08.12.1987
Neðri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Benedikt Bogason:

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin gaf út stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun 8. júlí sl. Er hún 30 síðna bæklingur í þremur köflum. Í 1. kafla, stefnuyfirlýsing og 2. kafla, starfsáætlun, úir og grúir af fögrum fyrirheitum um bjarta framtíð og blóm í haga. Þessir kaflar eru fagmannlega unnir, allt tínt til sem bitastætt er úr stefnuskrám annarra flokka. Síðan kemur 3. kaflinn á síðu 27, stuttur og ljótur og í algjörri mótsögn við fegurðina í fyrri köflum.

Í stuttu máli: Fyrstu skrefin til dýrðarinnar eru skattpíning og aftur skattpíning á almenning beint og óbeint og svo vítamínsprauta á verðbólguna sem í raun og veru var 10% hærri en talsmenn fyrrv. ríkisstjórnar héldu fram í kosningabaráttunni í vor.

Og næstu skref. Eitt þeirra er til umfjöllunar í dag, frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, þar með talin breyting skv. lögum nr. 49/1987 sem taka eiga gildi 1. jan. 1988. Maður skyldi ætla að þegar búið er að pæla í gegnum titilinn taki við gleðileg lesning um að hæstv. fjmrh. uppfyllti stefnu kratanna til margra ára að fella niður tekjuskatt af almennum launatekjum og sömuleiðis hugsanlega hæstv. forsrh. sem hefur verið að lofa sams konar aðgerð í áföngum allt frá því að hann settist í ráðherrastól. En því miður. Enginn merkjanlegur árangur í þá átt. Þvert á móti leynast ýmsar hættur fyrir launþega í frv. um hærri skatt og verri kjör þótt erfitt sé að átta sig á þessu enn þá svo öruggt sé.

Tekjuskatturinn, sem í eðli sínu er til tekjujöfnunar, hefur á undanförnum árum smám saman orðið ójöfnunarskattur. Það var m.a. viðurkennt af hæstv. fjmrh. þegar hann talaði um gatslitið tekjuskattskerfi. Misvægið í þessu gatslitna kerfi heldur áfram. Staðgreiðslan leggst með sama eða meiri þunga en áður á launþega. Eini munurinn er sá að nú er greitt tólf sinnum á ári í stað tíu sinnum áður hjá öllum þorra launþega. Engin hvíld. Stöðug píning.

Og skattbyrðin. Eins og kom fram hjá hv. 6. þm. Suðurl. er það ljóst eins og reikningsdæmið stendur að loforð og áform um mildi og minni píningu standast ekki. Það er 25% aukning á skattbyrðinni ef í heild er reiknað. Þótt stoppað sé í einhver göt gamla kerfisins stendur eftir sem áður að stór hópur manna með mikið umleikis í þjóðfélaginu sleppur að mestu við að greiða tekjuskatt. En skatturinn leggst af fullum þunga á launþega eins og áður. Þetta er mein í þjóðfélaginu sem ekki verður læknað nema með því að hækka skattleysismörk a.m.k. um helming miðað við það sem er í frv. Það er auðvelt að gera það með því að hækka persónuafsláttinn um helming þótt það kostaði hærri skattprósentu.

Ég leyfi mér að lesa hér upp úr landsfundarályktun Borgarafl. varðandi þetta mál, með leyfi hæstv. forseta:

„Skattheimta ríkisins verði gerð einfaldari og réttlátari en nú er. Tekjuskattur á almennum launatekjum verði lagður niður. Þetta á að framkvæma innan ramma staðgreiðslukerfisins. Þannig hefur það verið kannað lauslega að með 30 000 kr. mánaðarfrádrætti og 45% skatti verða árstekjur einstaklinga upp að 800 000 kr. nánast skattlausar. Það virðist vera eðlilegt að mánaðarfrádrátturinn sé í samræmi við lægstu laun þjóðfélagsins nema um endurgreiðslu á neikvæðum skatti verði að ræða. Skattbyrði einstaklings með tekjur sem eru yfir 2,5 millj. kr. á ári verður hins vegar meiri en núverandi staðgreiðslukerfi gerir ráð fyrir. Skattdreifingin virkar hins vegar sanngjarnari. Þess verður að gæta að skattbyrði launþega verði ekki aukin á laun með því að mánaðarfrádráttur fylgi ekki verðbólgunni“, eins og reyndar hefur komið fram hjá tveim síðustu ræðumönnum. „Þannig verður að hækka frádráttinn mánaðarlega í takt við t.d. lánskjaravísitölu. Sérstaklega þarf að huga að skattamálum sjómanna.“

Við höfum lagt fram brtt. til að hafa áhrif til góðs úr því sem komið er. Við viljum hlífa hæstv. fjmrh. við því að þurfa að taka ákvörðun um það í reglugerð hvaða málaflokkar tilheyra menningar- og líknarmálum og eru þess verðugir að njóta náðar hans og hverjir ekki. Við viljum að ónotaður persónufrádráttur maka nýtist 100%, en ekki 80%. Við viðurkennum ekki þetta vanmat á heimilisstörfum. Við viljum, eins og áður hefur komið fram, mánaðarlega leiðréttingu á persónuafslætti, en hv. 6. þm. Suðurl. gerði mjög ítarlega grein fyrir þeim áhrifum. Við viljum að barnabætur og barnabótaauki verði miðaður við 18 ára aldur. Það er eðlilegt í ljósi nútímans. Við viljum endurgreiðslu tekjuskatts síðustu 12 mánuðina við starfslok. En stefna okkar er eftir sem áður að tekjuskattur á almennum launatekjum verði felldur niður, skattleysismörk hækkuð a.m.k. svo mikið að ekki sé verið að skattleggja tekjur fyrir nauðþurftum miðað við lífskjörin í dag. Það kom fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. hvað það kostar að vera vísitölufjölskylda í dag.

Í þessu sambandi ber líka að hafa í huga, sem mér virðist oft gleymast, að þessi póstur á fjárlögum, sem er tekjuskattur á einstaklinga, er ekki nema um 8,5% af heildartekjum ríkissjóðs, en harmkvælin og vandinn út af þessum skatti eru margfalt meira en 8,5%.

Virðulegi forseti. Ég hóf mál mitt með því að ræða um fögur fyrirheit hæstv. ríkisstjórnar í júlí sl. Nú segja þeir: Ballið er búið, hagvaxtarskeiðið útrunnið og nú er að herða ólina. Þetta frv. ber sannarlega keim af þessari skoðun. Þess vegna er það vont frv. Almenningur í landinu skilur ekki þessar spár. Það geri ég ekki heldur nema þá hæstv. ríkisstjórn takist að setjast svo ofan á almenning og atvinnufyrirtæki með peningamálastefnu sinni, skattpíningu og áframhaldandi okurvöxtum að hin glæstu tækifæri, sem bíða við sjóndeildarhringinn, nýtist ekki landi og lýð til heilla. Það er dálítið dapurlegt að hæstv. ríkisstjórn virðist ekki ráða við góðærið. En það sem verra er. Hún virðist alls ekki geta unnt almenningi þessa lands að njóta ávaxta erfiðis fyrri ára. það er slæmt.