09.12.1987
Efri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

54. mál, útflutningsleyfi

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka þátt í þessum umræðum með þeim hætti sem hv. 7. þm. Reykn., Júlíus Sólnes, gerði, en ég held að óhjákvæmilegt sé eftir þvílíka ræðu að gera hér nokkrar athugasemdir við það sem hv. þm. sagði rétt áðan.

Það er greinilegt að hv. þm. Júlíus Sólnes hefur ekki kynnt sér það hvernig útflutningsmálum Íslendinga er háttað. Það er alrangt að það ríki ekki það frelsi í þessum málum sem hann vildi meina að væri ekki fyrir hendi. Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk hjá viðskrn. á sínum tíma munu vera á skrá í viðskrn. á fjórða hundrað aðilar sem hafa flutt út vörur frá Íslandi eða gerðu árið 1985 og 1986. Það er því auðvitað öfugmæli að halda því fram að Íslendingar fái ekki að flytja út og að þeir geri ekkert annað en að sigla til útlanda til að skemmta sér eða safna umboðum í sambandi við innflutning.

Það vill svo vel til að í þessari ágætu deild er fyrrv. viðskrh., Svavar Gestsson, sem gæti hugsanlega staðfest það sem ég sagði um það að mikill fjöldi manna hefur fengið leyfi til að flytja út ýmsan varning frá Íslandi í gegnum árin. Það eru m.a. mjög margir aðilar sem hafa flutt út skreið og er beðið eftir skýrslu um það hvernig þeirri framkvæmd leið og einnig eru nokkuð margir aðilar sem hafa flutt út frysta rækju, hörpudisk o.s.frv. Þannig að þegar hv. þm. Júlíus Sólnes, sem hefur nú vikið af fundi, er að belgja sig hér í ræðustól yfir því að menn fái ekki frelsi til athafna á þessu sviði er hv. þm. að fara með rangt mál.

Hins vegar liggur það í augum uppi að það eru skiptar skoðanir um það hvort ráðuneyti þurfi að koma við sögu í sambandi við útflutning á viðkvæmum og veigamiklum vöruflokkum. Um það hafa menn deilt hér. Án þess að fara frekar út í þá umræðu mun deilan einkum hafa snúist um frystar sjávarafurðir til Bandaríkjanna á síðustu árum. En ég geri ráð fyrir að hæstv. viðskrh. hljóti að fara að hugsa sér til hreyfings í sambandi við aðra aðila. Ég nefni sem dæmi: Hann og hans sérfræðingar hljóta að hafa skoðað það hvernig á að haga útflutningi á saltfiski, síldarafurðum og öðru.

Talandi um frelsi er það náttúrlega „relatívt“ hvað er að vera frjáls. Það er örugglega hægt að skoða fleiri svið í íslensku þjóðlífi og atvinnulífi þar sem meira frelsi mætti ríkja en á því sviði sem menn eru að tala um þegar þeir tala um utanríkisviðskipti.

En í sambandi við útflutning, sem og öll viðskipti, þurfa menn að fullnægja ákveðnum skyldum. Það er mjög auðvelt og létt að tala um að flytja út vöru. En þegar verið er að tala um að flytja út íslensk matvæli skulu menn hafa það í huga að það er verið að flytja út þá vöru sem er grundvallaratriði fyrir íslenskt þjóðfélag, og það er ekki sama hvernig á er haldið. Mistök í sambandi við gæði geta kostað íslensku þjóðina, ekki nokkrar milljónir, heldur hundruð milljóna, því hvað sem öllum fullyrðingum líður um það að einstakir útflytjendur muni tryggja það að gæði vörunnar séu í lagi, þannig að íslenskar vörur hafi ekki skaða af ef varan er ekki í góðu standi eða léleg, er það staðreynd að þau fyrirtæki sem hafa séð um útflutning á sjávarafurðum frá Íslandi hafa varið miklum fjármunum í það að tryggja að gæðin væru með þeim hætti að allar íslenskar vörur sömu gerðar og samkynja nytu góðs af. Það er ekki víst að allir aðrir útflytjendur geti veitt sambærilega tryggingu.

