08.12.1987
Neðri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1639 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er fremur fámennt en vissulega góðmennt. Hér er viðstaddur formaður milliþinganefndar sem fjallaði um þetta mál og nú var hæstv. ráðherra að ganga í salinn svo að ég get sparað mér að flytja honum saknaðarkveðjur. (Fjmrh.: Hann heyrði það sem hann ekki sá.) En, herra forseti, seint koma sumir og koma þó og á ég þar við þingmálið en ekki hæstv. ráðherra. Hér sjáum við loks eitt af þeim frv. sem brýna nauðsyn ber til að afgreiða fyrir þinghlé hvort sem tekst að hafa það þinghlé fyrir jól eður ei. Þetta er svo fáránlega seint fram komið að engu tali tekur og best að vera ekki að eyða dýrmætum tíma til að skammast yfir því, enda fór ég um það nokkrum orðum í umræðum um annað skylt mál, þ.e. 125. mál Nd. um breytingu á lögum nr. 45 um staðgreiðslu opinberra gjalda, og verða þær athugasemdir að duga um hversu seint þessi mál eru á ferðinni. Það er þó eins og allur sá tími sem það tók stjórnarflokkana að ná samstöðu um frv. hafi ekki nýst sem skyldi þegar tölum í frv. og frvgr. og í grg. ber ekki einu sinni saman. En meira um það seinna.

Ég hafði ekki hugsað mér að fara út í ræðuhöld um hvernig haga bæri skattlagningu svona almennt eða í heild sinni, en orð hæstv. ráðherra í upphafi ræðu sinnar gefa kannski tilefni til að minna á ákveðin atriði. Einkunnarorð hæstv. ráðherra virðast vera einföldun, skilvirkni og réttlæti og að sögn eru þau höfð að leiðarljósi við endurskipulagningu skattkerfisins. Þetta markmið er lagt til grundvallar við niðurfellingu undanþága af flestu tagi og hæstv. ráðherra fór nokkrum orðum um að slíkar undanþágur og frádrættir byðu gjarnan upp á þær glufur í skattkerfinu sem efnamenn gætu fyrst og fremst notað sér. Ég verð að segja eins og er að ég hef minni áhyggjur af því þótt efnamenn kunni að hafa hag af slíkum möguleikum, ég hef minni áhyggjur af því en af þeim efnaminni sem þurfa á þessum frádráttarmöguleikum að halda.

Það væri svo ástæða til að fara hér mörgum orðum um skattlagningu almennt í tilefni af nýjustu fréttum um breikkun söluskattsstofns og hækkun prósentu og tollabreytingar sem ganga gersamlega gegn réttlætiskennd manna og gegn öllum hugmyndum um fjölskyldustefnu og manneldisstefnu. Það veldur sannarlega furðu og vonbrigðum að svokallaðir jafnaðarmenn skuli standa að slíku. Ég tek undir orð sem ég held að hafi mælt hv. síðasti ræðumaður sem benti á þá smekkvísi að kynna þessar gagngeru breytingar fyrir fjölmiðlum áður en óbreyttir þm. fengu að sjá haus né sporð á því fyrirkomulagi sem þar er verið að kynna. En ég held ég geymi mér frekari almenna umfjöllun um skattamál og snúi mér að því frv. sem hér er á dagskrá.

Frv. sem hér um ræðir er að miklu leyti samhljóða tillögum milliþinganefndar um staðgreiðslu skatta, en um störf hennar má lesa í álitsgerð sem allir þm. hafa fengið. Fulltrúi Kvennalistans í nefndinni, Kristín Sigurðardóttir, hafði fyrirvara um álit nefndarinnar, sem er prentað á bls. 20 í álitsgerðinni, og vil ég lesa það, með leyfi forseta:

„Það er álit mitt að nefnd um staðgreiðslu skatta hafi að ýmsu leyti unnið gott verk og sniðið alvarlega agnúa af lögum um staðgreiðslu skatta og öðrum lögum er því fylgdu. Einnig hefur í störfum nefndarinnar náðst samstaða um ný atriði sem verða til bóta. Tíminn sem nefndin fékk til starfa var þó óþægilega knappur. Eðlilegast hefði verið að nefndin hefði hafið störf snemma í sumar í stað september. Tveggja vikna hlé skar einnig af vinnutíma nefndarinnar.

