08.12.1987
Neðri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1634 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Það dagskrármál sem hér er til umræðu er viðamikið og má í rauninni koma víða við til að ræða það, enda hefur það þegar verið gert í þessari umræðu. Ég vil í byrjun þakka hæstv. ráðherra ekki síst fyrir upphaf ræðu hans sem mér fannst vera yfirgripsmikið og ágætt um skattamál almennt, eðli þeirra og inntak.

Hér hefur verið minnst á margt í þessu sambandi, vinnulag og annað fleira í þeim dúr. Ég hef það fyrir satt að nú eftir tiltölulega stuttan tíma eða kl. 6 verði gert hlé á fundi þessarar hv. deildar vegna funda í þingflokkum. Þar munu væntanlega vera á dagskrá ýmis önnur atriði þessu tengd, ekki síst hjá stjórnarflokkunum, þ.e. frumvörp sem eru í undirbúningi um mál sem þegar hafa verið tilkynnt í fjölmiðlum, söluskattsbreytingar, tollabreytingar og annað í þeim dúr.

Ég held að það sé ekki ofsögum sagt, sem kom fram í máli hv. seinasta ræðumanns sem hér talaði, hv. 4. þm. Norðurl. e., að það eru miklar skattahækkanir sem nú ríða yfir. Ég ætla þó að það frv. sem hér er sérstaklega til umræðu sé í rauninni aðeins bárugjálfur miðað við þá holskeflu skattahækkana sem hvelfist yfir þjóðina á þessum dögum og mun verða ekki síst í upphafi næsta árs. Ég segi aðeins bárugjálfur vegna þess að beinir skattar eru í fyrsta lagi svo lítill hluti heildartekna ríkisins og í annan stað er hér um að ræða það áform við þessa skattlagningu að ná svipaðri upphæð, svipaðri skattbyrði og hefði orðið 1987 að óbreyttum lögum. Ég geri þó alls ekki lítið úr þeirri hækkun beinna skatta sem hér mun sannanlega verða og hv. síðasti ræðumaður gerði nokkuð að umtalsefni.

Auðvitað er það svo að það er skattbyrðin sjálf sem skiptir meginmáli í þessu efni. Þess vegna eru þær brtt. sem ég mun kynna lítillega á eftir fyrst og fremst um þau atriði. Annars verður að segja eins og er að skattalög okkar Íslendinga eru nokkuð flókin og frv. sem hér er til umræðu bætir í rauninni þar lítið um. Kerfisbreytingin úr eftiráinnheimtu og í staðgreiðslu er auðvitað til bóta að því leyti að hún er til einföldunar, en lagasetningin sjálf er eftir sem áður býsna flókin.

Það koma fram í upphafi frv. sem er til umræðu, í rauninni í nafninu á frv., upplýsingar um þetta efni. Frv. heitir „Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 75 frá 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum“, þar með talin breyting skv. lögum nr. 49 frá 1987 sem taka eiga gildi 1. jan. 1988. Í þessu sambandi má einnig minnast á önnur frumvörp sem hér hafa þegar verið lögð fram, frv. um sóknargjald, frv. um kirkjugarða og enn önnur eru á leiðinni í þessu sambandi eins og ég áðan gat.

Skattbyrðin er þó aðalatriði þessa máls. Í grg. með frv. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1987 og breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt vegna álagningar á því ári var miðað við að beinir tekjuskattar einstaklinga til ríkisins að meðtöldu gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra og að viðbættum sóknar- og kirkjugarðsgjöldum yrðu 4,3% af heildartekjum einstaklinga.“

Þetta atriði er ákaflega þýðingarmikið, 4,3% af heildartekjum einstaklinganna. Skattbyrðin mæld með þessum hætti átti þannig að lækka frá því sem verið hafði árið áður, úr 4,6% af heildartekjum einstaklinga í 4,3. Síðan bætist það við þegar hæstv. ríkisstjórn kom til valda á sl. sumri að þá var enn tekin ákvörðun um lækkun í þessu efni sem svaraði um 0,1% í skattbyrðinni. Þar var um að ræða fyrst og fremst ákvæði um barnabótaauka. Þegar síðan kemur fram á árið og farið er að bera þessa hluti saman miðað við það sem gerðist í ár kemur í ljós að skattbyrðin í ár, 1987, verður í rauninni lægri að þessu leyti. en áður hafði verið ráð fyrir gert. Ástæðan var sú að tekjuaukning á árinu 1987 miðað við 1986 varð miklu meiri en menn höfðu gert ráð fyrir áður.

