08.12.1987
Neðri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram. Spurningar þær sem til mín var beint vörðuðu skattbyrði, hækkað þrep í tekjuskatti og afleiðingar þess, breytingar á persónuafslætti, fyrirkomulag húsnæðisbóta, greiðslu vaxtafrádráttar, meðhöndlun misgengishóps, hlut námsmanna að því er varðaði útgáfu skattkorta, hvenær yrði að vænta annarra frumvarpa svo sem eins og um skattlagningu fyrirtækja og eignartekjur. Að því er varðar þessi efnisatriði hafa svör þegar komið fram og þau sem ekki hafa þegar komið hér fram er að öðru leyti að finna í ítarlegri álitsgerð milliþinganefndarinnar.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson hefur þegar svarað að því er varðar spurningar um skattbyrði milli ára, breytingar á því. Í framsöguræðu minni komu fram sjónarmið mín mjög rækilega um alla hina efnisþættina, allt frá öðru þrepi í skattinum, um meðhöndlun húsnæðisbóta, um meðhöndlun vaxtafrádráttar, um skattbyrði, um misgengishóp, um hlut námsmanna. Það er kannski helst um hlut einstaklinga með sjálfstæðan atvinnurekstur. Af því að spurt var sérstaklega um bændur er um það að segja að þar verður stuðst við viðmiðunartekjur ríkisskattstjóra, þ.e. launþega í sama atvinnurekstri, en þetta hefur hins vegar fyrirsjáanlega lítil sem engin áhrif því að eins og kunnugt er er það svo vegna ákvæða laga um verðbreytingafærslur og fleira að bændastéttin á Íslandi er skattlaus og það kemur ekki til með að breytast við þessa lagasetningu.

Önnur umræðuefni voru síðan um óskyld mál, þ.e. um þau mál sem eftir er að leggja hér fram, um tolla, vörugjald og söluskatt, um hlut sveitarfélaga, um fasteignaskatt, og skattastefnu Borgarafl. sem ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar.