08.12.1987
Neðri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra tókst allgóð samstaða hér á hinu háa Alþingi á síðasta vetri um afgreiðslu lagafrv. sem tengjast staðgreiðslukerfisbreytingunni. Sú breyting sem slík var í raun studd af flestum sem hér voru þá að störfum. Það samstarf sem þá tókst lýsti sér m. a. í því að milliþinganefnd var skipuð að tillögu sem hv. þm. Svavar Gestsson bar fyrst fram við umræður um þetta mál og fallist var á af hæstv. þáv. fjmrh., Þorsteini Pálssyni.

Rökin fyrir því að skipa milliþinganefndina þá voru fyrst og fremst þau að fjölmörg atriði þyrfti að skoða nánar og að æskilegt væri að nýta sem best tímann frá því að þingið lauk störfum á síðasta vetri og til þess tíma er staðgreiðslukerfisbreytingin sjálf tæki gildi um komandi áramót. Það fór hins vegar svo, eins og þegar hefur verið rætt reyndar í tengslum við annað frv. þessu tengt hér í deildinni, að tíminn nýttist naumast sem skyldi og starf milliþinganefndarinnar komst lítið í gang fyrr en að haustinu. Það er þó engu að síður ljóst að það starf hefur skilað þessu máli mjög langt fram á veginn. Manni dettur í hug að spyrja hversu væri ástatt ef ekki hefði þó komið til starf milliþinganefndarinnar og vaskleg forusta hv. 4. þm. Reykn. sem þegar hefur verið vitnað til.

Engu að síður er ljóst að ýmislegt mætti liggja ljósara fyrir ekki bara hér á hinu háa Alþingi, heldur óttast sá sem hér talar mjög að blessuð þjóðin, þeir sem koma til með að þola hið nýja staðgreiðslukerfi, séu margir hverjir ekki allt of klárir á því hvað þeirra bíði um næstu áramót.

Það er einnig ljóst að nú eru uppi að mörgu leyti aðrar aðstæður í stjórnmálunum hvað varðar skattamálin í heild en voru þegar menn voru að ræða staðgreiðslukerfisbreytinguna á síðasta vetri. Þá lágu a.m.k. ekki fyrir óyggjandi upplýsingar um þær breytingar að öðru leyti í skattakerfinu sem nú eru til. Þá höfðu að vísu verið uppi áform um virðisaukaskatt en um þann skatt voru deildar meiningar, svo sem eins og um sjálfa skattprósentuna. Og mætti hæstv. fjmrh. rifja upp orð sín frá síðasta þingi um það mál í þessu sambandi.

Ég tek það fram að ég er þakklátur hæstv. ráðherra fyrir að opna umræðuna hér með þeim hætti að nauðsynlegt sé að tala um allar skattkerfisbreytingarnar í raun og veru því að þetta mál er einungis hluti af þeim víðtæku breytingum sem fyrir dyrum standa. Það er að sönnu bagalegt að öll þau frumvörp sem þessu tengjast séu ekki fram komin, en verður við það að búa að svo stöddu og væntanlega gerist það á næstu dögum að þau mál koma hér fram.

Ég vil þá byrja, virðulegur forseti, á því að ræða nokkur grundvallaratriði sem ég tel óhjákvæmilegt að taka á og ræða þegar í upphafi þessarar skattalotu hér á hinu háa Alþingi vegna þess að skattbyrðin sjálf á einstaklingana í þjóðfélaginu, sem m.a. er ákveðin með tekjuskattalögum, verður ekki aðskilin. Þar verður tekjuskatturinn sjálfur ekki aðskilinn frá þeirri skattbyrði sem leggst á almenning með óbeinum sköttum og mikið er til umræðu þessa dagana vegna breytinga, sem nýverið hafa verið kynntar af hæstv. ríkisstjórn, á tollum og vörugjöldum og svo síðast en ekki síst á söluskattsinnheimtu.

Það sem ég vil þá fyrst nefna, virðulegur forseti, er auðvitað vinnulagið hér í þessum efnum. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að hv. Alþingi og hæstv. ríkisstjórn hefðu í sameiningu haft fangið nokkurn veginn fullt við það verkefni eitt að afgreiða fjárlög og koma á staðgreiðslugrunni skatta þó annað hefði verið látið bíða. Það er auðvitað alveg ljóst að það flækir málið næstum að segja óendanlega að taka inn undir þessa vinnu sömuleiðis þær geysilegu breytingar sem eiga að verða á neyslusköttunum ásamt ýmsu öðru sem þar er boðað.

