08.12.1987
Neðri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1604 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

Fjarvistir þingmanna og afgreiðsla mála

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir það sem hér hefur komið fram. Það er ekki nýtt að stjórnarandstaðan sé fyrst og fremst til staðar til þess að greiða fyrir afgreiðslu ríkisstjórnarmála, en nú tekur fyrst steininn úr. Sjaldan hafa þau meginmál sem Alþingi ber að afgreiða fyrir hver áramót verið eins seint á ferðinni og nú, en klukkan 14.17 voru staddir hér í salnum fjórir þm. Framsfl., tveir þm. Alþfl. og þrír fulltrúar Sjálfstfl. fyrir utan hæstv. forseta og ritara hans tvo.

Ég hlýt að biðja hæstv. forseta að komast að því hjá ríkisstjórninni hvort einhver ástæða sé fyrir þessu, og þá á ég við hvort þetta er vegna andstöðu við þau mál sem hér eru á dagskrá eða hvort þetta er hrein og klár vanræksla þm. við störf sín. Ég held að það hljóti að vera einsdæmi að í upphafi þingfundar sé ekki hægt að ná í gegn tveimur veigamiklum málum ríkisstjórnarinnar í 3. umr.

Ég legg þess vegna til, hæstv. forseti, að þessum fundi verði frestað og boðað til þingflokksfunda þar sem menn ræði um hvort við megum búast við þessu ástandi mála fram til jólahlés. Ég sé ekki ástæðu til þess fyrir okkur stjórnarandstæðinga að sitja hér á öllum þingfundum ef það dugar ekki einu sinni til að greiða fyrir málum ríkisstjórnarinnar. Ég legg til, hæstv. forseti, að það verði samstundis boðað til þingflokksfunda og þessum fundi frestað um sinn.