08.12.1987
Neðri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1610 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

40. mál, Útflutningsráð Íslands

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er svo sem góðra gjalda vert að hæstv. ráðherra beri fram frómar óskir um skjóta afgreiðslu mála trekk í trekk þegar að þau ganga svo stirðlega fram sem raun ber vitni, ekki síst vegna fjarvista hans eigin flokksbræðra úr þingsölum. Ég hef efnislega ekki miklu við þá umræðu að bæta sem hér fór fram í gær um þessi mál og þessa kerfisbreytingu, og vil ekki tefja tíma þingdeildarinnar með því að fara að endurtaka það. En ég hlýt að segja að ég harma það að ekki skuli vera orðið við óskum um að því verði frestað að afgreiða bæði þessi mál frá deildinni, þangað til að hæstv. utanrrh. getur mætt hér á fundi og setið fyrir svörum. Ég vek athygli á því að þar með verður hæstv. utanrrh. fjarverandi bæði 2. og 3. umr. beggja þessara mála, í þessari þingdeild, og það er að mínu mati óeðlileg afgreiðsla, virðulegur forseti, með tilliti til þess hvaða mál og hvers konar kerfisbreyting er hér á ferðinni.

Ég vil taka það sérstaklega fram að hv. 3. þm. Reykn. er auðvitað alls góðs maklegur, en það er tæpast hægt að vísa til þess að hér sitji inni varamaður fyrir hæstv. utanrrh., óbreyttur hv. þm., og ætlast til þess að það komi í stað þess að hér sitji hæstv. utanrrh. sem slíkur fyrir svörum. Þó ég efist ekki um það að hv. þm. Níels Árni Lund hafi gott vit á þeim málum sem hér eru til umræðu. En það er ekki það sem málið snýst um. Hér hefur sá ráðherra sem á að taka við þessum málum verið fjarverandi við afgreiðslu beggja þessara mála, og það er ekki unnt að verða við óskum um að fresta afgreiðslu þeirra úr deildinni þangað til hann mætir hingað.

Ég get því enn síður en áður lagt til, virðulegur forseti, að þessi mál verði samþykkt með allt það í huga sem á undan er gengið, og mun því leggja til við mín flokkssystkini að þau greiði atkvæði gegn þessu frv.