Það er að mínu mati ljóst, þó að það dyldist nú furðanlega í framsöguræðu hæstv. fjmrh., að í vændum er þynging skatta í landinu. Í vændum er skattþynging og ég held að það verði ekki hjá því komist fyrir hæstv. ráðherra að viðurkenna það hvort sem honum líkar betur eða verr að í raun og veru er eitt einkenni allra þessara breytinga, og það eru íþyngjandi aðgerðir handa hinum almenna skattgreiðanda 1 landinu, handa þeim skattgreiðanda sem kannski mætti kalla hér við umræðuna meðaljón. Það er vissulega rétt að álagningaráformin í tekjuskattakerfinu eru til bóta fyrir lægst launaðasta fólkið, og ber auðvitað að fagna því, en það er jafnframt ljóst að sú létting sem þar verður, ef svo má að orði komast, er borin uppi af miðjunni, af þeim sem liggja nálægt miðjunni í tekjum vegna þess að hinn endinn, hátekjufólkið, fær líka léttingu út úr þessu. Satt best að segja var það harla vandræðalegt hjá hæstv. ráðherra þegar hann reyndi að afsaka þá augljósu staðreynd, sem verður ekki mislesin í þessu tekjuskattafrv., að tekjuhæstu hóparnir munu hagnast á þessari breytingu. Hæstv. ráðherra vitnaði að vísu til þess að það væri hugsanlega hægt að laga það eða sjá fyrir því með frumvörpum sem yrðu væntanlega lögð fram um fyrirtækjaskatta og eignarskatta. En það sem Alþingi hefur í höndunum til að dæma þessi mál út frá í dag er ótvírætt. Skattbyrðin á hæstu tekjunum mun léttast. Og það er að sínu leyti jafnslæmt og hitt er út af fyrir sig mikið fagnaðarefni að staðgreiðslukerfinu og álagningarformi þess fylgir nokkur hagsbót fyrir lægst launuðu hópana.

Ég vil benda á þá staðreynd að sérstaklega ef verðbólga yrði lækkandi — þegar verðbólga var lækkandi og lægri en hún hafði verið — þá þyngdust skattar þeirra hæst launuðu mest. Þetta kom ágætlega fram í máli hæstv. fjmrh. hér áðan. Það þýðir líka að verði verðbólga lág á næstu árum, sem við skulum vona að geti skeð þó að það líti ekki vel út með það nú undir forustu þessarar ríkisstjórnar, en segjum sem svo að þar rofi nú til í þeim efnum og við sjáum fram á lága verðbólgutölu, t.d. innan tveggja eða þriggja ára, þá er alveg augljóst að þetta kerfi þýðir að hátekjustéttirnar hagnast miðað við það sem ella hefði verið. Þá hefði skattbyrði þeirra þyngst með gamla kerfinu en gerir það ekki í staðgreiðslugrunninum. Þar af leiðandi er alveg ljóst að þó að e.t.v. sé hægt að fullyrða miðað við verðbólgutölur í dag og horfur í þessum málum að þetta sé ekki umtalsvert, þá er ekki gefið að það verði alltaf reyndin.

Það er eitt sem ég vil leggja sérstaka áherslu á og það er sú augljósa staðreynd, ef ég má orða það svo aftur, sem hæstv. fjmrh. tókst þó að mínu mati að komast að mestu leyti fram hjá í framsöguræðu sinni, það er sú mikla skattþynging sem hlýtur að leiða af þessari kerfisbreytingu á fyrri hluta næsta árs. Það er alveg ljóst að þessar breytingar þýða stórkostlega tilfærslu skattbyrðinnar innan ársins, a.m.k. á því ári sem kerfisbreytingin er tekin upp. Og hvers vegna gera þær það? Jú, auðvitað í fyrsta lagi vegna þess að nú hefja menn að greiða skatta sína þegar á fyrsta mánuði ársins sem var áður skattlaus mánuður og þá streyma væntanlega myndarlegar fjárhæðir inn í kassann hjá hæstv. fjmrh. sem ekki komu miðað við fyrra kerfi. Ég vil nefna býsna veigamikinn frádráttarlið í skattakerfinu eins og verið hefur undanfarin ár, vaxtafrádráttinn sem fjöldi manna hefur nýtt sér. Hvernig verður farið með hann í hinu nýja kerfi? Jú, þannig að tekjur manna verða skattlagðar að fullu án tillits til réttar þeirra í sambandi við vaxtafrádrátt og því verður ekki skilað fyrr en á miðju ári eða eftir mitt ár.