Fyrirvari minn byggir á því sem ekki náðist samstaða um og einnig á öðrum liðum sem ekki fékk að reyna á, annars vegar vegna þess að tíminn var skammur og hins vegar vegna skilgreiningar á hlutverki nefndarinnar. Ég vil nefna nokkur atriði: mánaðarleg framreiknun persónuafsláttar, greiðsla óskertra barnabóta til móður, hátekjuskattþrep, skattlagning fjármagns- og eignatekna. Jafnframt minni ég á athugasemdir og tillögur Kvennalistans við afgreiðslu skattalaganna á sl. vori. Ég er mótfallin hugmyndum um lækkun útsvarsprósentu sveitarfélaga í staðgreiðslu. Fulltrúar Kvennalistans munu áfram vinna að skattalegum endurbótum á Alþingi. — Kristín Sigurðardóttir.“

Í samræmi við þetta nál. munum við kvennalistakonur reyna að fá fram breytingar á frv. í nefnd og ef það tekst ekki munum við leggja fram brtt. við frv. við 2. umr. um málið, þ.e. um skattþrep, um barnabætur og um mánaðarlega endurskoðun persónuafsláttar, og verða þær skýrðar nánar þegar þar að kemur.

Hæstv. ráðherra kom inn á útsvarsálagningu sveitarfélaga í sinni ræðu hér áðan og virtist þeirrar skoðunar að sveitarfélögin væru full áfjáð í álagningarkröfum sínum. Ég ítreka þá skoðun okkar, sem fram kemur í fyrirvara fulltrúa Kvennalistans í milliþinganefndinni, að sveitarfélögunum veiti ekki af því að fá í sinn hlut meiri tekjur, sérstaklega með tilliti til þeirra auknu verkefna sem þeim eru ætluð. Ég held að við hljótum að taka þetta frekar til athugunar og minni á þá skoðun Kvennalistans að sveitarfélögin eigi að vera sem sjálfráðust um öflun tekna sinna. Ég tel fremur litla hættu á því að þau leiðist út í skattpíningu, enda mundi þeim væntanlega hefnast fyrir slíkt.

Svo farið sé skipulega yfir frv. er það fyrst að segja um ákvæði 2. gr. frv. að það ákvæði var fellt niður með lögum nr. 49/1987. Hér er það tekið upp aftur og er alveg hægt að fallast á að þetta ákvæði sé réttmætt og geti komið sér vel. Ég hugðist spyrja hæstv. ráðherra út í nauðsyn þess að taka upp í þessa frvgr. setningarhluta sem ekki var í tillögum milliþinganefndarinnar, þ.e. um að þessi frádráttur mætti ekki fara yfir 10% af skattstofni gefanda áður en gjöfin hefur verið dregin frá honum. Ég sé enga nauðsyn á þessum síðari hluta greinarinnar. Og þetta stangast nú kannski nokkuð á við þær upplýsingar sem mér fannst koma fram í máli ráðherra. En þetta ákvæði hefur að mínu mati ekkert gildi í raun og veru þar sem upphæðir munu varla fara yfir þessi mörk eða er mjög líklegt að fyrirtæki séu í stórum stíl að gefa meira en sem nemur 10% af skattstofni sínum, hversu góður sem málstaðurinn er, auk þess sem ég held að það sé fremur erfitt að henda reiður á þessu í skattaumfjöllun. En sjálfsagt skiptir þetta engu til eða frá. Síðasta setningin tekur svo til þess að fjmrh. ákveður með reglugerð hvaða stofnanir og málaflokkar falli undir þessa grein. Ég sé satt að segja ekki nauðsyn þessa án þess að þetta sé stórmál. En ég velti fyrir mér hvað þarf að skilgreina þarna nánar eða hvort það vefjist eitthvað fyrir mönnum að skilgreina hvað séu menningarmál eða vísindalegar rannsóknir, viðurkennd líknarstarfsemi og kirkjufélög. En kannski er þetta smámunasemi og vel má vera að nauðsynlegt sé að setja reglur um þetta í grg. og vafalaust fæst skýring á þessu í nefnd.

Varðandi 6. gr. frv. vil ég fagna ákvæði 1. mgr. hennar. Það er tvímælalaust til bóta fyrir fólk með sveiflukenndar tekjur sem fer niður fyrir skattleysismörk.

Um 7. gr. hins vegar hef ég ekkert sérstakt að segja. Menn virðast ákaflega sammála um að þessi afsláttur eigi rétt á sér, enda þótt hér sé alls ekki um alla sjómenn að ræða. Trillukarlarnir t.d. fá ekkert og eru þeir nú enn einu sinni svolítið sér á báti í orðsins fyllstu merkingu.