Þegar staðgreiðsluskattalöggjöfin var afgreidd í marsmánuði sl. var gert ráð fyrir að tekjuaukningin á milli þessara tveggja ára yrði um 20%. Staðreyndin verður hins vegar 37–38%. Það þýðir í skattbyrðinni að skattbyrðin varð á árinu 1987 einungis 3,4% miðað við 4,2% sem áður hafði verið ráð fyrir gert og miðað við þann grundvöll sem hér er lagður við ákvörðun um staðgreiðslu skatta. Þetta atriði, 4,2% skattbyrði miðað við 3,4% sem er staðreyndin, er ákaflega þýðingarmikið. Það var þetta atriði sem hv. 4. þm. Norðurl. e. lagði þunga áherslu á, að þó að menn geri ráð fyrir svipaðri skattbyrði og að var stefnt 1987 að óbreyttu kerfi er þetta hrikaleg þynging sem verður staðreynd hjá einstaklingum í þessu þjóðfélagi miðað við það sem varð. Breytingin úr 3,4% í 4,2% er upp undir fjórðungs þynging. Það er upp undir fjórðungs þynging beinna skatta í þjóðfélaginu. Þetta er atriði sem menn verða að ræða við þessa umræðu og taka til viðmiðunar þegar þeir meta síðan holskefluna, sem verið er að demba yfir þjóðina þessa daga í óbeinum sköttum, sem á að taka til formlegrar umfjöllunar á þingflokksfundum klukkan sex, búið var að tilkynna í seinustu viku í öllum fjölmiðlum. Þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar voru boðaðir fyrir helgi að mér skilst í fjmrn. til að meðtaka boðskapinn, en nú fyrst er verið að undirbúa málið formlega til ákvörðunar í þinginu.

En aðalatriðið við þessa umræðu er að þynging beinu skattanna er upp undir fjórðungur og það er mikið atriði að menn geri sér þetta ljóst.

Í grg. með frv. segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:

„Þessi sveifla í skattbyrði, sem stafar af því að ófyrirséðar breytingar valda frávikum frá áformum Alþingis, er dæmi um neikvæð einkenni núverandi skattkerfis. Annað slíkt dæmi kom fram 1984 þegar verðlags- og kauplagsþróun leiddi til aukinnar skattbyrði sem ekki var áformuð.“

Þetta lagði hæstv. ráðherra þunga áherslu á í máli sínu áðan og með ágætum hætti. En ég tók eftir því að hann lagði ekki áherslu á það sem á eftir kemur í greinargerðinni, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Eitt af markmiðum breytts skattkerfis er að losna við það að raunveruleg skattlagning ráðist af verðbólgu.“

Þetta er alveg rétt og ég bið menn að athuga það og gaumgæfa við lestur frv., og ekki síst þá nefnd sem mun fjalla um þetta síðar í meðförum málsins á þinginu, hvort þessu markmiði er náð með frv., að raunveruleg skattlagning raðist ekki af verðbólgu. Ég mun síðar koma að því atriði í máli mínu.