Þessar tekjur tekur ríkissjóður sem sagt allar inn til sín langt fram eftir öllu næsta ári. Það mætti nefna fleiri slíka liði sem nú verða skattlagðir að fullu á staðgreiðslugrunni og ekki skilað fyrr en ýmist um mitt ár eða e.t.v. um næstu áramót.

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. í fyrsta lagi: Getur hæstv. ráðherra upplýst okkur um það hversu mikil tekjutilfærsla er hér að eiga sér stað hjá ríkissjóði, hversu mikið ríkissjóður muni hagnast til að mynda vegna síns vaxtaliðar, vegna aukins innstreymis á fyrri hluta ársins og hvort það sé mögulegt að fresta því annaðhvort að skattleggja þessar tekjur framan af gildistökuárinu eða fyrsta árinu sem kerfisbreytingin gildir til þess að af þessu leiði ekki stórfellda skattþyngingu fyrir ýmsa hópa í þjóðfélaginu eða, sem væri auðvitað ákjósanlegra, að taka upp einhverjar skilareglur sem geri það að verkum að hægt sé að endurgreiða þeim sem verða fyrir nýjum fjárútlátum af þessum sökum fyrr en til stendur samkvæmt þeim tillögum sem hér liggja frammi? Ég vona að hæstv. ráðherra hafi skilið hvað ég er að fara og geti þar af leiðandi tjáð sig um það.

Ég vil halda áfram að ræða skattbyrðina sem slíka, ekki bara þá skattþyngingu sem ég tel mig hafa sýnt fram á að geti leitt af þessum breytingum innan ársins sem þá verður skilað, heldur líka almennar skattaálögur í landinu sem ég tel vera að aukast stórlega með þessum breytingum samanlögðum. Og þar vil ég koma að neyslusköttum sem almenningur ber, matarskattinum sem svo er nefndur. Ég aflaði mér upplýsinga um það frá Hagstofu Íslands í morgun hver væri framfærslukostnaður vísitölufjölskyldunnar í augnablikinu. Jú, það var uppgefið að þessi fræga fjölskylda eyddi núna á ári hverju 1 299 379 kr. skv. þessum framfærsluviðmiðunum sem þar eru notaðar. Þetta gera 108 282 kr. á mánuði. Matarliðurinn af þessari framfærslutölu er rúm 22% ef ég man þá tölu rétt. Vægi matarins í þessari framfærslu er slíkt. Og það gerir sem sagt 294 799 kr. á ári. Matarreikningur vísitölufjölskyldunnar er 294 799 kr. Tæpar 300 þús. kr. á ári. Það gerir aftur deilt með 12 24 567 kr. á mánuði. Matarreikningurinn er þá þessi á mánuði fyrir þessa meðalfjölskyldu meðaljónsins og -jónunnar.

Nú liggur það fyrir og hefur verið út gefið að mér skilst af hæstv. fjmrh. sjálfum að matarvörur sem slíkar muni vegna þessara skattkerfisbreytinga í heild sinni, þ.e. söluskattsálagningarinnar og síðan niðurgreiðslna og tolla og vörugjaldsbreytinga, hækka um 7%. Ég tek þá tölu fyrir rétta. Hún er a.m.k. sjálfsagt það besta mat sem menn hafa á þessari staðreynd. Og þá skulum við taka þá prósentu og nota hana á heildarmatarkostnað vísitölufjölskyldunnar yfir árið, þessar tæplega 300 þús. kr. sem ég vitnaði hér til og það gera rúmlega 20 þús. kr., 20 600 kr. á ári. Sem sagt: Aukaskatturinn á matarliðnum hjá vísitölufjölskyldunni á ári hverju er samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands og fjmrh. 20 600 kr. Ef við tökum nú meðaljón eða -jónu og segjum að þau séu svona þokkalega stödd og hafi 300 kr. á tímann í kaup, þá eru þetta 70 klukkustundir sem þau þurfa að bæta á sig í vinnu, næstum tvær vikur til þess að hafa fyrir þessari skattþyngingu á matarliðinn samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef hér vitnað til.