Í umræðum um þessi mál í Nd. þann 7. des. kom það m.a. fram í ræðu hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, 1. þm. Vestf., að hann hafði aflað sér upplýsinga um hvað þessi sölusamtök, sem helst er nú ráðist að af hálfu þeirra sem kvarta undan því að þeir hafi ekki haft nægilegt frelsi til að flytja út frystar sjávarafurðir, hefðu varið miklu til þeirra þátta sem máli skipta ef árangur á að nást, í stórum stíl, á undangengnum árum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem hv. þm. hafði fengið um það segir m.a., með leyfi forseta, og les ég upp úr ræðu hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hafi á árunum 1984–1987 varið samtals 260 millj. kr. í þá starfsemi að vinna að og þróa afurðir og vinnslutækni. Á verðlagi hvers árs námu þessi útgjöld 1984 31 6 millj., 1985 51,2 millj., 1986 56,9 millj. og árið 1987, þ.e. í ár, er áætlað að þessi upphæð verði 65 millj. kr.

Fyrirtæki Sölumiðstöðvarinnar í Bandaríkjunum hefur varið til vörukynningar, vöruþróunar, auglýsinga og gæðastjórnar á sama tímabili árið 1984 3,7 millj. dollara, árið 1985 4,4 millj. dollara, 1986 9,9 millj. dollara og 1987 er áætlað að þetta séu 5 millj. dollara.

Samband ísl. samvinnufélaga vinnur að markaðsöflun og tryggingu vörugæða með sambærilegum hætti og útgjöld sjávarafurðadeildar SÍS í Bandaríkjunum voru á sama tíma, þ.e. 1984–1987, sem hér segir í dollurum: Árið 1984 1,7 millj. dollara, 1985 2,8 millj. dollara, 1986 3,2 millj. dollara og 1987 er áætlað að það sé varið 3 millj. dollara.

Í sambandi við gæðaeftirlit og vöruþróun hefur sjávarafurðadeild SÍS, miðað við verðlag hvers árs á þessu sama tímabili, varið á árunum 1984–1987 sem hér segir í gæðaeftirlit og vöruþróun: Árið 1984 22,6 millj. kr., 1985 31,7 millj. kr., 1986 44,7 millj. kr. og áætlað 1987 54 millj. kr.

Hvað snertir tölurnar hjá Sambandinu, sem flytur út meira en frystar sjávarafurðir, þá er áætlað að af þessum kostnaði séu 96–98% vegna frystra sjávarafurða.

Auk þessa hefur Sölusamband ísl. fiskframleiðenda varið í sölu og markaðsmál um 40 millj. kr. á ári á núvirði á síðustu fimm árum.

Það getur vel verið að sumum finnist þetta ekki háar tölur en hér er verið að vísa til fjögurra ára og í stórum dráttum hafa þrjú fyrirtæki varið á þessum árum í sambandi við vöruþróun, vörukynningu, auglýsingar og gæðaeftirlit hátt í einn milljarð. Það getur verið að mönnum þyki þetta ekki miklar eða merkilegar upphæðir og í þessu séu ekki falin merkileg störf. Það er oft talað um þetta eins og þeir sem hafa fjallað um þessi mál á vegum þessara samtaka séu örfáir einstaklingar. Ef ég man rétt var einhvern tímann talað um að það væru hinir útvöldu og fannst mér það afar „smekkleg“ samlíking, en sleppum því. Það vill svo til að á vegum þessara fyrirtækja starfa hundruð manna heima fyrir og erlendis. Þetta er fólk sem hefur fengið sérmenntun í því að fjalla um gæða- og framleiðslustörf. Það er sérmenntað í markaðs- og sölumálum o.s.frv., þannig að það er ekki hægt að tala um það að hér séu fáir aðilar eða fáir einstaklingar að fjalla um stóra hluti. Þetta hefur verið gert í samtaka átaki og það hefur verið gert of lítið úr störfum þeirra sem hafa fjallað um þetta og ranglega talað um það að þessi starfsemi fari fram í skjóli ófrelsis, hafta o.s.frv. Í staðinn á að koma þetta „ágæta“ frelsi þar sem sérhver á að geta flutt út eins og honum sýnist án þess að þurfa að bera nokkra sérstaka ábyrgð á vörugæðum og öðru umfram það sem er í eigin mati eða þess kaupanda sem viðkomandi selur til. Engar sérstakar kröfur eru gerðar um lágmarks samræmda gæðastaðla, sem er grundvallaratriði.