Frv. sjálft leggur áherslu á sex meginatriði: 1. persónuafslátt, 2. sjómannaafslátt, 3. barnabætur, 4. barnabótaauka, 5. húsnæðisbætur og 6. vaxtaafslátt samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu síðast í frv. Ég tel að í sjálfu sér hafi sú nefnd sem vann að þessu á þeim nauma tíma sem henni var gefinn að mörgu leyti unnið gott verk og ég vil ekki síst þakka ágæta formennsku hv. þm. sem hér er viðstaddur umræðuna, 4. þm. Reykn. Kjartans Jóhannssonar. Hann beitti sér prýðilega í þeirri vinnu. En ég vil hins vegar vekja athygli á því að í allveigamiklum atriðum hefur sú niðurstaða sem varð í þessari nefnd ekki náð inn í frv. og við það vil ég gera sérstakar athugasemdir. Við nokkrir þm. Borgarafl. í hv. Nd. höfum látið dreifa við umræðuna brtt. við þetta frv. Það gerum við vegna þess að við viljum að brtt. okkar komi strax fram þannig að það gefist góður tími til umfjöllunar. Að vísu skal ég taka fram að seinni hluti brtt. okkar, sem væntanlegur er, er ekki með í þessum pakka en mun síðar fram koma. En ég mun í örfáum orðum gera grein fyrir þessum brtt. og ýmsum atriðum því sambandi.

1. brtt. okkar, sem hér er dreift, er varðandi 2. gr. frv. Í 2. gr. frv. segir, með leyfi hæstv. forseta, en þá er verið að tala um 31. gr. laganna: „Frá tekjum má enn fremur draga einstakar gjafir til menningarmála, vísindalegra rannsóknarstarfa, viðurkenndrar líknarstarfsemi og kirkjufélaga“. Við leggjum til að greinin verði ekki lengri en þetta í frv., sem sagt að seinni hluti greinarinnar verði felldur niður, en hann er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Þó ekki yfir 10% af skattstofni gefanda áður en gjöfin hefur verið dregin frá honum.“ Og enn fremur: „Fjmrh. ákveður með reglugerð hvaða málaflokkar og stofnanir falla undir þessa grein.“

Ástæðan fyrir því að við leggjum þetta fram er í fyrsta lagi sú að niðurstaða milliþinganefndarinnar var að þessari grein yrði ekki breytt svo sem hér er lagt til og að auki teljum við alls ekki ástæðu til þess að fjmrh. ákveði sérstaklega í reglugerð hvaða málaflokkar og stofnanir skuli hér undir falla. Það séu í rauninni nánast augljós atriði.

Annað atriði, sem við leggjum til í brtt. okkar, er varðandi 5. gr. frv. Hún er ákaflega stutt eftir því sem hér liggur fyrir, með leyfi hæstv. forseta, eða svohljóðandi: „1. mgr. a-liðar 68. gr. orðist svo: Persónuafsláttur manna, sem um ræðir í 1. mgr. 67. gr., skal vera 158 820 kr.“ Það er rétt að taka fram að þessi upphæð er miðuð við lánskjaravísitölu eins og staða hennar var í júnímánuði sl. Þegar lögin voru samþykkt í mars sl. var miðað við lánskjaravísitölu eins og hún var í febrúarmánuði, að því er mig minnir 1594 stig. Ef sú viðmiðun hefði verið stig lánskjaravísitölunnar eins og það er í dag, 1886 stig, væri þessi upphæð 163 280 kr., en miðað við þá breytingu sem hér er lögð til og við út af fyrir sig getum alveg fallist á yrði upphæðin í desember 177 555 kr. eða 14 796 kr. í frádrátt mánaðarlega.

En brtt. okkar gengur út á annað. Ég ætla, með leyfi forseta, að fá að lesa hana. Hún er svohljóðandi:

„Nemi persónuafsláttur skv. 1. gr. hærri fjárhæð en reiknaður skattur af tekjuskattsstofni skv. 1. málsl. 1. mgr. 67. gr. skal ríkissjóður leggja fram fé sem nemur allt að þeim mun. Skal því ráðstafað fyrir hvern mann til greiðslu útsvars hans á gjaldárinu. Sá persónuafsláttur, sem enn er óráðstafað, fellur niður nema um sé að ræða óráðstafaðan persónuafslátt annars maka sem skattlagður er skv. 63. gr. Skal þá þessi óráðstafaði hluti persónuafsláttar makans dragast frá skatti hins makans nema þannig ákvarðaður persónuafsláttur síðarnefnda makans í heild nemi hærri fjárhæð en reiknaður skattur af tekjuskattsstofni hans skv. 1. málsl. 1. mgr. 67. gr. Skal ríkissjóður leggja fram fé sem nemur allt að þeim mun til að greiða útsvar hans á gjaldárinu. Sá hluti persónuafsláttar, sem þá verður enn óráðstafað, fellur niður.“