Síðan mætti nefna margt fleira sem eru almenn rök fyrir því að verið sé að þyngja skatta á hinn venjulega launamann í landinu. Einhver ber þá útsvarshækkun sem hæstv. fjmrh. boðaði í máli sínu áðan upp á 600–700 millj. kr. Einhvers staðar kom það fram í máli hans hér fyrr í umræðu um fjármál á þinginu að þar væri um nálægt 20% hækkun að ræða. E.t.v. er það nú orðin hærri tala vegna þeirrar hækkunar sem útsvarsprósentan tók á sig. Hvað um það. Þar er líka liður sem einhver þarf að greiða. Þó að ég sé ekki að halda því fram að sveitarfélögin séu ofhaldin af því sem þau fá út úr þessum breytingum, þá borgar þetta einhver og ríkið ekki nema sem svarar kannski 10% af þessu vegna ónýtts persónufrádráttar.

Ég vil nefna nýjar upplýsingar um hækkun fasteignamats sem eru næstum að segja stjarnfræðilegar. Það kemur í ljós að fasteignamatið sem slíkt í landinu hefur hækkað um rúma 100 milljarða kr., þ.e. tvisvar sinnum hækkun byggingarvísitölunnar. Fasteignamatið hefur hækkað um nálægt 33% á sama tíma og byggingarvísitalan hefur hækkað um 16,7%. Matið hefur því hækkað um 50 milljarða umfram þá hækkun sem byggingarvísitala gefur tilefni til. Og hvað halda menn þá að tekjur sveitarfélaganna geti hækkað af þessum sökum? Jú, einhvers staðar á bilinu 300–600 millj. kr. ef við gefum okkur að álagning sveitarfélaganna sé einhvers staðar nálægt miðju þess tilhlaups sem sveitarfélögin hafa þar lögum samkvæmt sem er frá 0,375% og upp í 0,625% af þessum mikla stofni. Það ber því í raun og veru allt að sama brunni hvar sem drepið er niður í þessum heildarráðstöfunum. Hér er um auknar álögur á hinn almenna skattgreiðanda, launamanninn í landinu, að ræða. Fyrst og fremst í formi neysluskatta en líka að nokkru leyti vegna þeirra kerfisbreytinga sem við erum hér sérstaklega að ræða og eru efni þessa dagskrármáls, virðulegi forseti.

Þá vil ég í fimmta lagi, áður en ég sný mér að því að ræða einstök efnisatriði frv., víkja nokkrum orðum að því að svo eru menn úti í þjóðfélaginu hissa á því að verkalýðshreyfingin skuli ekki rjúka til og semja við þessar aðstæður. Mönnum þykir það furðulegt að menn skuli ekki vera tilbúnir til þess að rjúka til og semja bara óverðbætt upp á einhverjar mjög sanngjarnar prósentur, helst lækka á sér kaupið, hefur stundum mátt skilja á hæstv. ríkisstjórn. Það væri eiginlega nauðsynlegt að launþegar í landinu lækkuðu á sér launin svona til að hjálpa ríkisstjórninni vegna þess að það þurfi að veiða svolítið minni þorsk og vegna þess að Þjóðhagsstofnun hefur gefið út svarta spá. En skilja menn ekki þegar menn hugleiða málið hvílík staða það er fyrir þessa umbjóðendur launamanna í landinu að búa við þá óvissu og þá framkomu sem þeim er í raun og veru sýnd af hæstv. ríkisstjórn?

Ég held að það sé alveg morgunljóst, virðulegur forseti, að allar þessar aðgerðir og einkum og sér í lagi matarskatturinn hljóta að torvelda mjög möguleikana á því að hér geti náðst einhver sæmileg samstaða um kjaramál. Þetta er ekki sáttahendi af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

