08.12.1987
Neðri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það hafa farið fram hér nokkrar umræður um frv. sem hér liggur fyrir og ekki að ástæðulausu. Ég vil hefja mál mitt með því að segja að ég held að þær brtt. sem hv. þm. Óli Þ. Guðbjartsson talaði fyrir séu til bóta og sérstaklega vegna þess hvernig horfir nú í sambandi við verðbólguþróun næstu mánaða. Ég get ekki betur séð en að horfi mjög illa. Ástæðurnar eru þær í fyrsta lagi að vaxtahækkun hefur orðið á valdatíð þessarar ríkisstjórnar um að meðaltali 12% á mánuði eða ef maður tekur ríkisvíxlana hefur það hækkað úr 26% upp í 41,3% sem er 60% hækkun á fimm mánuðum eða að meðaltali 12% á mánuði. Ég hef ekki heyrt að raunvextir, t.d. miðað við lánskjaravísitölu, séu nokkurs staðar hærri í veröldinni. Það er alveg sama hvort maður miðar við heilt ár, hálft ár eða þrjá mánuði. Þá kemur þetta í ljós. Og það þarf enginn að halda hvað snertir t.d. kostnað við vöruverð að það vaxtaæði sem hæstv. ríkisstjórn stendur fyrir hafi ekki áhrif á vöruverð. Auðvitað gerir það það og þar af leiðir að miðað við reynslu undanfarinna ára hafa vextirnir veruleg áhrif á verðbólguskriðið. Ég get heldur ekki séð annað, þó ég ætli ekki að fara út í það hér, en að þessi stefna leiði til þess að hæstv. ríkisstjórn strandi á því að leysa húsnæðismálin o.s.frv. En hvað um þann hóp sem hefur verið að reyna að berjast við að halda sínum íbúðum, sem byggði eða keypti á árunum 1981–1985, þar sem nú er verið að hækka vexti stórlega? Ég sé ekki annað en að með þessu frv., ef það fer í gegn óbreytt, sé verið að taka frá þeim vonina að komast fram úr hlutunum sem ekki eru þegar búnir að selja íbúðir sínar eða þær hafi verið seldar á nauðungaruppboði. Þetta er mjög alvarlegt mál.

Það liggur líka fyrir og er viðurkennt að hinir beinu skattar muni vaxa um 25% eða því sem næst. Út af fyrir sig hef ég aldrei verið á móti því að þeir sem hafa hærri tekjur borgi skatta vegna þess að það er þá verið að jafna þannig á milli og færa til þeirra sem minna hafa. En að öðru leyti virðist mér að þær aðgerðir sem nú er verið að ræða um stefni í þveröfuga átt. Ég heyrði raunar ekki alla ræðu, því miður, hv. þm. Steingríms Sigfússonar, en mér skildist hann komast að þeirri niðurstöðu að heildarskattheimtan væri best fyrir þá sem eru með lágar tekjur. En ef maður tekur alla skattheimtuna eins og hún leggur sig sé ég ekki annað en það sé verið sérstaklega að níðast á þeim. Þar á ég við fyrst og fremst óbeinu skattana. Auðvitað nýtist ekki þeim sem hafa litlar tekjur aukinn persónufrádráttur. Það nýtist ekki þeim sem hafa sultarlaun.

Ég segi að mér sýnist hér horfa nokkuð á annan veg en stefnt var að þegar þessi ríkisstjórn var mynduð. Þá var lofað vaxtalækkun. Þá var lofað hóflegum raunvöxtum. Þá var lofað því að dregið yrði úr launamun. Allt virðist þetta hafa snúist þannig að þetta eru hrein öfugmæli. Allt hefur farið öfugt og gæti ég haldið áfram upp að telja, en það gefst betra tækifæri til að taka þau mál öll í gegn þegar matarskatturinn frægi verður til umræðu og ætla ég að láta það bíða þess tíma. Ég fer sjálfsagt þá líka betur út í vaxtastefnuna og áhrifin og sýni fram á að það er ekki hægt að segja að bankaráðin ráði vaxtastefnunni því að það er búið að koma málum þannig fyrir að þau ráða engu. Það er hæstv. ríkisstjórn sem ræður henni með því að bjóða hærri og hærri vexti, jafnvel með tíu daga millibili eins og gerst hefur að undanförnu. Miðað við 90 daga víxla var fyrst boðið 39,6% en eftir tíu daga 41,3%. Ég veit ekki hvað næstu tíu dagar muni leiða í ljós, en ef svo heldur sem horfir líst mér ekki á blikuna og raunar er þetta strandstefna, algerlega. Ég heyri á einstaklingum og fyrirtækjum að þau sjá fram á gjaldþrot, blátt áfram gjaldþrot ef þessu heldur fram sem horfir. Og eins og ég sagði áðan: Hópurinn, sem verst hefur farið fyrir, sér fram á að baráttan hefur til einskis orðið þar sem þau loforð sem hafa verið gefin eru öll svikin.

Ég ætla að láta þetta duga þangað til við 2. umr., herra forseti.