Það vill svo til að það eru fleiri þjóðir en Íslendingar sem selja og flytja út frystar sjávarafurðir. Ég nefni sem dæmi Norðmenn. Í Noregi munu það einkum vera tvö fyrirtæki sem flytja út frystar sjávarafurðir, það er fyrirtækið Frionor, sem er samtök mjög margra frystihúsa, ef ég man rétt tæplega 100 hraðfrystihúsa, og fyrirtækið Nordic Group. Þessi tvö fyrirtæki munu flytja út um eða yfir 90% af frystum sjávarafurðum frá Noregi, þ.e. af þeim fisktegundum sem við erum að tala um þegar verið er að tala um útflutning til Bandaríkjanna.

Norðmönnum finnst sjálfsagt að hafa þetta fyrirkomulag á útflutningi frystra sjávarafurða. Það er ekki ráðist á þessi fyrirtæki með sama hætti og hér er gert, bæði af hæstv. ráðherrum og alþm. ákveðinna flokka, svo ég tali nú ekki um öðrum óskyldum aðilum, og reynt að gera störf þessara fyrirtækja tortryggileg í Noregi. Þar þykir þetta sjálfsögð ráðstöfun til þess að tryggja mikla hagsmuni. Núna nýlega var verið að sameina sex fyrirtæki sem hafa flutt út saltfisk vítt og dreift bæði um Evrópu og til annarra álfa. Það var verið að sameina sex norsk útflutningsfyrirtæki í eitt fyrirtæki sem heitir Unidos sem á að sjá um allan útflutning á saltfiski frá Noregi í framtíðinni. Þetta finnst Norðmönnum sjálfsagt og Norðmenn hafa náð geysilega miklum árangri í sambandi við sína útflutningsverslun eins og Íslendingar. Það er rétt, eins og kom fram hér í ræðu eins hv. alþm. áðan, að það þarf að fjalla um það líka efnislega hvað hér er á ferðinni þegar menn eru að taka afstöðu til þess hvort leyfisveitingar eigi að vera áfram eða ekki á vegum ráðuneyta. Ég tel það nauðsynlegt að vissu marki að þessi háttur sé á hafður eins og hingað til.

Hér liggur fyrir frv. til laga um það að færa þessa starfsemi yfir í utanrrn. Út af fyrir sig get ég fallist á það að sú tilraun sé gerð en hef ekki þá sannfæringu sem sumir aðrir að það hljóti endilega að verða til hins betra. Þetta hefur verið mjög gott hjá viðskrn. í gegnum árin en þar sem það er greinilegur vilji margra að láta á það reyna hvort unnt sé að nýta betur íslenska utanríkisþjónustu, sem er og heyrir undir utanrrn., þá finnst mér rétt að reyna það og ef það reynist ekki sem skyldi að breyta þá til fyrra horfs, að sjálfsögðu með nauðsynlegum breytingum að fenginni reynslu.

Ég skal ekki, herra forseti, orðlengja þetta frekar en ég endurtek að það er alrangt sem haldið er fram að fáir Íslendingar fái að flytja út vörur. Á skrá í viðskrn. eru á fjórða hundrað aðilar sem hafa flutt út íslenskar vörur í gegnum árin og ég vil eiginlega óska eftir því að hæstv. viðskrh. leggi fram þessa skrá hér í hv. deild þar sem greint er frá nöfnum þessara fyrirtækja og einnig hvers kyns vörur eru á ferðinni. Ég held að það hljóti að vera mjög auðvelt vegna þess að þessi skrá var fyrir hendi og afhent á sínum tíma sem trúnaðarmál á fundi í stjórn Útflutningsráðs.