Það væri, virðulegi forseti, líka ástæða til að vitna í það merka blað, Morgunblaðið, sem birtir viðtal við hæstv. fjmrh. í morgun þar sem farið er nokkrum orðum um þessar breytingar allar almennt og sumum harla kostulegum. Það segir t.d., með leyfi forseta, hér í viðtalinu undir millifyrirsögninni „Við lá að ekki næðist samkomulag“ — og það er væntanlega útskýring hæstv. fjmrh. á því hvers vegna við lá að ekki næðist samkomulag um þessar ráðstafanir allar saman: „Það sem einkum stóð í mönnum var sú staðreynd að hækkun á hefðbundnum landbúnaðarafurðum úr 0% söluskatti í 22–23% skatt án frekari hliðarráðstafana þótti of stórtæk breyting í einu stökki, enda voru það áform ríkisstjórnarinnar að taka þetta í áföngum.“ Nú er skatturinn ekki þessi prósenta eins og við vitum, heldur á hann að vera 25%. Flatur skattur sem gengur næstum að segja út yfir alla skapaða hluti (Gripið fram í: Ekki afruglara.) nema afruglara á Stöð 2, eins og hér er nefnt. Hér er að mínu mati boðaður mjög merkilegur hlutur og ég hvet hv. þm. til að leggja eyrun við. Það er þetta með hliðarráðstafanirnar. Ég tel að í raun og veru sé verið að boða að hliðarráðstafanir hæstv. ríkisstjórnar gagnvart matarskattinum séu tímabundnar, eigi að vera tímabundnar. Það séu einhverjar skóbætur til að milda höggið af þessum breytingum að grípa til hliðarráðstafana vegna þess að menn hafa ekki treyst sér til að gera það í einu stökki, einu skrefi eða einu höggi. Það kemur í raun og veru fram hér. Og þá fer að kárna gamanið, virðulegur forseti, ef þær auknu niðurgreiðslur og aðrar hliðarráðstafanir sem nú á að nota til að sætta menn við, til að réttlæta þennan matarskatt, ef það liggur næstum að segja fyrir með orðum hæstv. fjmrh. í viðtali í Morgunblaðinu að þetta sé ekki hugsað nema sem tímabundin aðgerð til að milda mesta höggið.

Og svo þessi skattprósenta, virðulegur forseti. Hér hélt ræðu á síðasta Alþingi þáv. hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og ræddi ofurlítið um áform um virðisaukaskatt. Hann eyddi miklu púðri, löngum ræðutíma í að reyna að rökstyðja að sú skattprósenta sem þar var lögð til, 24%, og það frv. sem birtist með 20,9% væri allt of há tala. Hv. þáv. þm. og hæstv. núv. fjmrh. hélt langar ræður, sem lesa má í þingtíðindunum á síðasta þingi, um að það næði ekki nokkurri átt, eins og hann sagði, með leyfi forseta: ". . . ef við ætlum að gera samtímis breytingar á tekjuskattakerfi og neysluskattakerfinu, að ganga út frá því til frambúðar að við búum við neysluskattastig á bilinu 20–30%. Við erum hér“, sagði hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, „að tala um hæsta virðisaukaskattshlutfall í heimi.“ Það er ekkert annað og þetta náði ekki nokkurri átt. Hvað gerir svo núv. hæstv. fjmrh. annað en að leggja 25% flatan neysluskatt yfir allt saman? Svona fara hin stóru orð, virðulegur forseti.

Ég vek athygli hv. þingdeildarmanna á þessu, þeirra sem kynnu að hafa gaman af nokkurri söguskoðun, að kanna með lestri þingtíðindanna frá síðasta þingi og e.t.v. eitthvað lengra aftur hverjar voru meiningar formanns Alþfl., þáv. hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar, þegar hann var í stjórnarandstöðu og var að slást við það sem hann meinti vera vonda ríkisstjórn með vonda skattastefnu.

Þetta er heldur dapurleg magalending fyrir hæstv. ráðherra, að standa nú hér uppi með einhverja stórkostlegustu neysluskatta í heimi, svo maður noti hans eigin orð, sem fyrst og fremst virðast eiga að bitna á öllum almenningi í landinu.

Virðulegur forseti. Ég vík þá örlítið að nokkrum einstökum efnisatriðum frv. til að spyrja hæstv. ráðherra ofurlítið nánar um þá hluti og geri það að sjálfsögðu í eins stuttu máli og mér er unnt.

Í fyrsta lagi hefði ég talið æskilegt að hæstv. ráðherra skýrði ofurlítið nánar eða í einfaldari orðum, þannig að það lægi alveg ljóst fyrir, hver verður skattþyngingin vegna þeirrar álagsprósentu í tekjuskattafrv., sem nú er lögð til, miðað við skattana á yfirstandandi ári. Það er ekki mjög marktækt fyrir almenning í landinu, sem á að þola þessa breytingu, að fá upplýsingar um að skattaprósentan, skattþunginn, eigi að vera hinn sami og áformaður hafi verið fyrir arið 1987, fyrir margt löngu. Það sem almenningur mun koma til með að finna fyrir er sú breyting sem verður frá þeim sköttum sem hann hefur greitt á þessu ari, bæði vegna álagsprósentnanna og þó e.t.v. enn frekar vegna breyttrar dreifingar skattbyrðarinnar innan ársins, eins og ég hef þegar vikið að.