Ég ætlast varla til þess að nokkur lifandi maður sem á þetta hlýðir skilji hvað um er að ræða, svo flókin eru þessi atriði, en til þess að segja þetta á einfaldan hátt í fáeinum orðum leggjum við til nákvæmlega það sama og milliþinganefndin lagði til. Kjarninn er sá að í gildandi lögum er gert ráð fyrir að afsláttur vegna makans sé einungis 80%, en við leggjum til að makinn, hvors kyns sem hann er, sem ekki hefur tekjur, njóti nánast mannréttinda og verði metinn 100% . Það er kjarni þessa máls.

3. brtt. okkar er varðandi 8. gr. frv. 8. gr. er um barnabætur og barnabótaauka og raunar húsnæðisbætur, en í a- og b-lið, um barnabætur og barnabótaauka, er gert ráð fyrir að bætur séu greiddar með barni allt til 16 ára aldurs. Við leggjum til að í a- og b-lið, með leyfi hæstv. forseta, komi í stað 16 ára 18 ára og á eftir e-lið komi nýr liður, d-liður, sem er í rauninni 4. brtt. okkar og heitir „Starfslok“. Hún er flutt vegna ákvæða sem nú eru í gildi í lögum, en féllu úr gildi af sjálfu sér miðað við staðgreiðslu skatta. Greinin er svohljóðandi:

„Maður, sem er að ljúka starfsævi sinni og skilar inn til skattyfirvalda skattkorti sínu, skal fá endurgreiddan þegar greiddan tekjuskatt síðustu tólf mánuði fyrir starfslok, enda hafi viðkomandi öðlast rétt til eftirlauna eða lífeyris úr lífeyrissjóði. Verði maður að hætta störfum vegna varanlegrar örorku af völdum veikinda eða slyss skal hann njóta sömu réttinda.“

Ég held að þetta ákvæði skýri sig sjálft. Kjarninn í tillögu okkar er sá að við starfslok fái menn þessa umbun erfiðis síns í lokin. Þetta sé í rauninni þökk þjóðfélagsins til skattþegnsins um leið og hann fer af vinnumarkaði.

Þá kem ég að lokatillögu okkar sem skiptir kannski einna mestu máli. Hún lætur í sjálfu sér ekki mikið yfir sér. 12, gr. er þessi í lagafrv.: „2. mgr. 121. gr. laganna orðist svo: Fjárhæðir þær sem hér um ræðir skulu breytast í fyrsta sinn hinn 1. des. 1987 í samræmi við mismun sem verður á lánskjaravísitölu sem í gildi er hinn 1. júní 1987, þ.e. 1687 stig, og þeirrar sem í gildi verður 1. des. 1987.“

Okkar tillaga hljóðar svo: „Fjárhæðir, sem um ræðir í 68. og 69. gr., skulu breytast mánaðarlega í samræmi við lánskjaravísitölu skv. lögum nr. 13 1979.“

