09.12.1987
Efri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1673 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

54. mál, útflutningsleyfi

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég vildi nú byrja á því að þakka hv. 7. þm. Reykv. fyrir fróðlegt yfirlit yfir sögulega þróun viðskrn. og verkefna þess. Það var vissulega þarft yfirlit og í því ráðuneyti hefur verið unnið gott starf, og er unnið gott starf. Hins vegar gat ég ekki verið sammála hv. 7. þm. Reykv. þegar hann hélt því fram að mjög lítið væri eftir af verkefnum í þessu ágæta ráðuneyti. Ég vildi vekja athygli hans og hv. þingdeildar á því að samkvæmt gildandi reglugerð um Stjórnarráðið fer þetta ráðuneyti nú með átta eftirgreind verkefni:

1. verslun og viðskipti, önnur en útflutningsverslun;

2. skipti Íslands við alþjóðleg efnahagssamtök og fjármálastofnanir;

3. gjaldeyrismál;

4. málefni Seðlabanka Íslands, annarra banka og sparisjóða;

5. gjaldmiðil og myntsláttu;

6. verðskráning og verðlag nema lagt sé til annars ráðuneytis;

7. hlutafélög, samvinnufélög og önnur félög um verslun eða annan atvinnurekstur;

8. verslunarskrár og firmu.

Þetta eru allt saman mikilvæg verkefni og enn fer viðskrn. með mikilvæg málefni sem varða viðskiptatengsl Íslands við önnur lönd.

Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. 7. þm. Reykv. að auðvitað orkar sú breyting sem hér er til lögð tvímælis. Það kom einnig fram í máli hæstv. utanrrh. þegar hann mælti fyrir frv. þessu í Nd. og kom reyndar glöggt fram í nál. og við þessar umræður. En hver skyldi svo vera kjarni málsins sem hér liggur fyrir? Hann er sá að mínu viti, og hann kemur einmitt fram í þeim orðum sem hv. 7. þm. Reykv. vitnaði til úr lögunum um Stjórnarráðið, að reynt skuli að haga svo til skiptingu Stjórnarráðsins í ráðuneyti að unnt sé að skipa skyldum eða hliðstæðum málum undir eitt og sama ráðuneyti. Það er einmitt meginregla stjórnarráðslaganna að utanrrn. fari með samninga Íslands við önnur ríki og gerð þeirra. Þar hefur þó lengi verið sú undantekning að viðskrn. hefur farið með viðskiptasamninga við önnur ríki og gerð þeirra. Nú er lagt til að þetta breytist, þ.e. að utanrrn. fari með þessa samninga sem aðra við erlend ríki. Þarna togast auðvitað á það sjónarmið sem kom fram í máli hv. 7. þm. Reykv. að heppilegt væri að mörgu leyti að öll viðskipti heyrðu undir eitt og sama ráðuneyti og hitt að öll skipti Íslands við önnur ríki heyri undir eitt og sama ráðuneyti. Þetta verður aldrei gert fullkomlega upp klárt og kvitt en fyrir því eru nú gild stjórnmálaleg rök að fela einmitt þeim manni, því ráðuneyti, utanrrn. sem fer með skipti Íslands við önnur ríki, viðskiptasamningana, skipti okkar við Evrópubandalagið og Fríverslunarsamtök Evrópu. Það er t.d. alveg ljóst að skiptin við þetta mikla markaðssvæði, Evrópubandalagið, en þangað seljum við nú meira en helminginn af því sem við flytjum út og kaupum þaðan meira en helminginn af því sem við flytjum inn, verði á næstunni einn mikilvægasti þátturinn í okkar utanríkisstefnu og því mikilvægt að þarna sé samstilling kraftanna og verði á hendi þess sem fer með utanríkismálin. Þetta er í mínum huga meginröksemdin fyrir því að færa þessi samskipti yfir til utanrrn. Þessi rök eru ekki endilega varanleg enda tel ég að menn eigi ekki að mikla það fyrir sér um of að gera fyrirkomulagsbreytingar á skrifstofum ráðherra, en það eru ráðuneytin; þau eru starfstæki þeirra til að framkvæma stefnu ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma og þess vegna á ekki að líta á þau, þótt þau hafi starfað í lítt breyttu formi um langt skeið, sem óbreytanlegar stofnanir. Þetta er sjónarmið sem ég hygg að 7. þm. Reykv. mundi vilja kannast við.

