20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

12. mál, umhverfismál

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna ummæla hv. fyrirspyrjanda um að hann beri kvíðboga eða ugg í brjósti um að ekki verði fylgt eftir málum svo sem ákveðið hefur verið þá er ástæða til að létta þeim kvíða af hv. þm. Það verður unnið að framgangi þessa máls mjög markvisst og nefndin, sem hefur þetta verkefni með höndum, ætlar sér að ljúka því á tilsettum tíma.

Það var ágreiningur um það á sínum tíma hvort stofna ætti sérstakt umhverfismálaráðuneyti. Það er ekki ætlunin að gera það með þessum tillögum, heldur að fela einu ráðuneyti, núv. ráðuneyti, yfirstjórn þessara mála. Það mun vafalaust leiða til einhvers verkefnatilflutnings á milli ráðuneyta, en ég hygg að öllum eigi að vera ljóst að öll þau verkefni og öll þau svið opinberrar stjórnsýslu þar sem umhverfismála þarf að gæta verða auðvitað ekki færð í eitt ráðuneyti. Það er ástæðulaust að taka þá ábyrgð frá aðilum í stjórnkerfinu og færa hana alla á einn stað. Sú mikla ábyrgð að gæta að umhverfismálum sem víðast í stjórnkerfinu á að koma þannig fram og á þeim grunni verður unnið að þessari skipulagsbreytingu, en yfirstjórn þessara mála þarf að vera samræmd og virkt samstarf á milli þeirra fjölmörgu aðila sem þurfa að gæta að þessu veigamikla verkefni sem við þurfum í vaxandi mæli að huga að í framtíðinni.