Ástæðan fyrir þessari brtt. er augljós ef menn athuga þetta svolítið nánar. Það er í raun kjarni þessa máls, sem ég tel í rauninni skipta ákaflega miklu máli, að ég tel að ákvörðun persónuafsláttarins aðeins tvisvar á ári sé allt of sjaldan um svo afdrífaríkt atriði sem persónuafslátturinn er í þessu kerfi. Það er hann sem í rauninni ræður því hvort skattlagningin er í takt við verðbólgu eða ekki. Ef persónuafslátturinn er ákvarðaður, eins og er lagt til í frv. ríkisstjórnarinnar, einungis tvisvar á ári gerist það hver sem verðbólguþróunin verður, það er alveg sama hvort hún er mikil eða lítil, að áhrifin koma mishratt í ljós. Ef verðbólguhraðinn er mikill gerist það að skattbyrðin á einstaklingana þyngist í réttu hlutfalli við verðbólguhraðann frá fyrsta degi sem persónuafslátturinn er ákveðinn til næsta tíma þegar honum er breytt á ný sem á að vera 1. júlí. Þar af leiðandi gengur þetta atriði beinlínis þvert á þau tilvitnuðu orð sem ég lagði áherslu á í upphafi máls míns úr greinargerð með frv., en þar segir þetta: „Eitt af markmiðum breytts skattkerfis er að losna við það að raunveruleg skattlagning ráðist af verðbólgu.“

Því er ekki að leyna að raunveruleg skattlagning, sem hefur ráðist af verðbólgu hér á undanförnum árum og við þekkjum, hefur verið á þann hátt að eftir því sem verðbólgan hefur aukist hefur skattbyrðin lést á einstaklingum, en nú verður það öfugt ef þetta ákvæði verður samþykkt. Nú mun það gerast að skattbyrðin eykst jafnt og þétt eftir því sem verðbólguþróunin verður, að vísu sex mánuði í senn. Síðan á þetta að leiðréttast eftir þessa sex mánuði. Þá byrjar ballið á ný og skattbyrðisaukinn heldur áfram í nákvæmlega sama hlutfalli og verðbólgan er: Þetta er ákaflega þýðingarmikið atriði. Það er þýðingarmikið vegna þess að þetta kemur þyngst niður á þeim sem eru neðst í álagningarstiganum. Það léttast áhrifin eftir því sem ofar dregur, það er alveg rétt.

Þess vegna leggjum við til að persónuafslátturinn verði ákvarðaður ekki sjaldnar en mánaðarlega, nákvæmlega jafnhratt og jafnoft og álagningin fer fram. Auðvitað vildi ég fyrir minn hlut helst að það yrði einhver önnur viðmiðun en lánskjaravísitala því ég er alveg ákveðið þeirrar skoðunar að lánskjaravísitalan eru þau ókjör sem verður að ná hér af með einhverjum hætti og ég er líka þeirrar skoðunar að þeir hv. þm. úr Borgarafl. sem nýlega hafa lagt fram frv. í Ed. um átök í húsnæðismálum hafi þar dottið niður á rétta leið sem er vaxtaaðlögunarlánin svipað og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Þar held ég að sé leiðin út úr þeim vanda.

Ég kysi helst að viðmiðunin hér yrði framfærsluvísitalan því að framfærsluna og skattlagninguna held ég að sé ákaflega eðlilegt að hafa hvort tveggja til viðmiðunar þegar verið er að taka ákvarðanir um skattlagningu. Kjarni málsins er að persónuafsláttinn verður að ákvarða eins oft og álagning fer fram og það verður að ákvarða persónuafsláttinn á þann hátt að meginmarkmiðið með breytingunni úr eftiráinnheimtu í staðgreiðslu náist fram. Það er sagt í frv. og það er margtekið fram, það er áreiðanlega margrætt á þinginu á undanförnum mánuðum að það er megintilgangurinn að komast út úr verðbólguáhrifunum. En ef þetta nær fram að ganga verður það lögfest og fyrst og fremst þeim til óþurftar sem síst skyldi.

Að lokum, hæstv. forseti, vildi ég geta þess að við fulltrúar Borgarafl. erum með í undirbúningi frekari brtt. varðandi aðra þá þætti í frv. sem ég hef ekki sérstaklega gert að umræðuefni hér, sem eru fyrst og fremst húsnæðisþátturinn, húsnæðisbæturnar og vaxtaafslátturinn. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að það sé ekki gengið nógu langt til þess að það meginmarkmið náist að menn hafi ekki óhag af þeirri breytingu sem er verið að vinna að. Í rauninni má hið sama segja um sjómannaafsláttinn, en það bíður betri tíma.