Ég hef þegar nefnt hvernig hinir einstöku hópar virðast fara út úr þessum skattstiga, því eina skattþrepi sem hæstv. ríkisstjórn virðist hafa bitið sig fast í og gerir ekki ráð fyrir að persónuafslætti og eða hátekjuskattaþrepi sé beitt til að fá út aðra dreifingu innan skattstigans. Ég er þeirrar skoðunar að þetta verði ekki gert með skaplegum hætti nema til að gera þetta hvort tveggja, breyta persónufrádrættinum, hækka persónufrádráttinn nokkuð og taka upp hátekjuskattþrep þannig að stærri hluti lágtekjufólksins beri annaðhvort enga skatta eða greiði eingöngu útsvar upp eftir skattstiganum og síðan komi þeir inn til að bæta þann kostnað upp sem hæstar hafa tekjurnar. Ég spyr um afstöðu hæstv. fjmrh. til þessa, bæði sem þann ráðherra sem mælir fyrir þessu máli fyrir hönd allrar ríkisstjórnarinnar, en líka sem formann Alþfl. alveg sérstaklega, hvort þetta sé sá skattstigi sem formaður Alþfl. sé hæstánægður með, hvort þetta eigi að verða minnisvarði hans sem formanns Alþfl. við hönnun á skattstigum fyrir alþýðuna í landinu, að sleppa því, sem er einfalt og augljóst, að setja inn hátekjuskattþrep til að tryggja að skattstiginn verði ekki öfugur hvað þetta varðar og létti á þeim sem hæstar hafa tekjurnar ofan við ákveðið mark.

Þá vil ég nefna húsnæðisbætur og vaxtaafslátt. Þetta tvennt hlýtur að þurfa að skoðast í nokkru samhengi. Í fyrsta lagi vil ég spyrja: Hvað veldur þeirri tölu sem komin er inn í frv. sem húsnæðisbætur, þeim 38 000 kr. á ári sem þar standa nú? Ef ég man rétt var áður rætt um allmikið hærri tölu. Mér duga ekki útskýringar hæstv. ráðherra áðan til að skilja hvers vegna þessi tala var lækkuð svo mikið sem raun bar vitni frá þeim hugmyndum sem menn unnu með fyrr á tíð.

Síðan er annað atriði sem er alveg nauðsynlegt að ræða og hæstv. fjmrh. má ekki láta fara fram hjá sér. Það er að húsnæðisbætur skulu bundnar við eignarhald rétthafa húsnæðisbóta á íbúð. Með öðrum orðum: eingöngu þeir sem eiga íbúð, burtséð frá því hversu mikinn kostnað þeir bera af sinn húsnæði, fá þessar bætur. Leigjendur eru settir út á gaddinn. Þar er um klára afturför að ræða frá því að leigjendur gátu dregið hálfa sannanlega húsaleigu sína frá sköttum. Og ég spyr hæstv. fjmrh.: Er þetta það félagslega snið sem hæstv. ráðherra vill hafa á aftur að binda þessar bætur eingöngu við þá sem búa í eigin húsnæði og eiga sína íbúð, sleppa öllum hinum hvað þetta varðar? Nú er alveg ljóst að margir þeir sem ekki eiga húsnæði kosta miklu til, oft og tíðum meiru til að leysa sín húsnæðismál og búa þar á ofan við óöryggi og alls kyns vandkvæði sem því eru bundin.

Hér duga ekki annað en skýr svör af hálfu hæstv. ráðherra. Hvað hugsar hann sér að gera fyrir aðra en þá sem eiga húsnæði, í þessum efnum?

Varðandi vaxtafrádráttinn vil ég líka segja að ég tel hann algerlega ófullnægjandi eins og frá honum er gengið í frv. Það er alveg ljóst að það kemur til skattþyngingar hjá mörgum þeim sem hvað mest skulda í sínu húsnæði ef sú tilhögun verður tekin upp sem frv. gerir ráð fyrir og þær tölur notaðar sem þar standa. Það er auðvitað barnaskapur að mínu mati af hæstv. ráðherra að líta til fortíðarinnar og segja: Þessi vaxtafrádráttur hefur yfirleitt ekki nýst mönnum nema í heldur fá ár. Það er framtíðin sem þarf að skoða, hæstv. ráðherra, hvernig hefði þessi frádráttur nýst mönnum í framtíðinni. Ég held að það gefi auga leið að þar er talsvert önnur mynd sem blasir við mönnum en sú sem menn sjá þegar þeir horfa til baka.

