09.12.1987
Efri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

Fjarvera ráðherra

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Ég sé mig tilneyddan að kveðja mér hljóðs um þingsköp með hliðsjón af því að þetta er ekki í fyrsta skipti sem það kemur fyrir að ráðherra, sem á að mæla fyrir máli, er ekki til staðar þegar fundur í deildinni er settur. Hér um daginn máttu þingmenn bíða í nærri hálftíma eftir því að hæstv. fjmrh. kæmi til að mæla fyrir máli í deildinni. Sat hann þó reyndar í næsta herbergi þegar betur var að gáð, en hann sá ekki ástæðu til að hafa af því áhyggjur þó að þm. þyrftu að bíða í fullan hálftíma eftir því að honum þóknaðist að koma inn í deildina til að hefja framsöguræðu sína fyrir því máli sem þá var á dagskrá. Hér er alveg það sama á ferðinni. Hæstv. viðskrh. virðir þm. deildarinnar ekki meira en svo að honum er alveg sama hvort hann sé mættur hér eða ekki þegar hann á að mæla fyrir máli. Ég tel að þessi framkoma hæstv. ráðherra sé algerlega óþolandi og legg því til að þessum málum þeirra verði vísað frá eða þeim verði frestað og gengið til dagskrár til þeirra mála þar sem a.m.k. frsm. eru mættir.