Varðandi 8. gr. frv. hef ég þegar lýst því að við munum gera tillögur til breytinga varðandi greiðslu barnabóta. Eins og hv. þm. vita höfum við notað hvert tækifæri til að leggja til hækkun barnabóta og við munum áfram vinna að því. Nú er boðuð hækkun barnabóta sem að sjálfsögðu er nauðsynleg og munum við bíða með umfjöllun um slíkt. En sú breyting sem við höfum hugsað okkur að gera fellur nokkuð í aðra átt. Hún felur í sér að barnabætur verði greiddar til móður nema barnið sé í umsjá annarra. Þetta teljum við að sé réttlætismál þar eð í langflestum tilfellum er barnið fyrst og fremst í umsjá móður. Það er hún sem tekur á sig persónulegt tekjutap vegna umönnunar barnsins og hún er í yfirgnæfandi tilfella tekjulægri aðilinn í sambúðinni hvert sem formið er á slíkri sambúð. Þetta hefur því einnig þann tilgang að bæta fj árhagsstöðu kvenna og veitir ekki af því. Auk þess er hér um hagræðingaratriði að ræða þar sem verulega dregur úr útsendingu bóta og veit ég að skattayfirvöld yrðu harla fegin slíkri tilhögun. Sama mundi svo gilda um a- og b-lið hvað þetta varðar. Hvað c-liðinn varðar er útfærslan á þeim lið að okkar dómi til bóta þar sem húsnæðisbætur eru bundnar við einstakling en ekki íbúðareign. Að öllu athuguðu og samanlögðu kemur það að mínu viti sanngjarnar út. Upphæðin er svo auðvitað matsatriði og mætti sannarlega vera hærri. Það vekur hins vegar furðu, eins og ég kom að í upphafi, að ekki skuli bera saman frvgr. og grg. hvað tölurnar varðar. Í frvgr. er talað um 38 000 kr. fyrir hvern og viðmiðunin í 1. hluta bráðabirgðaákvæðis sem tekur til vaxtaafsláttar er tvöföld sú upphæð. En í grg. á bls. 10 er um aðrar upphæðir að ræða. Þar er talað um 34 940 kr. á einstakling og 69 880 kr. á íbúð ef tveir kaupa og báðir eiga bótarétt. Þetta er óþörf handvömm og hefur þegar ruglað menn í ríminu því að oft lesa menn skýringarnar betur en frvgr. sjálfar.

Þá er í 12. gr. fjallað um breytingar á persónuafslætti, barnabótum og barnabótaauka með hliðsjón af verðlagsbreytingum. Eins og fram kemur í fyrirvara fulltrúa Kvennalistans í álitsgerð milliþinganefndarinnar, sem áður er vitnað til, og kom raunar fram við umfjöllun þessa máls á síðasta þingi, teljum við ófært annað en að beita mánaðarlegri framreiknun persónuafsláttar og erum þar á sama báti og hv. þm. Borgarafl. og höfðum hugsað okkur að gera brtt. þar um. Ég hef með höndum útreikninga á því hverju mundi muna á þessum tveimur aðferðum, þ.e. mánaðarlegri endurskoðun persónuafsláttarins og endurskoðun tvisvar á ári eins og lögin gera ráð fyrir. Þetta er auðvitað misjafnt eftir árum, eins og hv. síðasti ræðumaður kom inn á, en stundum getur munað verulegri upphæð. Það er afar ósanngjarnt að okkar mati að beita þessari aðferð. Því hefur verið borið við að þetta væri fyrirhöfn og erfitt í framkvæmd. Því höfnum við algerlega, enda ómerkilegur fyrirsláttur á tölvuöld. Sömuleiðis mun það vera sumra álit að það sé óeðlilegt að menn hagnist yfirleitt á verðbólgu, en fyrr má nú aldeilis fyrr vera, eins og kerlingin sagði eða karlinn.

Ég get tekið hér dæmi um hvernig munurinn hefði verið á þessum tveim aðferðum árið 1983. Það var dálítið sérstakt ár, og það er ástæða til að skoða það. Persónuafsláttur hefði orðið það ár á mánuði að meðaltali 4825 kr. miðað við mánaðarlega endurskoðun, en 4065 kr. ef endurskoðað hefði verið tvisvar á ári eins og frv. gerir ráð fyrir. Frá upphafi til loka þess árs munar þetta um 18,67%, til að vera nú nákvæm, sem persónuafslátturinn hefði hækkað ef hann hefði verið reiknaður mánaðarlega en ef hann hefði verið endurskoðaður aðeins tvisvar á ári eins og frv. gerir ráð fyrir. Munurinn var sem sagt rúmlega 9000 kr.

Þannig má skoða hvernig það hefði komið út á ýmsum árum. Ég ætla ekki að rekja það allt saman, en mismunurinn t.d. árið 1986 hefði orðið, þ.e. persónuafslátturinn, breytingin frá upphafi til loka árs, um 13% miðað við mánaðarlega framreiknun en 8,3% miðað við endurskoðun tvisvar á ári. Á þessu ári er áætlað að hækkunin frá upphafi til loka árs hefði orðið 9,4% ef reiknað hefði verið tvisvar á ári en 20,4% ef mánaðarleg framreiknun hefði orðið eins og við leggjum til og hv. þm. Borgarafl. Það er ágætt að fleiri eru okkur samstiga um það.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frv. í þessari lotu. Það eru margir sem vilja komast að og segja sitt. Málið fer nú til umfjöllunar í þeirri nefnd sem ég á sæti í og þar mun ég reyna að fá umræðu um þær breytingar sem við kvennalistakonur teljum nauðsynlegar á frv. en að öðrum kosti leggja þær fram í tillöguformi við 2. umr. um málið.