Hæstv. ráðherra með öllu sínu snillingaliði hlýtur að átta sig á því, þegar hann veltir þessu fyrir sér, að þar kemur margt til. Verðtrygging lána á sér ekki svo langa sögu. Lánstími hefur verið að lengjast. Kostnaður vegna lánanna sjálfra er í mörgum tilfellum meiri o.s.frv. Ég leyfi mér að fullyrða að margir þeir sem nýlega hafa byggt, keypt eða aflað sér húsnæðis með einhverjum hætti, bundið sér umtalsverðan skuldabagga af þeim sökum, muni koma til með að tapa verulega á þeirri takmörkuðu leiðréttingu sem hér er fyrirhuguð þeim til handa. Að binda þennan vaxtafrádrátt við sex ár er að mínu mati hrein ósvinna. Komi í ljós að menn nýta sér þennan frádrátt ekki að staðaldri mjög lengi, gott og vel. Þá gera þeir það ekki. En hvers vegna má þá ekki hafa það engu að síður í frv.? Hvers vegna má ekki hafa það opið fyrir þá sem eru í þannig aðstöðu að þetta mundi hjálpa þeim lengur en í sex ár?

Hér eru að mínu mati mjög óburðugar skýringar hafðar uppi af hálfu hæstv. ráðherra og ég sé ekki annað en að frv. sé stórlega ábótavant, ef það á að standa undir nafni, hvað það varðar að valda ekki aukinni skattabyrði hópa af þessu tagi. Væntanlega er það ekki ætlun hæstv. ráðherra, formanns Alþfl., sem var ekki lágværastur í þeim grátkór sem hér fjallaði um útreiðina sem ýmsir urðu fyrir í tíð síðustu ríkisstjórnar í þessum efnum, sem var vissulega slæmt, eins og misgengishópurinn sem ég ætla að koma hérna næst að. Skyldi nú ekki vera að þetta væri í mörgum tilfellum sami hópurinn og við erum hér að fjalla um, það fólk sem varð fyrir misgenginu, er með miklar skuldir af sínu húsnæði, heldur e.t.v. sjó um þessar mundir og sér svo framan í svona ákvæði sem á greinilega að takmarka verulega möguleika þess til að bæta sinn hag í gegnum skattakerfi að þessu leyti?

Og þá misgengishópurinn, virðulegi forseti. Þar er málið einfalt og fljótafgreitt. Niðurstaðan er núll. Hæstv. fjmrh. leggur ekki í að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir misgengishópinn. Og nú væri við hæfi, virðulegur forseti, að hæstv. félmrh. væri í salnum því fáir hv. þm. héldu jafnheitar ræður á síðasta kjörtímabili fyrir misgengishópinn og hæstv. félmrh. Það hlýtur að vera harla dapurleg niðurstaða fyrir þann hæstv. ráðherra að sjá að í gegnum skattakerfið treystir hæstv. fjmrh. ríkisstjórnarinnar, formaður Alþfl., sér ekki til að gera nokkurn skapaðan hlut.

Ég er þeirrar skoðunar að nánast eina færa leiðin sem til sé til að reyna að einhverju leyti að koma til móts við misgengishópinn sé í gegnum skattana. Ég sé ekki að með öðru móti verði það betur gert. Ég bið þá hæstv. fjmrh. að útskýra það fyrir mér hvers vegna ekki í gegnum skattana og með hvaða leiðum öðrum telur hann þá hugsanlegt að koma til móts við hópinn. Ég á hér ekki við ráðstafanir af því tagi að veita þessu fólki meiri lán sem hefur lengi verið þrautaráðið. Það er ekki bjargráðið fyrir þetta fólk. Allra síst ef á að taka af því vaxtafrádráttinn á næstu árum eins og ég hef þegar bent á.

Margt fleira mætti til tína, en flest er það að mínu mati smærra í sniðum en það sem ég hef nú rakið. Ég nefni þó að ég sé ekki hvers vegna t.a.m. menn treysta sér ekki til að koma að einhverju leyti til móts við námsmenn sem koma til starfa úr því að menn eru tilbúnir að taka tillit til þeirra sem verið hafa erlendis að störfum og koma hingað heim eða hvers vegna menn treysta sér ekki til að koma til móts við þá sem af félagslegum ástæðum, atvinnuleysis vegna eða sjúkleika eða annarra slíkra hluta hafa fallið í tekjum og koma þar af leiðandi illa út er þeir koma inn í staðgreiðslukerfið. Hvers vegna á að veita þeim sem hafa haft tekjur erlendis sérstaka ívilnun í þessu efni, sem væntanlega eru þó betur staddir en hinir sem við erum að ræða um og hafa ekki haft tekjur? Þetta gengur ekki almennilega upp að mínu mati.

