausu sem hv. 4. þm. Norðurl. e. kvaddi sér hljóðs áðan um þingsköp.

Ég sé ástæðu til þess núna, þegar ekki er neitt á dagskrá deildarinnar sem hægt er að taka fyrir, að inna hæstv. forseta eftir því hvernig gert er ráð fyrir að haga fundahöldum hér á Alþingi og í þessari hv. þingdeild næstu tvær vikur eða þangað til að Alþingi fer í jólaleyfi. Liggur það fyrir hvernig menn hyggjast haga hér störfum? Hvaða mál eru það sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að reyna að freista að fá lögfest í þinginu? Og með hvaða hætti er fyrirhugað að störfum deildarinnar verði hagað?

Ég held að það hljóti að vera fleiri en ég sem hafa áhuga á því að vita eitthvað í hvað stefnir að þessu leyti. Og ég tel að okkar tíma væri vel varið nú í nokkrar mínútur til þess að fá upplýsingar um það og skiptast á skoðunum um það efni.