08.12.1987
Neðri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1603 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

Fjarvistir þingmanna og afgreiðsla mála

Forseti (Jón Kristjánsson):

Varðandi þingstörf þær vikur sem eftir eru til jóla, sem eru ekki nema tvær, skal þess getið að hér má búast við miklu annríki, og er það reyndar ekki nýtt í þessari hv. deild. Einmitt vegna þess er sérstaklega áríðandi að þingfundir gangi greiðlega fyrir sig. Og ég ítreka enn það sem ég sagði áðan í því efni. Fundur þingforseta og þingflokksformanna verður á morgun þar sem farið verður yfir stöðuna. En að öllu óbreyttu ætti að vera tími í dag til þess að klára þau mál sem eru á dagskrá ef mætingar hv. þm. eru með þeim hætti að hér er hægt að láta mál ganga greiðlega fram. Hér verður farið yfir stöðuna á morgun og þá mun liggja enn glöggar fyrir hver framvinda mála verður þá daga sem eftir eru til jóla.