Ég vil einnig spyrja hæstv. fjmrh. hvað hann geti frætt okkur um þá framteljendur eða þá skattgreiðendur sem teljast til einstaklinga með sjálfstæðan atvinnurekstur, eiga þá að áætla á sig eða reikna sér laun með einhverjum hætti. Hvernig koma t.a.m. bændur til með að fara út úr þessum kerfisbreytingum? Hefur verið hugað að því sérstaklega hvernig slíkir hópar, sem hafa nokkuð óvenjulega aðstöðu hvað þetta varðar, koma út, bændur og við gætum nefnt trillusjómenn eða ýmsa slíka aðila, sem bæði vegna atvinnu sinnar og rekstrarforms og jafnvel tekjudreifingar á árinu gætu komið nokkuð sérkennilega út að því er mér sýnist? Hefur verið unnið sérstaklega með það hvernig þeirra hag verði borgið?

Ég spyr um útgáfu skattkorta og sérstaklega aukaskattkorta einfaldlega vegna þess, virðulegur forseti, að sl. daga hef ég fengið fjölda fyrirspurna frá gestum og gangandi um það efni. Hvernig er hugsað að fara með þau mál? Á aðili sem vinnur hjá fjöldamörgum atvinnuveitendum að fá jafnmörg aukaskattkort og þeir eru eða hvernig hefur í framkvæmdinni verið hugsað fyrir þeim hlutum?

Og síðast en ekki síst, virðulegur forseti, vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvað líði áformum um skatta fyrirtækja. Hvenær rætast nú stóru orðin hæstv. ráðherrans hvað það varðar að taka þá hluti til endurskoðunar? Enn þá einu sinni birtast okkur frv. þar sem eingöngu er tekið á launamönnunum eða svo gott sem, nema hvað lítilli frádráttarheimild er hér til haga haldið fyrir hönd fyrirtækjanna en ekki til handa einstaklingum, og var nú hæstv. fjmrh. að burðast við að útskýra, heyrðist mér áðan, hvers vegna það væri nauðsynlegt að fyrirtækin fengju áfram að draga gjafir eða framlög til ýmiss konar góðrar starfsemi frá skattstofni, þó ekki nema 10% að vísu. Ég kem ekki auga á hvers vegna er nauðsynlegt að mismuna aðilum hvað þetta varðar.

Síðan vil ég spyrja hæstv. fjmrh., það er alveg nauðsynlegt að spyrja hann að því í lokin: Hvenær rætast áform hans um stóreignaskatta úr því við erum að ræða skattamál á annað borð, virðulegi forseti? Hvenær sjáum við framan í margboðaða stefnu Alþfl. um stóreignaskatta þar sem virkilega verður reynt að ná á breiðu bökin? Hvað hugsa hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn í sambandi við skattlagningu fjármagnstekna? Eigum við áfram að búa við einhverja glórulausustu vexti í heiminum, virðulegur forseti, án þess að nokkrir tilburðir séu uppi til að skattleggja vaxtatekjur? Er mér hvergi kunnugt um að það fyrirkomulag sé viðhaft að hafa vexti einhverja þá hæstu sem þekkist, en skattleggja þá jafnframt ekki. Sök sér er að mínu mati að raunvextir séu nokkrir í þjóðfélögum ef þeir eru þá skattlagðir eins og aðrar tekjur sem menn fá í hendi og það meira að segja án þess að vinna í bókstaflegum skilningi fyrir þeim. Getur hæstv. ráðherra upplýst okkur eitthvað um þessi efni?

Ég veit ekki, virðulegur forseti, hvort það er þinglegt að spyrja eins og ég gerði áðan og inna hann annars vegar eftir afstöðu hans og hæstv. ríkisstjórnar og hins vegar eftir skoðunum formanns Alþfl., en ég ætla að leyfa mér að gera það samt og vitna þá til þess fordæmis þegar hæstv. fyrrv. forsrh., núv. utanrrh., sem dvelst í útlöndum, talaði yfirleitt fyrir tvær hendur í ræðustólnum á síðasta kjörtímabili, annars vegar sem hæstv. forsrh. og hins vegar var það hans persónulega.skoðun að þetta og hitt skyldi vera svo og svo. Þar sem svo merkur maður hefur margoft gefið þetta fordæmi á þingi leyfi ég mér að bera upp spurningar með þessu sniði til hæstv. fjmrh. og formanns Alþfl.