09.12.1987
Neðri deild: 20. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1692 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

70. mál, Norræni fjárfestingarbankinn

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um heimild fyrir ríkisstjórnina til að auka hlutafé Íslands í Norræna fjárfestingarbankanum. Ég mælti fyrir því máli í Ed. í forföllum samstarfsráðherra, Matthíasar Á. Mathiesen, en ég gegndi fyrir hann í veikindaforföllum hans, en hann er nú fjarverandi.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa langt mál um frv. Hér er um að ræða samkomulag sem hefur orðið milli ríkisstjórna Norðurlandanna um að efla þennan banka sem hefur gert mikið gagn. Hann hefur reynst okkur Íslendingum vel varðandi ýmis mál, hvort sem það eru virkjanir, fyrirtæki á ýmsum sviðum. Það er að mínu mati mikil ástæða til að efla þennan banka. Hann hefur getið sér gott orð á alþjóðlegum vettvangi, nýtur þar mikils trausts og fær þar af leiðandi fjármagn á lægstu vöxtum. Þetta traust bankans nýtist að sjálfsögðu Norðurlöndunum og ekki síst okkur Íslendingum að því leyti að við getum í gegnum hann fengið fjármagn á hagkvæmum kjörum til hinna ýmsu framfaramála í landinu.

Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.