08.12.1987
Neðri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1610 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

40. mál, Útflutningsráð Íslands

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Ég vildi taka undir seinasta hluta í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e., þar sem hann fór þess á leit að þetta mál yrði ekki afgreitt fyrr en hæstv. utanrrh. væri viðstaddur og gæti tekið þátt í umræðum.

Það hefur margkomið fram hér í þessum umræðum um bæði þessi dagskrármál, það sem fyrr var afgreitt hér, útflutningsleyfi, og það sem nú er hér á dagskrá, Útflutningsráð Íslands, að menn hafa nokkuð fjallað um það fram og aftur. Annars vegar form þessara mála og hins vegar efni. Nú nýverið var tekin efnisleg afstaða hér í deildinni um efni fyrra málsins og það var út af fyrir sig góðra gjalda vert. En það hefur líka komið fram hér í umræðum um bæði þessi mál að það sem knúði menn til þessara breytinga hafi verið t.d. hagræðingarsjónarmið og annað þvíumlíkt. En auðvitað er kjarninn í þessum efnum sá að hæstv. ríkisstjórn var sett á laggirnar á sl. sumri og þá kom upp sú staða að það þurfti að ná samkomulagi og þetta atriði sem hér er verið að lögleiða er eitt af þeim atriðum sem var til lykta leitt í þeim samningum. Ég gagnrýndi það hér í gær og taldi það óeðlilegt með öllu að breyting á stjórnskipunarlögum ríkisins eða lögum um stjórnarráð bæri að með þeim hætti að það væri samkomulag fárra manna á miðju sumri sem væru að koma ríkisstjórn á laggirnar sem væri undanfari slíkrar lagasetningar sem hér er um að ræða.

Menn hafa sagt hér að það sé ekki efni málsins sem sé verið að taka afstöðu til. Það er verið að taka afstöðu til þess að framlengja sama innihald þessara laga og verið hefur hér um árabil. Ég hef ásamt ýmsum félögum mínum hér í hv. þingdeild tekið þátt í því að reyna að breyta því inntaki og því efni. En þar sem hæstv. utanrrh. er nú fjarverandi og hefur ekki getað tekið þátt í umræðu eða í því að fylgja þessu máli fram hér í hv. deild, þá vil ég enn og aftur taka undir þau orð hv. 4. þm. Norðurl. e. að málinu verði frestað til endanlegrar afgreiðslu þannig að hann geti tekið þátt í afgreiðslu þess.