Hann hreyfði réttilega, af heilbrigðri íhaldssemi, spurningum eins og þessum: Er ástæða til að breyta því sem lengi hefur gengið vel? Hefur viðskrn. ekki sinnt sínum verkefnum vel? Svarið er auðvitað já. Það sama og hann gaf. Síðan var spurt hvort utanrrn. hefði fyrir fram sérstakar forsendur til þess að gegna þessum verkefnum betur en viðskrn. Svarið er nei, það hefur nú ekki neinar sérstakar forsendur til þess, þótt þær megi byggja upp. Í þriðja lagi var spurt: Eru líkur til að þessu fylgi sparnaður? Svarið er líklega líka nei.

Ástæðurnar fyrir flutningnum eru fyrst og fremst þær sem ég nefndi. Það sem er mikilvægt í málinu er að ná þeim stjórnmálalegum árangri sem ætlunin er að ná með því að færa útflutningsörvandi starfsemi til utanrrn. í þeirri trú að þannig getum við nýtt betur starfskrafta Stjórnarráðsins alls og sérstaklega að leggja áherslu á það sem ég nefndi: Samskiptin við evrópubandalögin tvö.

Ég geri ekki mikið úr því sem kom fram í máli hv. 7. þm. Reykv. að í mörgum EFTA-löndum sé þetta fyrirkomulag ráðuneyta öðruvísi. Það má um það deila hvað sé eins þegar stofnanir eru bornar saman milli landa. Það er vitað mál að utanríkisviðskiptin hafa í Svíþjóð og í Noregi tiltölulega nýlega verið færð til utanríkisráðuneytanna, að vísu undir sérstökum utanríkisviðskiptaráðherrum, eins og réttilega kom fram í máli hv. 7. þm. Reykv. Í Danmörku hins vegar er fyrirkomulagið með öðrum hætti einmitt af þeirri ástæðu að þar eru samskiptin við Evrópubandalagið sérstaklega mikilvæg fyrir utanríkisstefnu og þess vegna hefur það málasvið verið falið utanríkisráðherranum. Þetta á að nokkru leyti við hér hjá okkur. En ég tek undir að það er mjög mikilvægt að menn virði það sjónarmið að viðskipti eru í eðli sínu ekki auðklofin upp í utanríkisviðskipti og innanríkisviðskipti. Það fer mjög oft vel saman að menn sinni hvoru tveggja. Niðurstaðan er sem sagt sú að þetta sé tilraun sem vert sé að reyna, eins og komið hefur fram í máli nokkurra hv. þingdeildarmanna.

Ég vildi að endingu víkja örfáum orðum að því sem kom fram í máli hv. 14. þm. Reykv. Það er auðvitað alveg rétt sem kom fram í hans ræðu að öllu frelsi fylgir ábyrgð. Útflutningsfrelsi eins og öðru. Hins vegar mega menn ekki vera svo uppteknir af þessu sjónarmiði að þeir hafist ekki að til þess að rýmka þar um sem rök standa til og markaðsaðstæður erlendis leyfa. Með þeirri breytingu á útflutningsleyfum er engri rýrð varpað á gott starf

Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna eða Sambands ísl. samvinnufélaga á þessu sviði, eða dótturfyrirtækja þeirra í Bandaríkjunum. Þau hafa unnið þar gott starf en það er engu að síður nauðsynlegt að tryggja jafnræði þegnanna gagnvart þessum leyfisveitingum, athafnafrelsi þeirra má ekki skerða nema það sé alveg ótvírætt að almannaheill bjóði og við þær breyttu aðstæður sem nú ríkja, þ.e. samskipti við þennan markað eru nú á færi miklu fleiri en áður var, þarna er engin hætta á ferðum fyrir þessi stóru samtök þótt fleiri fái að spreyta sig. En þar með er ég farinn að ræða efnisþátt málsins sem þó var ekki ætlun mín og ég tek það fram að frv. fjallar fyrst og fremst um formlegt forræði málaflokksins en ekki innihaldið í stjórnuninni.

Hv. 14. þm. Reykv. beindi því til mín hvort þess væri kostur að þm. fengju að kynnast útflytjendaskrám sem Hagstofan heldur og viðskrn. einnig. Ég mun kanna það með hvaða hætti það er unnt. Það er vafalaust rétt eins og kom fram hjá hv. 14. þm. Reykv. að á þeirri skrá séu býsna margir en eitt mun þó vekja athygli annarra en hans að til stærsta neytendamarkaðar heims eru útflytjendurnir hér á landi frekar fáir.