20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

11. mál, kjarnorkuvopnalaust Ísland

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Svar mitt getur í raun verið ákaflega stutt. Ég er að sjálfsögðu tilbúinn að staðfesta þessi orð. Rétt er þó að ég færi að því nokkur rök.

Það er margyfirlýst stefna okkar Íslendinga, að hér á landi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn, það hafa fjölmargar ríkisstjórnir gert. Reyndar höfum við tekið fram sem svar við fyrirspurn erlendis frá að við ákveðum sjálfir hvaða vopn verða hér staðsett. Það gerði Hermann Jónasson í svari við bréfi frá leiðtoga Sovétríkjanna, Bulganin, á sínum tíma. Ég vek einnig athygli á því að í þál. þeirri, sem samþykkt var á Alþingi 25. maí 1985, segir: „Um leið og Alþingi áréttar þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn, hvetur það o.s.frv.“ Þar er enginn fyrirvari. Þar segir aðeins að ítrekuð sé sú fyrri stefna að hér verði ekki kjarnorkuvopn. Ég vek einnig athygli á því að skýrt er tekið fram að það varnarlið sem er hér er til eftirlits og varnar en ekki til árása. Þetta kemur greinilega fram í samningum okkar við Atlantshafsbandalagið og Bandaríkjamenn. Raunar er óþarft að hafa um þetta fleiri orð.

Ég get út af fyrir sig viðurkennt, sem komið hefur fram, að komi til ófriðar þá er að sjálfsögðu þeirri ríkisstjórn og því Alþingi sem þá situr í lófa lagt að breyta þessu ef það óskar.

Mér þykir þó rétt að upplýsa til fróðleiks að í þeim samþykktum sem gerðar hafa verið hjá nágrönnum okkar, t.d. Dönum og Norðmönnum, er yfirleitt tekið fram að slík ákvörðun eigi við friðartíma. Í norskum þingtíðindum, eða „Utredninger“ eins og þar er kallað, og skýringum á þeirra öryggismálum, er skýrt tekið fram að kjarnorkuvopn verði ekki á norskri grund á friðartímum. Við höfum fellt þetta orð niður og ég hef hvergi fundið það í yfirlýsingum okkar Íslendinga.

Ég skal ekki lengja þetta mál. Ég staðfesti það sem ég hef áður sagt að mér sýnist að allar gerðir, öll orð, allt sem frá okkur hefur komið sé afdráttarlaust og geri engan greinarmun á friðar- eða ófriðartímum.