09.12.1987
Efri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1669 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

54. mál, útflutningsleyfi

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Þótt hér sé til umræðu kerfisbreyting sem einungis er í því fólgin að flytja utanríkisverslunina yfir til utanrrn. úr viðskrn. sé ég ekkert því til fyrirstöðu að fjalla að einhverju leyti um efnisinnihald frv.

Í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Skipan útflutningsverslunar verður einfölduð og færð í átt til meira frjálsræðis þar sem aðstæður á erlendum mörkuðum leyfa.“ Þetta er háleitt markmið og undir þetta viljum við þm. Borgarafl. taka. Þótt, eins og áður er komið fram, einungis sé verið að breyta viðskrn. yfir í utanrrn. o.s.frv. stendur hér, með leyfi forseta, í 1. gr. frv.: „Utanrrn. er heimilt að ákveða að ekki megi bjóða, selja né flytja vörur til útlanda nema að fengnu leyfi.“ Þetta segir í raun og veru allt. Orðalagið er með þeim hætti að það er eins og það sé talið af hinu illa að menn séu eitthvað að kássast við það að flytja út vörur. Það er að vísu hægt að fá slík leyfi, með miklum eftirgangsmunum, en helst á ekki að flytja neitt út. Þetta er í hnotskurn lýsingin á viðskiptum Íslendinga við önnur lönd. Innflutningsverslunin er algjörlega frjáls en útflutningsverslunin er háð leyfum. Það er eiginlega gefið í skyn að það eigi ekki að veita slík leyfi, það sé bara af hinu illa að vera að reyna að flytja eitthvað út. Það eru mörg dæmi um hvernig þessi mál hafa þróast óeðlilega undanfarin ár.

Með leyfi forseta langar mig til að rifja upp ágæta sögu af hópi Íslendinga sem hitti fyrir frændur sína Dani á einhverju glæsihóteli langt úti í heimi. Þeir tóku tal saman eins eðlilegt er um frændur og nágrannaþjóðir á einum góðum stað í hótelinu þar sem menn koma gjarnan saman á kvöldin að loknum kvöldverði. Þá kom í ljós að allir Danirnir voru þar í þeim erindagjörðum að kynna danskar vörur, að reyna að auka útflutning. Allir Íslendingarnir voru hins vegar að reyna að ná sér í umboð, að reyna að flytja inn vörur. Þetta held ég að lýsi best hugarfari til viðskipta okkar við útlönd.

Við eigum mjög margt hæfra og góðra verslunarmanna sem hafa náð undraverðum árangri í innflutningsversluninni, en útflutningsverslunin er öll bundin leyfum og alls kyns hömlum, þannig að þar er miklu minna um að ræða að beitt sé frumkvæði. Að þar fái einstaklingurinn það frelsi til athafna sem hann verður að hafa til að einhver árangur náist. Útflutningsverslunin er allt of lengi búin að vera á klafa ýmissa hafta og háð hömlum og duttlungum stjórnvalda. Eins og ég ítreka enn einu sinni að það segir í lögunum að ekki megi bjóða, selja né flytja vöru til útlanda nema að fengnu leyfi.

Í stefnuskrá Borgarafl. segir með mjög einföldum orðum, með leyfi forseta: „Útflutningsverslunin verði gefin frjáls. Tryggt sé að ávallt verði farið eftir reglum um gæðamat og gæðaeftirlit vegna útflutningsvöru okkar.“ Þm. Borgarafl. í Nd. fluttu brtt. við þetta frv. þar sem var lagt til að útflutningsverslunin yrði gefin frjáls. Það var mjög lærdómsríkt og fróðlegt fyrir okkur þm. Borgarafl. að sjá hv. þm. Sjálfstfl., sérstaklega, alla greiða atkvæði gegn þessari tillögu. En sá stjórnmálaflokkur hefur hvað mest haft uppi hávaða um það að það eigi að ríkja meira frjálsræði í utanríkisviðskiptum en verið hefur. Þetta er afsakað með því að það sé aðeins verið að breyta þessu eina atriði, að færa utanríkisverslunina úr viðskrn. til utanrrn.

En ég ítreka það að lokum að það hefði verið nær að byrja á því að breyta lögunum sjálfum, efnisinnihaldi laganna, og reyna að koma þar inn breytingum sem gætu leitt af sér nútímavinnubrögð í útflutningsversluninni. Hitt hefði mátt koma miklu síðar, kerfisbreytingin, að flytja utanríkisverslunina yfir í utanrrn. úr viðskrn. Það tel ég óumræðilega lítils virði og raunverulega lítið mál og lýsi enn og einu sinni yfir furðu minni á að það sé verið að setja þetta mál á dagskrá og láta það tefja fyrir öðrum og viðameiri málum.